Staða kjarasamninga

107. fundur
Mánudaginn 23. mars 1992, kl. 15:30:00 (4659)

     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Í þeim kjarasamningum sem nú fara fram hefur ýmislegt verið sagt, m.a. í fjölmiðlum, sem gaf mér ástæðu til að biðja um þessar viðræður við hæstv. forsrh. Ég hefði að vísu kosið að við hefðum haft lengri tíma til þess að ræða þessi mikilvægu mál en hæstv. forsrh. hafnaði því og við það

verðum við að sætta okkur.
    Ég hygg að alls ekki verði annað sagt en að kröfur launþega í þessum viðræðum séu mjög hógværar. Mér sýnist í raun að launakröfum þeirra sé unnt að mæta með vaxtalækkun, þ.e. með tilfærslu fjármagns frá fjármagnstekjum til launatekna. Launþegar hafa lagt alla áherslu á að fá þær lagfæringar á velferðarkerfinu sem tryggja betur stöðu aldraðra, sjúkra, barnafólks og þeirra fleiri sem á því þurfa sérstaklega að halda og sýnist mér það afar virðingarvert. Því miður gefur tíminn ekki möguleika til að rekja ýmsar þær tillögur sem launþegar hafa lagt fram í þeim efnum en hins vegar höfum við heyrt þeim svarað hvað eftir annað þannig að því miður verði þar engu hreyft vegna þess að Alþingi hafi ákveðið málin á einn veg eða annan. Það voru fyrst og fremst þessi svör sem gáfu mér ástæðu til að biðja um utandagskrárumræðu. Ég vildi að við alþingismenn fengjum tækifæri til að fullvissa hæstv. forsrh. um það að a.m.k. stjórnarandstaðan á Alþingi, og ég hygg raunar æðimargir af stjórnarsinnum, er reiðubúin til að breyta ýmsu af því sem ákveðið hefur verið af þessari ríkisstjórn í velferðarmálum ef það mætti leiða til að samningar náist. Ég held að öllum hljóti að vera ljóst að töluverðu má fórna til að allsherjarsamningar náist og friður verði í landinu. Mér sýnist ástæða til að minna hæstv. forsrh. á það að varla nokkru sinni hafa mikilvægir kjarasamningar verið gerðir án þess að fyrir þingið hafi verið lagðar tillögur um aðgerðir í kjaramálum og við þingmenn erum reiðubúnir til að taka þátt í því að samþykkja slíkar aðgerðir ef það má verða til að greiða fyrir kjarasamningum.
    Ég sagði áðan: Það er ekki tími til að ræða þau ýmsu atriði sem launþegar hafa lagt fram. Ég kem kannski að því í mínum seinni þremur mínútum ef tilefni er til þess en ég hef skoðað þær og leyfi mér að fullyrða að þær eru flestar þess eðlis að ekki er aðeins rétt að skoða þær heldur sjálfsagt að og margt sem þar er lagt til getur orðið til að bæta þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til í kjaramálum.