Lyfjatæknaskóli Íslands

107. fundur
Mánudaginn 23. mars 1992, kl. 14:10:00 (4643)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Mér finnst full ástæða til að taka dálítið af þessum degi til þess að ræða aðeins um menntamál, skólamál, atvinnulíf og skóla. Ég ætlaði aðeins að rökstyðja mál mitt betur vegna þess að þær ábendingar sem fram komu hjá hv. 10. þm. Reykv. um það mál eru út af fyrir sig réttar, þ.e. það sem hún segir að engin trygging sé fyrir því að nám lendi ekki í blindgötum sé það inni í menntmrn. Það er alveg rétt. Við sjáum auðvitað mörg dæmi um það á undanförnum árum að tilteknir skólar vildu lokast á blindgötum vegna þess að starfsemi þeirra var ekki tengd við aðra skóla enda þótt viðkomandi skóli væri í menntmrn., það er alveg hárrétt. Það er líka hárrétt að það er út af fyrir sig hægt að hugsa sér að tekin séu upp skipuleg og fagleg tengsl á milli skóla, jafnvel þó að annar sé í menntmrn. en hinn í landbrn. eða jafnvel félmrn. En eins og kunnugt er liggur fyrir viðamikið frv. um það að stofna verulegt skólakerfi inni í félmrn. þannig að núv. ríkisstjórn er ekki mjög sjálfri sér samkvæm í þeirri stefnu sem hæstv. menntmrh. var að lýsa frekar en aðrar ríkisstjórnir. Að þessu leytinu til er hægt að koma á samstarfi milli skóla en er það í sjálfu sér einfalt. Það samstarf verður að byggjast á tilteknum forsendum og það samstarf getur ekki byggst á öðru en forsendum sem aðilar koma sér saman um. Það verða í grófum dráttum að vera forsendur einhvers skólasamfélags hvort sem sá skóli er undir menntmrn. eða einhverju öðru ráðuneyti. Spurningin er þá hvort við erum nokkuð betur sett með því en að menntmrn. sjái um þessa hluti og reyni þannig að hafa yfirsýn og reyni að tengja skólana betur saman en ella væri. Ég þekki líka dæmi þess að þegar fagráðuneyti eru með skóla hafa þau tilhneigingu til þess að loka skólann inni hjá sér af ýmsum ástæðum. Ég gæti í því sambandi t.d. nefnt landbrn. án þess að ég sé að gagnrýna þá menn sem þar hafa setið sem ráðherrar. Það er nú einu sinni þannig að kerfið vill stundum lifa sjálfstæðu lífi hverjir sem sitja í ráðherrastólunum og staðreyndin er sú að hætta er á því að ráðuneytin vilji loka sig af með þessa hluti og ógjarnan hleypa menntmrn. að þeim. Þess vegna held ég að það sé mjög vafasamt að fara að setja upp skólakerfi inni í félmrn. sem nú er gerð tillaga um og í annað sinn reyndar, var gerð á síðasta eða næstsíðasta þingi held ég líka. Ég bendi á að það er mál sem er hér til meðferðar og við áttum auðvitað að skoða sérstaklega.
    Það er líka mikið umhugsunarefni hvort samþætting verknáms og bóknáms, sem hefur verið í skólakerfinu, skilar sér með þeim hætti sem menn hefðu viljað. Svar mitt er nei. Það hefur ekki enn þá skilað sér nægilega vel. Í þeim efnum þarf að gera miklu meira. Ég held að eitt af því sem menn hafa gert vitlaust í því efni sé það að menn reyndu um skeið að flytja allt verknám inn í skólana þannig að verknámið sjálft yrði kennt í skólunum alveg á sama hátt og bóknámið. Þetta er ekki hægt, fyrst og fremst vegna þess að þau tæki sem nemendur þurfa að kynnast úti í atvinnulífinu eru úti í atvinnulífinu og skólakerfið mun ekki og hefur ekki efni á því að kaupa þau tæki inn í skólana sem þyrftu. Ég get nefnt dæmi af tölvustýrðum fræsara Fjölbrautaskólans á Akranesi sem er óskaplega merkilegt tæki en mjög dýrt og er mjög ólíklegt að fleiri fjölbrautaskólar á Íslandi geti keypt sér tölvustýrðan fræsara. Þess vegna er miklu skynsamlegra að gera samninga milli skólanna og atvinnufyrirtækjanna um aðgang að tækjunum, aðgang að atvinnulífinu. Þá er ég ekki að tala um að samið sé um menntunina á þann hátt sem verið hefur í iðnnámi, að einn iðnnemi sé alltaf hjá sama meistaranum alla tíð. Ég er fyrst og fremst að tala um að þetta geti gerst með þeim hætti að sami iðnneminn geti verið hjá mörgum meisturum, mörgum fyrirtækjum og lært mjög víða. Við þekkjum það líka að núv. iðnnámskerfi er afar þröngt að þessu leytinu til og oft er það þannig að fólk lærir sorglega lítið í iðnnámi og fær lítið annað að gera en sópa gólf fyrstu eitt eða tvö eða jafnvel þrjú missirin. Dapurlegustu dæmin um það í iðnnáminu eru auðvitað í hárgreiðslunni þar sem oft er mjög illa staðið að hlutum og ég þekki úr mínu fyrra starfi þegar ég vann hjá Iðnnemasambandi Íslands fyrr á öldinni. Þetta er ekki einfalt mál. Hins vegar er ástæða til að ræða það og ég hef oft velt þessu fyrir mér og ég er alveg ákveðið þeirrar skoðunar að það sé rétt skref að flytja Lyfjatæknaskólann eins og verið er að gera af almennum faglegum og þjóðfélagslegum ástæðum líka. Þess vegna styð ég þetta frv. með góðri samvisku. En það er auðvitað með þetta mál eins og önnur að menn eiga auðvitað alltaf að spyrja sig spurninga: Til hvers? Út af fyrir sig er ágætt þó að það sé umdeilanlegt að þingnefnd reyni a.m.k. einu sinni á ári að finna upp hjólið jafnvel þó ekki sé flutt mál um það á Alþingi.