Stjórnarráð Íslands

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 15:31:00 (4709)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns lýsa yfir stuðningi við það frv. sem við ræðum hér í dag. Frv. er í góðu samræmi við þá meginstefnu sem um hafði náðst þverpólitísk samstaða í nefnd allra þingflokka sem fjallaði um endurskoðun á lögunum um Stjórnarráðið á þinginu 1990--1991. Það var athyglisvert að í öllum kostum sem nú nefnd fjallaði um var gert ráð fyrir að sameina þessi tvö ráðuneyti. Mér er það líka mikil ánægja að hv. 8. þm. Reykn. hefur kynnt sér betur húsaskipan í Arnarhvoli en hann hafði gert þegar hann flutti fyrri helming ræðunnar því þá gumaði hann af því að hann hefði komið í veg fyrir að einfaldar breytingar yrðu gerðar á efstu hæð hússins sem fólust í því að opna dyr milli iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins sem ég lét verða mitt fyrsta verk þegar ég tók við störfum í iðnrn. Sá ágæti þingmaður hélt því fram að hann hefði með snarræði, að manni skildist, geta komið í veg fyrir það. Það var ekki.
    Ég þakka hv. 8. þm. Reykn. líka fyrir að minna þingheim á að það var samþykkt á næstsíðasta þingi sams konar frv., um sameiningu Fjárlaga- og hagsýslustofnunar og fjmrn. í eina stjórnardeild. Það frv. var að sjálfsögðu flutt að tillögu hv. 8. þm. Reykn., þá

