Lyfjatæknaskóli Íslands

107. fundur
Mánudaginn 23. mars 1992, kl. 14:36:00 (4650)

     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að hv. 9. þm. Reykv. þyrfti aðeins að opna glugga sína og horfa út í þjóðfélagið. Mér finnst að það viðhorf sem hér kom fram gagnvart atvinnulífinu sé vægast sagt gamaldags. Hvað um frelsið? Af hverju mega aðilar ekki reka námskeið, reka skóla? Ég vil t.d. hafa leyfi til að stofna kvennaskóla ef mér finnst þörf á því. Ég vil ekki að lagareglur takmarki slíkt. Það eru ýmsar hugmyndir og ýmiss konar umræða í gangi varðandi það hvernig skólakerfið elur á misrétti kynjanna svo ég taki nú dæmi. En ég var fyrst og fremst að varpa fram ýmsum hugmyndum og að rekja það er hægt að skipuleggja skólakerfið með ýmsum hætti. En auðvitað er rétt sem fram kom hjá hv. 9. þm. Reykv. að eins og sveitarfélögin eru núna geta þau að sjálfsögðu ekki tekið við skólakerfinu. En það má breyta sveitarfélögunum. Eigum við ekki að færa valdið til fólksins? Eigum við ekki að auka áhrif íbúanna? Eigum við ekki að draga svolítið úr miðstýringunni?