Kaup á fiski sem veiddur er við Kanada

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 14:29:00 (4696)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ástæðan til þess að ég óskaði eftir því að umræða yrði utan dagskrár er sú að í síðustu viku birtust fréttir í fjölmiðlum af fyrirhuguðum kaupum Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum á fiski sem portúgalskir og spænskir togarar eru að veiða rétt utan við fiskveiðilögsögu Nýfundnalands og Kanada. Í umfjöllun fjölmiðla um þetta mál kom fram að forráðamenn Vinnslustöðvarinnar telja að með frv. til laga um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands, sem er nú til umfjöllunar í hv. Alþingi, sé verið að opna fyrir möguleika á viðskiptum sem þessum. Einnig kom fram að hæstv. sjútvrh. hefur fengið bréf frá starfsbróður sínum í Kanada þar sem farið er fram á stuðning við Kanada og Nýfundnaland til að stöðva rányrkju EB-flotans á hafsvæðunum utan við 200 mílna mörk fiskveiðilögsögu þeirra ríkja. Í fréttum var sagt að svar hæstv. sjútvrh. hefði verið að Íslendingar myndu styðja baráttu þeirra á alþjóðavettvangi en heima fyrir myndum við ekki skipta okkur af kaupum íslenskra fyrirtækja á fiski sem þarna yrði veiddur.
    Hv. 1. þm. Vestf., formaður hv. sjútvn., sagði í viðtali í sjónvarpinu að hann fagnaði þessu og ekki veitti af meiri framleiðslu og atvinnu fyrir Íslendinga. Hann sagði einnig að Nýfundnalandsmenn og Kanadamenn hefðu ekki stutt okkur í langhelgismálum og það væri þeirra mál að framkvæma harðari stefnu í þeim.
    Mér finnst, hæstv. forseti, að þetta séu bæði fljótræðislegar yfirlýsingar og kaldar kveðjur til þjóða sem eru í líkum sporum og við, þjóða sem eru búnar að skera niður veiðiheimildir hjá sér og hafa ekki getað náð samkomulagi við EB-ríkin um stjórn á veiðunum.

    Hæstv. forseti. Landhelgisbaráttu okkar Íslendinga er ekki lokið. Enn þá ósamið um stjórn á nýtingu fiskstofna sem eru sameiginlegir með öðrum þjóðum. Enn eftir að ráða til lykta deilum um yfirráð á stórum hafsvæðum. Ég tel að um sé að ræða mál sem meðhöndlað verði með varkárni og það sé ekki einboðið að við eigum að auðvelda portúgölskum og spænskum togurum EB-landanna sjóræningjaveiðar hjá þessum nágrönnum okkar. Ég tel að á ferðinni sé mál sem hv. þm. í utanrmn. og sjútvrn. hljóti og eigi að taka til yfirvegunar. Það er mín tillaga, virðulegi forseti, að þessar tvær nefndir taki málið til umfjöllunar og á meðan verði látið bíða að hv. Alþingi fjalli frekar um frv. til laga um veiðar í fiskveiðilandhelginni. Ég spyr hæstv. sjútvrh. hvort hann sé mér ekki sammála í þessu efni og hvort hann er ekki tilbúinn til allrar samvinnu við fyrrnefndar nefndir þingsins um mótun stefnu í þessum málum.