Staða kjarasamninga

107. fundur
Mánudaginn 23. mars 1992, kl. 15:37:00 (4663)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þessa stundina eru kjarasamningar á afar viðkvæmu stigi, eins og fram kom hjá hæstv. forsrh., og óljóst hvort þeir takast á allra næstu dögum eða sigla í strand. Það veltur á ríkisstjórninni sem staðið hefur fyrir stanslausum árásum á kjör launafólks frá því að hún komst til valda og jafnan ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. Á undanförnum árum hefur færst í vöxt að vinnuveitendur og samtök launafólks semji um flest annað en hækkun launa og sendi reikninginn til ríkisins. Ríkisstjórnir fyrri ára hafa mjög beitt sér fyrir lausn kjarasamninga með misjafnlega viturlegum aðgerðum og stundum hefur staðið á efndum, ekki síst við þá sem vinna hjá ríkinu. Núverandi aðferðafræði aðila vinnumarkaðarins sýnir hvað best það óeðlilega ástand sem ríkir á íslenskum vinnumarkaði þar sem fjöldi fyrirtækja treystir sér ekki til að greiða mannsæmandi laun og verður t.d. að treysta á lækkun tryggingagjalda, vaxtalækkun eða að ríkisstjórnin dragi einhvern hluta efnahagsaðgerða sinna til baka eigi samningar að nást. Þessu verður að linna. En það gerist ekki á einum degi með þvermóðsku einnar ríkisstjórnar. Það gerist ekki öðruvísi en fyrirtækin búi við þokkaleg skilyrði og ríkisvaldið geri launþegum lífið ekki óbærilegt með vanhugsuðum og handahófskenndum niðurskurði sem kemur afar ójafnt niður á heimilunum í landinu.
    Ríkisvaldið ræður yfir hagstjórnartækjum sem á að beita til að jafna kjörin. Það næst enginn jöfnuður með því að fresta hertum kröfum um mengunarvarnir í bílum og láta náttúruna og framtíðina gjalda fyrir eða með því að lækka skoðunargjöld á bílum. Slíkt flokka ég undir lúxuskröfur. Krafan til ríkisvaldsins og þær spurningar sem hér brenna á vörum eru: Hvernig ætlar ríkisstjórnin að beita sér til að bæta óviðunandi kjör hinna lægst launuðu? Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að jafna hinn mikla og óþolandi launamun kynjanna sem alls staðar blasir við? Hvernig ætlar ríkisstjórnin að bregðast við kröfu verkalýðshreyfingarinnar til varnar velferðarkerfinu?
    Ríkisstjórnin er einn stærsti vinnuveitandi landsins og það er ólíðandi að hún skuli draga lappirnar í samningum við sitt fólk meðan tala atvinnulausra fer vaxandi og misrétti eykst. Brýnast af öllu er að ríkisstjórnin axli þá ábyrgð sem fylgir því að stjórna landinu og beiti sér fyrir arðbærum, verklegum framkvæmdum til að skapa vinnu, jafnt fyrir karla sem konur.