Staða kjarasamninga

107. fundur
Mánudaginn 23. mars 1992, kl. 15:44:00 (4666)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Niðurskurðurinn, sem gerður var við afgreiðslu síðustu fjárlaga, hefur gjarnan verið réttlættur með því á þingi að það þurfi að ná niður vöxtum. Þetta sé tilraun til þess að ná niður vaxtastiginu í landinu. Vissulega er ríkið stór lántakandi en þegar grannt er skoðað kemur í ljós að lántökur heimilanna í landinu eru rúmlega tvöfalt meiri en lántökur ríkisins og þær hafa aukist mun meira á þjóðarsáttartímabilinu en lántökur ríkisins. Þær hafa aukist um 36,7% á þessum tíma meðan lántökur ríkisins hafa aukist um 19%. Lántökur heimilanna hljóta þar af leiðandi að hafa mun meiri áhrif á vaxtastigið í landinu en lántökur ríkisins. Þess vegna hlýtur maður að spyrja sig þeirrar spurningar: Af hverju eru lántökur heimilanna svona miklar þrátt fyrir hátt vaxtastig, þrátt fyrir að það sé mjög dýrt að taka peninga að láni? Þetta er eitt af því sem menn hljóta að skoða og mér segir svo hugur að ein ástæðan sé sú að æ fleiri heimili verða nú að brúa bilið með lántökum. Þau ná ekki endum saman. Það er m.a. þessar lágu tekjur sem hafa þessa keðjuverkandi áhrif eða þessi vítahringsáhrif.
    Það er alveg ljóst að niðurskurður ríkisútgjalda við gerð síðustu fjárlaga og sá samdráttur í samneyslunni, sem þá varð, kemur illa við launafólk. Þetta var einhliða niðurskurður en ekki tekjujöfnunaraðgerð eins og hér hefur gjarnan verið látið í veðri vaka. Menn fóru í þessar aðgerðir undir nafni réttlætis og jöfnuðar en það var enginn jöfnuður fólginn í þessum aðgerðum. Út úr þessum aðgerðum kom það að barnafók verður verst úti, bæði vegna þess að barnabætur voru skertar og eins vegna hins að læknis- og lyfjakostnaður hækkaði verulega sem hefur mikil áhrif á barnafjölskyldur í landinu. Ég held að við hljótum öll að fagna því að verkalýðshreyfingin skuli nú tilbúin til þess að beita afli sínu í þágu barnafólks og í þágu sjúklinga.
    Ég held að engum blandist hugur um að það var ríkisvaldið sem riðlaði öllum forsendum við gerð síðustu fjárlaga og þar af leiðandi er ekki óeðlilegt þó að menn komi nú og spyrji ríkisvaldið hvað það ætli að gera. Það er bráðnauðsynlegt að jafna lífskjör í landinu og þar vega ýmsir þættir þungt, svo sem búseta, kyn, stétt og aldur. Það þarf að taka á þessum málum en ríkisstjórnin hefur ekkert gert og ég held að það sé ljóst að hún á næsta leik og hún þarf að gera eitthvað raunhæft en ekki standa hér í formi ráðherra og móralisera daglega yfir okkur þingmönnum.