Kaup á fiski sem veiddur er við Kanada

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 14:57:00 (4707)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég vil leggja á það áherslu að stuðningur okkar við sjónarmið Kanada í þessu efni hefur ekki bara verið í orði, hann hefur komið fram í verki í stuðningi við tillögur þeirra á undirbúningsfundi þeim sem nú fer fram í New York fyrir umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Ég tel rétt og skylt að við fylgjum þeim sjónarmiðum eftir en minni um leið á að Kanadamenn eru ekki að fara fram á veiðibann á þessum veiðisvæðum utan við 200 mílna lögsögunna heldur ganga tillögur þeirra í þá veru að styrkja stjórnun á þessum veiðum. Norðvestur-Atlantshafsnefndin úthlutar fiskveiðikvótum á þessum hafsvæðum. Vandinn liggur í því að Evrópubandalagið hefur úthlutað meiri kvótum og Spánverjar og Portúgalar hafa jafnvel gengið feti framar og veitt meira en kvótar Evrópubandalagsins segja til um. Þetta er spurning um að koma virkari stjórn á þær veiðar sem eðlilegt er talið að þarna fari fram.
    Ég vil svo ítreka að þetta álitaefni lýtur ekki að þeirri löggjöf um rétt til veiða í fiskveiðilögsögu Íslands sem hefur verið til umræðu. Ég ætla ekki að hafa á móti því eins og þingið hefur ákveðið að það frv. verði tekið til umfjöllunar í sjútvn. á milli umræðna og vænti þess að sá fundur geti orðið í fyrramálið og málið komið til lokaafgreiðslu á morgun eins og að hefur verið stefnt. Hér er um að ræða hvort við ætlum að beita viðskiptaþvingunum af þessu tilefni. Þá þurfum við að spyrja okkur að því hvort það er í samræmi við þau sjónarmið sem við höfum sett fram gagnvart öðrum þjóðum í því efni eins og til að mynda Bandaríkjunum. Hvaða leiðir ætla menn þá að fara í því efni? Beita heimildum í núgildandi lögum eða setja ný lög? Menn þurfa að svara því hvernig þeir ætla að uppfylla skuldbindingar gagnvart Evrópubandalaginu á grundvelli þeirra nýju samninga sem á döfinni eru í því efni. Öll þau mál þarf að skoða vandlega áður en menn fara að kveða upp einhverja slíka dóma eða taka ákvarðanir um slíkar aðgerðir. En aðalatriðið er það að þau álitaefni lúta ekki að þessari löggjöf heldur að viðskiptalöggjöf og þá spurningum um sérstakar viðskiptaþvinganir.