Lyfjatæknaskóli Íslands

107. fundur
Mánudaginn 23. mars 1992, kl. 14:32:00 (4649)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þannig er að ég hafði talað mig dauðan hér í umræðunum og verð að beita andsvari án þess að ég sé sérstaklega að beina orðum mínum gegn hv. síðasta ræðumanni. Ég ætla bara að segja að það er misskilningur hjá henni að ég hafi verið að tala um stálþil á milli skóla. Ég var að tala um stálþil á milli skóla og atvinnulífs og ég held að það sé í raun og veru einn aðalvandi okkar skóla- og menntakerfis að þar er verið að loka allt of mikið á milli skólans og atvinnulífsins. Ég ætla svo að segja að þótt það sé rétt að tengja eigi þetta saman --- ég segi það að talsvert yfirveguðu máli sem ég gæti rökstutt ef ég hefði lengri tíma --- þá er ég algerlega andvígur því að afhenda því sem kallað er atvinnulíf skólana. Ég er algerlega andvígur því t.d. að afhenda atvinnulífinu starfsmenntunina að fullu. Hverjir ráða atvinnulífinu? Atvinnurekendur. Þeir hafa auðvitað hagsmuni sinna fyrirtækja og hagsmuni sinna atvinnugreina að leiðarljósi en ekki heildarhagsmuni menntunar á hverjum tíma. Þess vegna tel ég t.d. að það væri afar hæpið að fela Bílgreinasambandinu einu að reka bílgreinaskóla sem þó hefur verið til umræðu að undanförnu og menn hafa séð greinar um í blöðunum. Það er sjálfsagt að hafa samstarf við Bílgreinasambandið en að fela því að reka skóla væri algerlega fráleitt. Þess vegna þurfa menn að koma á góðu samstarfi á milli aðilanna og vanda sig við það og ræða málin faglega með opnum augum eins og hv. þm.

sagði. En menn mega ekki gefast upp við vandamálin með þeim hætti að kasta þessum skólum í hendurnar á atvinnugreinunum hverri fyrir sig vegna þess að það mun þýða afturför bæði fyrir skóla og atvinnulíf og þar með þjóðfélagsþróunina í heild.
    Ég get ekki samþykkt það að setja skólana á sveitarfélögin eins og þau eru á sig komin. Af hverju eru skólarnir hjá ríkinu? Það er jöfnunarráðstöfun, það er jafnréttisráðstöfun til að tryggja það að skólarnir búi sem flestir við sömu aðstæður. Þess vegna get ég ekki tekið undir það við núverandi stærð og fjárhagslega burði sveitarfélaganna að þau verði látin hafa skólana, grunnskólana eða framhaldsskólana eða hvað það nú væri. Og enn síður, virðulegi forseti, er ég tilbúinn til að segja að það eigi að vera almenn regla að ýmsir aðilar geti komið við sögðu varðandi rekstur skólanna, eins konar einkavæðing skólanna þar sem kæmu til sögunnar trúfélög og aðrir slíkir aðilar í einhverjum mæli. Ég held að það væri ekki heppilegt fyrir þróun skólanna í landinu. Ég gæti ekki stutt það. Eitt trúfélag hefur fengið að reka skóla hér í seinni tíð, það er Tjarnarskólinn. Einkavæðingartrúarliðið fékk að reka Tjarnarskólann og það var tekin ákvörðun um það. En þarna verður að fara mjög varlega og tími minn er því miður búinn.