Staða kjarasamninga

107. fundur
Mánudaginn 23. mars 1992, kl. 15:42:00 (4665)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Við stöndum frammi fyrir mjög alvarlegri stöðu. Það er nú komið á daginn og verður ekki um það deilt lengur sem við sögðum í stjórnarandstöðunni í desember og janúar sl. að stefna hæstv. ríkisstjórnar torveldar og kemur í reynd í veg fyrir gerð kjarasamninga nú. Sú stefna sem bundin er í fjárlögum og bandormslögum er það sem nú strandar á. Nú segir hæstv. ríkisstjórn að fjárlögin og bandormurinn, í hverjum felast þær árásir á velferðarkerfið sem reynt er að hnekkja, séu hins vegar heilagar kýr. Þannig hefur sannast svo að ekki þarf frekari vitna við að málflutningur okkar á Alþingi í vetur reyndist því miður réttur. Það er hæstv. ríkisstjórn og stefna hennar sem hindrar gerð kjarasamninga.
    Ég vil fyrir mitt leyti, og er sannfærður um að ég tala þar fyrir hönd fulltrúa minni hlutans í efh.- og viðskn., lýsa því yfir að við erum reiðubúin aftur á nýjan leik í vinnu til þess að gera þær ráðstafanir í ríkisfjármálum sem gera það kleift og í reynd auðvelt að koma til móts við óskir verkalýðshreyfingarinnar sem nú strandar á. Það er langt innan ramma þeirra breytinga sem við sýndum fram á bæði við afgreiðslu fjárlaga og við afgreiðslu á bandormslögum að unnt væri að gera. En því miður, hæstv. forseti, er það svo enn á ný reynsla okkar á Alþingi sem er sama reynslan og verkalýðshreyfingin og aðilar vinnumarkaðarins hafa orðið fyrir í samskiptum sínum við hæstv. forsrh. og hæstv. ríkisstjórn. Svör hæstv. forsrh. voru hér engin. Hæstv. forsrh. virðir Alþingi ekki svara frekar en verkalýðshreyfinguna.