Vistfræðileg þróun landbúnaðar á Íslandi

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 16:00:00 (4712)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Það mál sem er á dagskrá núna er umfjöllun um vistfræðilega stöðu íslensks landbúnaðar. Það var á dagskrá á kvöldfundi í síðustu viku, síðasta mál, einhvern tíma undir miðnætti. Ég verð að segja að málið er þess eðlis að ég hefði talið að það ætti skilið betri sess í þingstörfunum. Það er líka, virðulegi forseti, umhugsunarvert hvernig komið er þingmannamálum í þinghaldi í vetur þar sem liðnir eru einir fimm mánuðir frá því að málið var lagt fram.
    Ég ætla ekki að halda langa ræðu um málið en ég vil undirstrika og leggja áherslu

á mikilvægi þess sem hér er verið að fjalla um. Þar liggja þó nokkrar ástæður að baki. Fyrir það fyrsta tel ég --- og þá er ég ekki bara að horfa á landbúnað á Íslandi heldur landbúnað í heiminum í heild --- að það sé fáum starfsgreinum mikilvægara að umhverfismálaumræðan í heiminum komist í eðlilegan farveg, komist á skrið en einmitt landbúnaðinum. Það byggi ég á því að verulegar þversagnir eru annars vegar í þeim kröfum sem gerðar eru til landbúnaðarins um framleiðni og verð á framleiðslunni og hins vegar þeim kröfum sem gerðar eru til umhverfismála.
    Þrátt fyrir það að umhverfismálaumræðan sé orðin mun meiri en hún hefur verið á umliðnum áratugum, þá er það enn svo að gerðar eru kröfur víða um heim til landbúnaðarins, kröfur út frá viðskiptalegum sjónarmiðum sem ganga þvert á umhverfissjónarmið. Það er af þessum ástæðum sem ég tel mjög mikilvægt fyrir landbúnaðinn að umhverfismálaumræðan, sem nú er í gangi og snýr m.a. að landbúnaðinum, fái góða umfjöllun og farsæla niðurstöðu. Ég vil einnig benda á í þessu sambandi, þar sem ég er að nefna auknar framleiðnikröfur og kröfur um lægra verð sem gerðar eru til landbúnaðarins, að í máli allra þeirra sérfræðinga sem ég hef heyrt ræða um umhverfismál og landbúnað kemur skýrt fram að forsenda þess að landbúnaðurinn geti lifað í sátt við sitt umhverfi og fullnægt þeim kröfum sem til hans eru gerðar til lengri tíma er að landbúnaður á hverjum tíma búi við þokkalega fjárhagslega afkomu.
    Það var mjög gagnlegt fyrir okkur Íslendingana, sem fylgdust með umhverfismálaráðstefnu á vegum alþjóðasamtaka búvöruframleiðenda á Íslandi í haust, að kynnast þeim nýju viðhorfum sem þar komu fram. Einna gagnlegast var að hlýða á ræðu Bukmans, landbúnaðarráðherra Hollands, þar sem hann lýsti þeirri áætlun sem Hollendingar eru að setja af stað núna, tíu ára áætlun sem miðar að því að að loknum þeim tíma standist hollenskur landbúnaður þær kröfur sem gerðar eru til umhverfisvæns landbúnaðar.
    Nú vil ég taka það skýrt fram að í mínum huga er umhverfisvænn landbúnaður ekki það að hverfa aftur til handverkfæra og hestsins. Ég er þeirrar skoðunar að landbúnaðurinn eigi að hafa vissan forgang og það sem við verðum að vinna að á næstunni er að samræma nútímatækni til matvælaframleiðslu þeim markmiðum sem við setjum okkur í umhverfismálum. Það tel ég fyllilega framkvæmanlegt og í raun einu leiðina ef okkur á að takast að brauðfæða jarðarbúa --- ég er ekki bara að tala um Íslendinga heldur landbúnaðinn í heild í heiminum --- miðað við vaxandi fólksfjölda á næstu árum.
    Ég ætla í seinni hluta míns máls að koma aðeins að stöðu íslensks landbúnaðar í þessu tilliti. Það opnaði augu mín þegar erlendu gestirnir á umhverfisráðstefnunni í haust fóru í ferðalag um Suðurland að lokinni ráðstefnunni, heimsóttu þar m.a. myndarlegt kúabú á Suðurlandi --- ég hafði því miður ekki tök á að vera með í ferðinni en frétti af þessu eftir á --- kynntu sér búskapinn og spurðu margra spurninga, að niðurstaða þeirra var sú að þarna hefðu þeir verið að skoða búskap og búskaparhætti sem vantaði ósköp lítið upp á að falla undir þær kröfur sem erlendis er farið að setja um umhverfisvænan búskap. Það sem vantaði helst á var að dregið væri eilítið úr áburðarnotkun til að búskapurinn félli undir þær kröfur sem menn gera til umhverfisvæns búskapar í okkar nágrannalöndum og menn viðurkenna að raunhæft sé greiða 25--30% hærra verð fyrir afurðir þeirra en afurðir sem framleiddar eru með meiri efnanotkun og aðkeyptum aðföngum. Þrátt fyrir allt þá notar íslenskur landbúnaður aðskotaefni í mjög litlum mæli. Þetta eru að vísu hlutir sem við vitum sem fylgst höfum með þróun landbúnaðar og búskapar en hefur ekki verið staðfest. Það er eitt af því sem er mjög brýnt á næstunni að lögð verði áhersla á rannsóknir á íslenskum matvælum þannig að við getum á hverjum tíma með vottorði frá viðurkenndri stofnun sýnt fram á heilbrigði afurðanna og sýnt fram á að í þeim finnist ekki ýmis þau aðskotaefni sem eru orðin til vandræða í matvælaframleiðslu víða um heim.
