Lyfjatæknaskóli Íslands

107. fundur
Mánudaginn 23. mars 1992, kl. 14:25:00 (4648)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér hafa umræður beinst nokkuð að skipulagi skólamála og er sannarlega ástæða til þess að velta þeim fyrir sér. Ég get tekið undir að það er mjög mikilvægt að einhvers staðar sé yfirsýn yfir menntun í landinu. Vissulega vakna ýmsar spurningar varðandi þá þróun sem hefur átt sér stað þar sem menntunin er færð inn í sífellt stærri fjölbrautaskóla sem að mínum dómi þarf að athuga mjög gaumgæfilega hvort hafa skilað þeim árangri sem til er ætlast.
    Eins og fram kom í máli hv. 9. þm. Reykv. óttast hann hólfun og stálþil á milli skóla en mér

finnst að það sem hann sagði hér áðan spegli stálþil á milli ráðuneyta. Ég fæ ekki séð að það þurfi að koma í veg fyrir samvinnu milli ráðuneyta þó að ýmsir skólar og ýmiss konar menntun sé hjá fagráðuneytum eða fagráðuneyti séu í einhverjum tengslum við viðkomandi menntun. Mér finnst einmitt að það þurfi að vera mikil samvinna ráðuneyta í milli og við hljótum að spyrja okkur hver þekki best þörfina fyrir menntun. Það eru annars vegar þeir sem vinna störfin og hins vegar þeir sem stjórna viðkomandi málaflokkum.
    Allmikið hefur verið rætt um frv. um starfsmenntun í atvinnulífinu og það frv. er nú til meðferðar í menntmn. þar sem ég á sæti. Ég verð að segja að eftir þá umfjöllun sem þar átti sér stað þá vissi maður eiginlega hvorki upp né niður hvernig ætti að snúa sér í þeim málum, þar bar svo mikið í milli sjónarmiða. Mér fannst mjög skiljanlegt það sjónarmið félmrn. að vilja hafa eitthvert tæki í sínum höndum til þess að t.d. grípa inn í ástand eins og nú er þegar atvinnuleysi eykst. Ráðuneytið vill beita sér fyrir námskeiðum og öðru sem verða mætti til þess að beina fólki yfir í önnur störf eða auka möguleika til annarra starfa. Síðan kemur sjútvrn. og vill fyrir engan mun að félmrn. yfirtaki þá menntun sem það hefur með höndum. Mér finnst það líka mjög skiljanlegt sjónarmið því að sjútvrn. hefur staðið mjög vel að þeim málum eftir því sem ég best veit. Búið er að byggja upp menntun og koma á samráði milli fjölmargra aðila. Þeir ráðuneytismenn vita hvað þeir hafa en þeir vita ekki hvað þeir fá ef slík breyting ætti sér stað, enda náðist samkomulag um það að sjútvrn. eitt ráðuneyta héldi starfsmenntun sinni eftir. Síðan koma þeir sem vilja að þetta allt heyri undir menntmrn.
    Ég held að tengsl milli skólakerfis og vinnumarkaðar séu allt of lítil og hægt sé með ýmsum hætti að draga atvinnulífið miklu meira inn í menntakerfið. Í rauninni finnst mér að þar sem starfsmenntun og endurmenntun á í hlut eigi atvinnulífið sjálft fyrst og fremst að skipuleggja þá menntun. Það þekkir best þörfina en auðvitað getur ríkisvaldið komið inn í með sérþekkingu sína og starfslið sitt til aðstoðar.
    En fyrst við erum hér að ræða um skipulag skólamála er auðvitað ekkert sem segir að menntmrn. eða fagráðuneyti eigi að hafa þetta allt í sínum höndum. Svíar hafa gert mikla breytingu á skólakerfi sínu þar sem þeir eru að færa skólakerfið út til sveitarfélaganna. Það eru sveitarfélögin sem eru að taka skólakerfið yfir. Þingið setur ákveðinn ramma og skiptir fé milli umdæma en síðan er það á valdi hvers umdæmis hvaða áherslur eru lagðar þar í menntun.
    Svo ég taki annað dæmi, Holland, þá er rekstur skólakerfisins með allt öðrum hætti þar en við þekkjum. Þar koma ýmiss konar samtök, jafnvel hverfasamtök, trúarsamfélög og hinir og þessir miklu meira inn í rekstur skólakerfisins. Ríkið setur rammann og ákvarðar lágmarkskröfur en skiptir sér að öðru leyti ekki af því hvernig skólarnir eru reknir eða jafnvel hvað þar er kennt. Hins vegar eru ákaflega sterkar hefðir í Hollandi varðandi virðingu fyrir trúfrelsi og þeir eru taldir reka eitt besta skólakerfi í heimi. Þar eru því ýmsar leiðir færar.
    Við stöndum hér frammi fyrir miklum breytingum í okkar samfélagi, breytingum sem hafa verið að ganga í gegn og eru fram undan og þess vegna er ekki nema eðlilegt að við spyrjum okkur hvernig menntakerfinu verði best fyrir komið. Mér finnst menn rýna allt of mikið í ríkiskerfið og menntmrn. Eins og ég þekki þetta úr framhaldsskólunum hefur mér fundist að ríkið væri allt of mikið með puttana í rekstri framhaldsskólanna. Menn eru á stöðugum þönum upp í ráðuneyti til að bera nánast hverja ákvörðun undir ráðuneytið. Þeim ákvæðum í framhaldsskólalögunum, sem kveða á um aukið sjálfstæði framhaldsskólanna, hefur ekki verið fylgt eftir. Það er eins og gangi illa að slíta þau tengsl eða draga úr annars vegar afskiptum ráðuneytisins og hins vegar virðingu skólastjórnenda fyrir þeim sem í því virðulega ráðuneyti sitja. Ýmsar leiðir eru færar og ég held að ég geti ekki annað en skorað á menntmrh. og aðra ráðherra að beita sér fyrir víðtækum umræðum um þessi mál, faglegum umræðum um það hvernig almennri menntun og starfsmenntun verði best fyrir komið og að menn gangi til þeirrar umræðu með opin augu og ekki neinar fyrir fram ákveðnar skoðanir um það að menntmrn. eigi að hafa allt í sínum höndum.