Samkomulag milli Borgarspítala og Landakotsspítala um heilbrigðisþjónustu

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 13:51:00 (4676)

     Guðmundur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin en ítreka það sem ég sagði áðan að ég taldi rétt og eðlilegt að beina spurningunni til hans en ekki til heilbrrh. af því að fjmrh. fer með ráðstöfunarvaldið samkvæmt fjárlögum. Það er hans að ráðstafa þessum upphæðum í samráði við einstaka ráðherra og fjárln., eins og segir í fjárlögum. Reyndar hafa þessar hugmyndir ekki enn verið sýndar fjárln. Þær kunna að hafa borist nefndinni, ekki skal ég segja um það, en þær hafa ekki verið teknar til umræðu þar. Ég vona sannarlega að menn hlusti á skynsamleg rök í þessu efni áður en ákvörðun er endanleg ef fjárln. fær einhverju um það ráðið. Menn fara stundum dálítið frjálslega með það sem kallað er samráð og leyfa sér að túlka það eftir ýmsum leiðum. Ég tel nauðsynlegt að þetta verði skoðað mjög gaumgæfilega og betur en ég trúi að gert hafi verið vegna þess að ég óttast, eins og ég nefndi reyndar áðan, að einhverjir aðrir annarlegir hagsmunir ráði ferðinni en þeir að spara fjármuni og reka heilbrigðisþjónustuna á sem hagkvæmastan og ódýrastan hátt. Ég leyfi mér a.m.k. að álíta, ég þori varla að fullyrða það eftir ræðu hæstv. ráðherra áðan, að hann kunni að vera sammála þeim hugmyndum að hægt væri að viðhafa meiri sparnað og skynsamlegri rekstur en lagt er upp með og er framhald af þeim umræðum, eins og kemur fram í viðtali við Árna Sigfússon í Morgunblaðinu og ég vitnaði í áðan, sem farið hafa fram um sameiningu Landakots og Borgarspítala sem nunnurnar höfðu þó þegar hafnað.
    Ég ítreka að ég tel að hægt sé að verja þessum 100 millj. kr. til nýframkvæmda skynsamlegar. Á meðan tugir rúma, jafnvel hundruð rúma, á sjúkrahúsunum standa ónotuð getur þetta ekki verið skynsamleg nýting fjármuna. Ég er einnig sannfærður um að hægt væri að sinna bráðavöktum á tveimur stofnunum, Borgarspítala og ríkisspítölum, án þess að verja til þess þeim 200 millj. kr. sem gerð er tillaga um. Fjárveitingin er því ekki skynsamlega nýtt, hæstv. fjmrh., og ég treysti því að eftir umfjöllun í fjárln. muni hæstv. ráðherrar fást til að skoða málið að nýju.