Lyfjatæknaskóli Íslands

107. fundur
Mánudaginn 23. mars 1992, kl. 14:03:00 (4641)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég lýsi stuðningi við afgreiðslu hv. þingnefndar á málinu.
    Ég vil aðeins segja varðandi þær skoðanir sem komu fram hjá hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að mér þykja þær að ýmsu leyti athyglisverðar en þær eru ekki í samræmi við þá stefnu sem hefur verið höfð uppi hér að undanförnu, að færa þessa skóla undir hatt menntmrn. Það held ég að sé rétt stefna og ég styð hana.
    Ég sé ekki alveg hvers vegna t.d. iðnmenntunin eins og hv. þm. nefndi ætti að vera betur komin í iðnrn. Ég fellst ekki á þá röksemdafærslu hv. þm. að hún ætti að vera betur komin þar að því er mér skildist vegna þess hvers konar fólk starfar í viðkomandi ráðuneytum. Það var það helsta sem ég fékk út úr máli hv. þm. Ég skil ekki heldur þá röksemdafærslu sem kom fram í ræðu þingmannsins um að gæði menntunarinnar færu minnkandi. Ég veit ekki alveg hvernig á að skilja þessi orð. Er það vegna þess að sérskólarnir eru að færast meira og meira undir hatt menntmrn.? Ég hefði haldið að það mætti einmitt búast við því að menntuninni væri betur komið í menntmrn. og það er dálítið einkennileg röksemdafærsla að segja að gæði menntunarinnar fari minnkandi vegna þessa. Kannski hef ég misskilið hv. þm. og satt að segja vona ég það.
    Menntmrn. fellst á það að færsla Ljósmæðraskólans bíði, eins og hér er lagt til, til 1994 eða að lögin falli ekki úr gildi fyrr en 1. júlí 1994. Menntmrn. hefur ekki neitt við það að athuga.
    Ég held að það sé ekki fleira sem ég þarf að taka fram í þessu samhengi. Aðeins ítreka ég að ég styð afgreiðslu hv. þingnefndar.