Kaup á fiski sem veiddur er við Kanada

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 14:53:00 (4706)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hefur farið fram. Hún hefur sannfært mig um að ástæða var til þess að ræða þetta mál hér enn frekar. Ég tel að það þurfi ekki að tefja framgang lagafrv. um veiðar í efnahagslögsögunni þó svo að nefndir þingsins skoði málið á milli umræðna. Til þess er full ástæða. Auðvitað er ekki hægt að slíta þessi mál úr samhengi. Það hefur verið bannað að koma með fisk hér að landi. Það stendur skýrt í gömlu lögunum að ekki megi landa fiski sem veiddur er utan landhelginnar. Ég er ekki að segja að ekki hafi verið einhverjir möguleikar til að hleypa þannig fiski að landi en það hefur alla vega ekki verið gert. Í þessu frv. er líka fólgin stefnubreyting. Það hlýtur að vera litið þannig á frá hendi Kanadamanna að á sama tíma og þeir standa í þeim sporum að biðja okkur liðsinnis þá erum við að breyta lögum á Alþingi sem verði til þess að farið verði að flytja fisk til Íslands sem er veiddur fyrir utan lögsögu þeirra og það auðveldi þeim sem rányrkja þau mið að stunda þá iðju. Ég tel alveg fulla ástæðu til þess að þingmenn skoði þetta vandlega hvort þeir eru tilbúnir til að láta þetta ganga svona

fram. Það þarf ekki að þýða að menn breyti því lagafrv. sem nú liggur fyrir, það getur þýtt líka að menn velji einhverja aðra leið til að koma til móts við Kanadamenn. Alla vega þurfa menn að gera það upp við sig hvort þeir ætla að styðja þá eða ekki. Mér finnst undarlegt að standa í þeim sporum að lýsa yfir stuðningi við aðila sem standa í svipuðum sporum og við en á sama tíma séum við að breyta lögum með þeim hætti að það verði farið að vinna gegn þeim.
    Ég er ekki að gera lítið úr því að menn í Vestmannaeyjum eru að reyna að útvega sér eitthvað til að gera og reyna að bæta sér upp það atvinnutap sem þeir hafa orðið fyrir bæði með missi á kvóta og einnig af því að nú er fluttur út óunninn fiskur í ómældu magni. Það er virðingarvert að menn skuli reyna að gera eitthvað í þeim málum. En það er bara ekki allt sem sýnist og hagsmunir okkar eru ekki endanlega komnir í höfn sem snúa að nýtingu lífríkisins í kringum landið. Ég tel að við eigum ekki að ana umhugsunarlítið út í það að leyfa að farið verði að landa og vinna hér sjóræningjafisk sem hefur verið veiddur með slíkri rányrkju sem hæstv. sjútvrh. var að lýsa hér fyrir okkur áðan að menn hafi jafnvel veitt fimmfaldan þann kvóta sem leyfður var. Það ættu Íslendingar að skilja manna best að þannig á ekki að standa að nýtingu fiskstofna.