Lyfjatæknaskóli Íslands

107. fundur
Mánudaginn 23. mars 1992, kl. 14:38:00 (4652)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Þar sem umræðan hefur farið út á þá braut sem af því sem ég hef mjög rætt hér í vetur, stöðu verknáms, starfsnáms og annars náms sem ekki er beint bóknám í íslensku skólakerfi, þá get ég ekki látið hjá líða að leggja nokkur orð í belg og miða við þær aðstæður sem við búum nú við. Það er áreiðanlega engin tilviljun að menn hafa alvarlegar áhyggjur af því að vera hér með starfsnám af ýmsu tagi og verknám sem virðist í ýmsum tilvikum vanta ákveðna skólastefnu á bak við. Þetta er auðvitað mikið áhyggjuefni. Ég vil benda á að vandinn byrjar í grunnskólunum. Við erum ekki búin að leysa málin þar á meðan grunnskólanum er sniðinn svo þröngur stakkur að almennilegt verknám er þar ekki í hávegum haft. Það er beinlínis leitað að ódýrustu leiðunum sem því miður eru bóknámsbrautir alveg frá upphafi skólagöngu. Það er sparað að ráða kennara til að sinna verkmenntagreinunum og þær verða alltaf fyrst fyrir barðinu á niðurskurði. Sú eyðileggingarstarfsemi sem hefur farið fram á skólakerfinu í vetur með því að spara til þess meira en góðu hófi gegnir bitnar ekki síst á þessum grunni, venjulegri verkmenntun, starfsmenntun í tengslum við atvinnulíf og símenntum í tengslum við atvinnulíf á að byggjast ofan á aðra menntun. Á meðan þessi grunnur er ekki lagður er tómt mál að tala um að byggja upp skynsamlega stefnu í starfs- og verkmenntun. Þetta finnst mér mjög mikilvægt að við tökum inn í myndina hér því að það er ekki eðlilegt hversu mikill vandræðagangurinn hefur verið í sambandi við stefnu í starfs- og verkmenntun.
    Ég er ein þeirra sem hafa litið svo á að mjög nauðsynlegt væri að hafa samfellu í öllu því námi sem boðið er upp á hér á landi. Ég hef litið mjög alvarlega á það sem grunn þeirrar stefnu að menntmrn. ætti að hafa yfirumsjón með öllu námi á Íslandi. Mér finnst hins vegar sú staða vera í samfélaginu að ekki er óeðlilegt að margir hafi áhyggjur af því að setja sérskóla, sem hafa verið tiltölulega vel studdir, undir menntmrn. eins og búið er að því ráðuneyti. Það er einfaldlega dálítið erfitt að móta skynsamlega stefnu á meðan við erum með allt kerfið í kyrkingi og það finnst mér mjög alvarlegt mál. Ég held að þessi skólapólitík okkar verði ekki tekin fyrir af neinu viti fyrr en gerð verður einhvers konar þjóðarsátt um að hlúa að menntun hér í landinu og hana vantar. Þá getum við farið að tala um að brjóta niður múra sem eru milli ráðuneyta. Það er ekki bara skólakerfið sem geldur þess. Það er margt annað. Sjálfsagt eru þeir misháir en aftur og aftur, m.a. þegar verið er að fjalla um tilfærslu skóla milli ráðuneyta, kemst maður að því að kannski er langt á veg komið starf innan tveggja ef ekki þriggja ráðuneyta sem skarast mjög. Þarna

vantar samhæfingu, samvinnu og þarna vantar vilja til að taka höndum saman í sambandi við menntunina í landinu. Og enn ítreka ég að þetta á við um þá verkmenntun sem boðið er upp á í grunnskólakerfinu, þá verkmenntun sem boðið er upp á í framhaldsskólum, þá verkmenntun sem er boðið upp á æðri skólastigum því að hún er líka til eftir framhaldsskóla. Það á líka við það sem við höfum hingað til kallað starfsmenntun og ég vil ekki setja alveg undir sama hatt og þá verkmenntun sem ég er að tala um sem samfellu frá því helst í sex ára bekk, þegar leggja þarf drögin að því að börn eigi raunverulegt val í skólakerfiunu. Jafnframt þarf að komast á tenging í sambandi við símenntun sem alltaf þarf að vera kostur á.