fjármálaráðherra.
    Ég á því mjög erfitt með að skilja þann málflutning hans um þetta frv., eftir að hann stóð fyrir sameiningu Fjárlaga- og hagsýslustofnunar og fjmrn. í eitt ráðuneyti, eina stjórnardeild, að ekki sé rétt að bíða eftir nýjum heildarlögum um Stjórnarráðið ef víðtæk samstaða er um einstakar breytingar eins og þessar.
    Mig langar líka að rifja upp, af því mér virðist hv. 8. þm. Reykn. sé ekki sérlega minnugur, jafnvel á alveg nýliðna stjórnmálasögu, og fara svolítið lengra aftur í tímann og að benda á að bæði iðn.- og viðskrn. eru upprunnin úr annarri skrifstofu Stjórnarráðsins eins og til Stjórnarráðsins var í upphafi stofnað með lögum frá 3. okt. 1903. Á árinu 1917 fékk þessi önnur skrifstofa heitið Atvinnu- og samgöngumáladeild og síðan var því breytt í atvinnu- og samgöngumálaráðuneyti. Meðal verkefna á verksviði þessa ráðuneytis voru bæði iðnaðar- og viðskiptamálin. Þar voru reyndar líka vistuð sjávarútvegsmál auk fjölda annarra verkefna. Þessi skipan hélst til ársins 1939 þegar stofnað var sérstakt viðskrn. Árið 1947 var stofnað sérstakt samgrn. sem fór jafnframt með iðnaðarmál. Með stjórnarráðslögunum frá 1969, sem tóku gildi 1. jan. 1970, var svo stofnað sjálfstætt iðnrn.
    Allmörg ár eru síðan umræður hófust um endurskoðun laganna um Stjórnarráð Íslands þótt það sé vissulega rétt hjá hv. 8. þm. Reykn. að þau hafa á margan hátt dugað vel. Þessar umræður hafa m.a. snúist um sameiningu ráðuneyta, m.a. studdar þeim rökum að hvert ráðuneyti í núverandi skipulagi væri of lítil starfseining. Þessar umræður fengu svo aukinn byr árið 1987 þegar málefni útflutningsverslunar voru flutt til utanrrn. En vegna þess sem fram kom hjá hv. 8. þm. Reykn. vil ég láta það koma fram að ég tel mjög mikilvægt að verkaskipulag í Stjórnarráðinu sé ekki talið vera guði gefið og bundið ævarandi. Ráðuneytin eru fyrst og fremst skrifstofur ráðherra. Þau eiga að hafa nokkuð fastan farveg í stjórnkerfinu. Það er mjög áberandi þróun í löndunum í kringum okkur að reyna að sameina ráðuneyti í stærri heildir sem taki yfir víðara svið til að forðast sérhagsmunarekstur í starfsemi þeirra.
    Mér þótti heldur ekki rétt, með hliðsjón af þeim tillögum sem uppi hafa verið í þessum umræðum um nýtt skipulag í Stjórnarráðinu í heild, að leggja til að skipaður yrði nýr ráðuneytisstjóri í iðnrn. þegar fyrrv. ráðuneytisstjóri baðst lausnar og fór á eftirlaun haustið 1990 eins og hv. 8. þm. Reykn. rifjaði hér upp. Þá var ráðuneytisstjóri viðskrn. jafnframt settur ráðuneytisstjóri í iðnrn. og hefur sú skipan haldist síðan og er náttúrlega vísbending um það hvernig má gera skipulag Stjórnarráðsins einfaldara og um leið ódýrara.
    Tillagan um sameiningu fær líka aukinn stuðning af því að sú tillaga sem hér er gerð fer mjög nærri því sem algengast er í okkar nágrannalöndum, eins og reyndar kom fram í framsöguræðu hæstv. forsrh. Vegna þess sem ítrekað kom fram hjá hv. 8. þm. Reykn., að það væri varasamt að fela tiltekin almenn málefni ráðuneyti sem jafnframt færi með málefni atvinnugreinar, vil ég ítreka það sjónarmið sem hv. þm. virðist ekki vilja virða að ráðuneytin eru ekki hagsmunagæslumenn þeirrar atvinnugreinar sem þær fara með heldur almennings og Alþingis. Þetta er mjög mikilvægt sjónarmið sem einhvern veginn virðist hafa skotist hjá garði hjá stjórnmálafræðingnum, hv. 8. þm. Reykn. Með þeim rökum sem hv. 8. þm. Reykn. fór með hér mætti að sjálfsögðu halda því fram að Seðlabanki Íslands, sem er viðskiptabanki ríkisins, mætti alls ekki heyra undir fjmrn. vegna hagsmuna þess sem viðskiptavinar bankans. Þetta er sjónarmið sem ég tel ástæðu til að hugleiða. Með svipuðum hætti held ég að sé mjög algeng skoðun að það sé ekki heppilegt, og það er mín skoðun, að Seðlabankinn og aðrar umfangsmiklar stjórnarstofnanir falli undir forsrn. sem fyrst og fremst á að vera samræmingar- og yfirstjórnaraðili en ekki forstöðuráðuneyti umfangsmikillar stjórnsýslu.
    Þessi sjónarmið sem ég nefni eru áhugaverð og athyglisverð í þessu sambandi. Því fer víðs fjarri að hægt sé að finna þarna einhverja stjórnunarfræðilega reglu sem sé sjálfsögð og eðlileg og þaðan af síður varanleg.
    Hv. 8. þm. Reykn. hélt því fram í fyrri helmingi ræðu sinnar að sú regla væri alls staðar viðhöfð, eða því nær alls staðar, að seðalbankar heyrðu undir fjmrn. Þetta er ekki

rétt. Svo er t.d. ekki í Finnlandi, ekki í Sviss, ekki í Þýskalandi og ekki í Bandaríkjunum svo ég nefni nokkur dæmi. En með þessu er að sjálfsögðu ekki nein úrslitarök sett fram.
      Hver besta stjórnaraðferð er
      um það lát þrátta dára frí,
      hún er æ best sem best fram fer
      bera kann enginn á móti því
--- sagði Alexander Pope einhvern tíma á 18. öldinni í þýðingu Jóns frá Bægisá. Í þessum hendingum er mikill vísdómur fólginn sem ég held að við ættum að taka tillit til. Býsna víðtækt samkomulag hefur náðst um að það sé rétt að gera þessa breytingu. Ég verð að lýsa furðu minni á því að hv. 8. þm. Reykn. skuli ekki muna að það er alls ekki tengt tilveru núv. ríkisstjórnar eða ráðherrans sem nú fer með þessi ráðuneyti og alveg greinilegt í starfi nefndarinnar sem þingflokkarnir settu til þessara starfa í hittiðfyrra og fyrra, að menn urðu um þetta sammála.
    Það er rétt að staðsetning Seðlabankans í stjórnkerfinu er ekki þannig að allir séu um hana sammála. Ég held að það verði seint en það er í reynd annað mál en það sem við ræðum hér.