Kaup á fiski sem veiddur er við Kanada

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 14:46:00 (4703)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég tel að það mál sem er til umræðu snerti í sjálfu sér ekki það frv. sem hér hefur verið til umfjöllunar og það er rangt hjá þeim sem ætla sér að kaupa þennan fisk að það þurfi að bíða eftir þeirri löggjöf. Algengt er að fiski sé landað af öðrum veiðisvæðum á Íslandi og má því nefna í því sambandi rækju úr Barentshafi frá Svalbarða og jafnvel fleiri tegundir.
    Ég tel sjálfsagt að styðja viðleitni Kanadamanna til að ná stjórn á veiðum úr fiskstofnum utan við 200 mílurnar. Við verðum hins vegar að hafa í huga að þær veiðar sem þarna eiga sér stað fara fram utan 200 mílna lögsögunnar og því miður hefur ekki náðst samkomulag um þessar veiðar. Við verðum að íhuga ef við beitum slíkum viðskiptaþvingunum hvort það muni verða til þess að greiða fyrir framgangi málsins. Ég veit ekki til þess að farið hafi verið fram á það við nokkra aðra þjóð en Íslendinga að beita slíku löndunarbanni úr þessum stofni. Sjálfsagt er að ræða það ef um það tækist samkomulag á víðtækari grundvelli en ég tel vafasamt að það muni leysa úr málinu þótt við gripum til slíkra ráðstafana. Hins vegar er sjálfsagt að viðræður fari fram milli íslenskra og kanadískra stjórnvalda um málið. Ég hvet til þess að við höfum vinsamleg samskipti við Nýfundnaland og þá hagsmuni sem þar eru í húfi, en ég tel að það eigi að varast að beita slíkum viðskiptaþvingunum eða a.m.k. það liggi ljóst fyrir að það verði til þess að greiða úr málinu en ekki flækja það frekar.