    Við vitum að námsfíkn Íslendinga er mikil og það er áreiðanlega ekki að ástæðulausu. Hér eru alls konar sérskólar, alls konar námskeið, það er mjög margt í gangi sem bendir til þess að mikil þörf sé fyrir fræðslu í fleiru en bara bóknámi og því þrönga verknámi sem boðið er upp á. Það segir mér það alla vega að mikið vantar enn á að skólakerfið svari eftirspurn. Og það er engin tilviljun að það er hlutskipti mjög margra kvenna að fylla dýra skóla, einkaskóla, sem bjóða sérhæft nám, t.d. tölvunám og annað slíkt og borga háar fúlgur fyrir það að afla sér menntunar og réttinda sem ættu að vera eðlilegur hluti af okkar skólakerfi. Þetta finnst mér ekki síður alvarlegt en það hvernig við stöndum að því að skipuleggja verkaskiptingu milli ráðuneyta í sambandi við almenna menntun í landinu. Ég held að tími sé til kominn að hefja umræðu um menntunarmál alveg frá þeim grunni sem á að leggja í grunnskóla að þeirri símenntun sem allir verða að eiga kost á. Ég er síst að hafa á móti því að þarna séu höfð góð tengsl við atvinnulífið. Ég held að við séum öll sammála um að ekki þurfi að ræða það meira að auðvitað á atvinnulífið ekki að stýra þessu en það á vissulega að vera tengt því starfsnámi sem boðið er upp á. Ég vil ekki gera of mikinn greinarmun á milli t.d. smíða- og latínukennslu vegna þess að ég lít þannig á að hvort tveggja geti tengst starfsnámi.
    Ég held að í þessari umræðu séum við oft og tíðum fórnarlömb þess ástands sem við búum við sem er kyrkingur í skólakerfinu. Það vantar peninga til skólanáms og það vantar oft og tíðum skilning á því að þarna verður að eiga sér stað samstarf og þarna verður að taka undir þá fjölbreyttu flóru sem er af alls konar einkanámskeiðum og einkaskólum.
    Ég hef í rauninni alltaf séð það fyrir mér að samræming yrði á vegum menntmrn. Því miður hafa margir haft rökstuddar efasemdir um að menntmrn. sé gert það kleift miðað við þær stöður sem það ræður yfir núna. Þessu þarf að breyta, þetta þarf að bæta ef menntmrn. á að vera starfi sínu vaxið í þessum efnum. Ég vona að sá vandræðagangur sem oft er í sambandi við okkar skólamál verði ekki eilífðarvandamál heldur fari fólk að gera sér grein fyrir því hvað við stefnum í alvarlegt ástand, mér liggur við að segja kaotískt ástand, ef það á að reka helminginn e.t.v. af skólakerfinu þannig að blindgöturnar séu utan við Kerfið. Blindgöturnar, rándýrt nám sem fólk eyðir kannski mánuðum og jafnvel árum í og veitir engin önnur réttindi en eitthvert ,,diplóma``, fallega skrautritað upp á vegg hjá sér um að það hafi aflað sér svo og svo mikillar þekkingar t.d. í tölvufræðum og öðru slíku. Alveg er undir hælinn lagt hvernig þetta nám er skipulagt. Sjálfsagt er oft um ágætiskennara að ræða en það sem þarna er á ferðinni er samt sem áður mjög óskipulegt. Þetta er mikill áfellisdómur yfir því hvernig við höfum búið við okkar skólakerfi og þetta verður að laga. Samræmingu verður að koma á. Mér er nokkuð sama um það hvert kerfið verður svo framarlega sem það býður fólki upp á að geta valið sér menntun frá upphafi, fylgt henni eftir og nýtt sér þá menntun sem það hefur þegar aflað sér í starfi og í öðru námi. Það er allt og sumt sem okkur varðar og sjálfsögð krafa okkar allra.