Útvarpslög

106. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 19:14:00 (4635)

     Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka umræðuna sem hefur orðið um þetta frv. Það var náttúrlega vitað að ekki yrðu allir á eitt sáttir um málefni menningarsjóðsins en engu að síður eru flm. sannfærðir um að sjóðurinn hefur ekki reynst sem skyldi. Það var vitað að hv. þm. Svavar Gestsson mundi verja reglugerðina sem hann setti sjálfur í fyrra, en það hefur komið í ljós að sjóðurinn hefur ekki aukið menningardagskrá útvarpsstöðvanna og síðan efast þingmaðurinn um að 10%, sem nú fara til menningarsjóðsins, munu fara í dagskrá hjá

stöðvunum. Útvarpsstöðvarnar munu auðvitað ekki lækka auglýsingaverðið ef þær geta selt auglýsingar sínar á þessu verði í samkeppni á hinum almenna markaði, þær halda auðvitað þeirri upphæð þó svo að menningarsjóðurinn verði lagður niður.
    Ég vil þakka hv. þm. fyrir að upplýsa okkur um alla neðanjarðarstarfsemi sem farið hefur fram við endurskoðun útvarpslaganna. ( Gripið fram í: Þetta var nú bara lítið af því.) Já, við fáum kannski meira seinna. En hann gat þess í máli sínu að Ríkisútvarpið væri móðir og faðir Sinfóníuhljómsveitarinnar, og það er alveg rétt, og með því að samþykkja þetta frv. væri engin lagaleg stoð fyrir tengslum þessara stofnana eða eitthvað í þá veru. Það þurfa kannski ekkert að vera nein lagaleg tengsl. Ég efast ekki um að Ríkisútvarpið beri bæði móður- og föðurlegar tilfinningar til Sinfóníuhljómsveitarinnar og yfirmenn Ríkisútvarpsins hafa lýst því yfir að þeir telji frjálsan samning milli Ríkisútvarpsins og Sinfóníuhljómsveitarinnar sem stofnunar eðlilegan. Ég hef það eftir fjármálastjóra útvarpsins að hann teldi samning upp á 25 millj. kr. greiðslu frá Ríkisútvarpinu til Sinfóníuhljómsveitarinnar fyrir flutning vel koma til greina og þá er nú langt komið upp í það sem ætti annars að koma úr ríkissjóði að mínu mati. Kæmu síðan aðrar stöðvar í kjölfarið með samning við sinfóníuna væri bilið brúað fljótt.
    Það getur vel verið að við þurfum menningarsjóð en hann á ekki að byggja á skattlagningu eins menningarmiðils umfram aðra. Og varðandi kvikmyndagerðarmennina, þá var það aldrei ætlunin að kvikmyndagerðarmenn fengju úthlutanir úr sjóðnum og ég held að kvikmyndagerðarmenn geti vel við unað, þeir fá að framleiða 25% af öllu innlendu efni Ríkisútvarpsins, sjónvarps. Sé það vilji stjórnvalda að styðja frekar við kvikmyndagerð, sem ég tel æskilegt, á auðvitað að styrkja kvikmyndasjóðinn enn betur og veita úr honum fé til sjónvarpsmynda og veigameiri heimildamyndagerðar. Það leiðir líka af sjálfu sér að ef sjónvarpsstöðvarnar fá meira dagskrárfé til ráðstöfunar þá eykst hlutur kvikmyndagerðarmanna í dagskrárframleiðslu stöðvanna. Það er alveg augljóst.
    En þar sem er langt liðið á fundartímann vil ég að lokum þakka umræðuna og vona að málið fái farsæla afgreiðslu í þinginu og menningarsjóðurinn verði lagður niður.