Staða kjarasamninga

107. fundur
Mánudaginn 23. mars 1992, kl. 15:40:00 (4664)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Hæstv. forsrh. tók það réttilega fram áðan að kjaramálin væru á viðkvæmu stigi. Ég vil ekki gera lítið úr því en ríkisstjórnin situr með lykilinn að lausn þessa vanda í sínum höndum. Og það er rétt að hún viti að það stendur ekki á stjórnarandstöðunni. Hún er tilbúin að greiða fyrir því að kjarasamningar geti tekist og er fús að aðstoða ríkisstjórnina við það að breyta vanhugsuðum ákvörðunum sem teknar hafa verið á Alþingi þannig að kjarasamningar megi takast. Sú röksemd að Alþingi hafi ákveðið að haga málum svo sem gert var að tilhlutan ríkisstjórnarinnar hér um og fyrir áramótin, stenst ekki. Það er einfalt mál að breyta þeim ákvörðunum og stjórnarandstaðan er tilbúin, eins og hér hefur komið fram, að leggja sitt af mörkum til að það geti tekist fljótt og vel. Það er skynsamlegt og raunar skylda hæstv. ríkisstjórnar að grípa nú inn í þannig að kjarasamningar megi takast og það er alveg óbærilegt að horfa upp á ríkisstjórnina vefja málin fyrir sér dag eftir dag, nótt eftir nótt án þess að hafa dug eða áræði til að grípa til þeirra aðgerða sem þarf.