    Ég vil einnig nefna í þessu samhengi, þó að þar sé samhengið ekki eins beint, þá ráðstefnu sem félagar í Húsgulli á Húsavík stóðu fyrir norður á Húsavík um síðustu helgi og fjallaði um endurheimt landgæða. Þetta var að mínu mati afar merkileg ráðstefna. Eitt af því athyglisverðasta sem þar kom fram er að nú er grundvöllur til þess að bændur og aðrir áhugamenn um umhverfismál og landvernd geti tekið höndum saman varðandi þennan þátt umhverfismála, þ.e. landvernd og uppgræðslu. Á umliðnum árum hefur verið nokkur gjá á milli sjónarmiða. Ég er ekki að segja að nú sé þannig komið að allir séu algerlega sammála. En sjónarmiðin hafa nálgast svo mikið að ég tel að nú geti menn tekið höndum saman varðandi þennan þátt landbúnaðar- og umhverfismála. Það er m.a. vegna þess að menn hafa á síðustu árum gert sér ljósa grein fyrir því að árangur næst ekki öðruvísi en menn hefji samvinnu við bændur og hagsmunir þeirra verði virtir. Þetta kom m.a. mjög skýrt fram í erindi dr. Björns Sigurbjörnssonar, sem er einn af framkvæmdastjórum FAO í Vínarborg, þar sem hann fór yfir þetta mál á nokkuð víðum grundvelli í alþjóðlegu samhengi og benti á að þarna væri um vandamál að ræða sem væri ekkert séríslenkt. Menn eru að fást við þetta um allan heim og almenna niðurstaðan er sú að menn ná ekki árangri öðruvísi en í samvinnu við þá sem landið erja, bændurna á hverjum stað. Þetta kom líka mjög skýrt fram á umhverfisráðstefnu búvöruframleiðenda í Reykjavík í haust. Þetta er að mínu mati líka grein af þeim meiði sem ég held að sé að vaxa í umhverfismálum núna að menn eru að gera sér grein fyrir því að árangur næst ekki í umhverfismálum með miðstýrðum stjórnvaldsaðgerðum. Enginn árangur næst með því að einhver sjálfskipaður hópur telji sig hafa vit á umhverfismálum og hans sé mátturinn, dýrðin og valdið til þess að framfylgja þessu. Við náum ekki árangri öðruvísi en ná breiðum skilningi, ná skilningi þeirra sem umgangast landið hvort sem það eru bændur eða aðrir og í orðsins fyllstu merkingu að ala upp umhverfisverndarsinna og þá kannski öðru fremur með því að leyfa mönnum undir leiðsögn að fara um og njóta landsins.
    Virðulegi forseti. Ég sagði í upphafi að ætlaði ekki að halda langa ræðu um þetta mál en ég vildi undirstrika mikilvægi þess og tel reyndar að þetta sé með merkari málum sem hafa verið lögð fyrir Alþingi. Ég ætla að lokum að nefna einn þátt til viðbótar sem styður þá skoðun mína. Ég er þeirrar skoðunar að það geti komið að því eftir einhver ár ef við stöndum vel að umhverfismálum innan lands, ef við stöndum vel að rannsóknaþættinum og eftirlitsþættinum á íslenskum matvælum, að við getum á einhverju stigi flutt út takmarkað magn af íslenskri gæðamatvöru sem byggir á íslenskum landbúnaði. En það gerum við ekki nema við náum að skapa þeim vörum þá sérstöðu að þar sé um að ræða ómengaða hollustuvöru. Ég veit reyndar að nokkur grundvöllur er fyrir slíku. Nú fyrir nokkrum dögum var undirrituð viljayfirlýsing milli mjólkursamlags KEA á Akureyri og bandarískra aðila, að vísu ekki um útflutning á íslenskum landbúnaðarvörum heldur um leyfi til framleiðslu á íslensku skyri vestur í Bandaríkjunum þar sem á að selja Ísland, það á að selja hreint og fagurt land þó svo að framleiðslan sé í öðru landi. Þetta tel ég vera einn merkasta áfanga sem náðst hefur í þróun íslenskra búvara að tæknikunnátta okkar Íslendinga á því sviði og þær vörur sem við höfum upp á að bjóða séu þess eðlis að við getum selt framleiðsluréttinn vestur til Bandaríkjanna. Þarna hafa myndast sambönd sem er full ástæða til þess að rækta því að í fyllingu tímans getur vel farið svo að hægt verði að vinna þar áhuga og markað fyrir fleiri vörur. Hins vegar var það sorglega og kannski að sumu leyti hlálega í þessu máli varðandi skyrútflutninginn að það sem strandaði endanlega á að við skyldum ekki geta flutt út íslenska afurð að innflutningsleyfi fékkst ekki í landi frelsins því að þar er allt reyrt niður í kvóta og innflutningsbönn. Það var ekki framleiðslukostnaður á íslensku vörunni, því síður gæðakröfur sem strandaði á. Þeir eru bæði með belti og axlabönd, þeir eru bæði með kvóta þar sem þetta var flokkað sem ostur sem Íslendingar höfðu ekki og máttu þess vegna ekki flytja út skyr til Bandaríkjanna. Í öðru lagi hafa þeir eina allsherjarlöggjöf sem bannar innflutning af þessu tagi ef þeir telja að það skaði hagsmuni bandarískra bænda. Ég held því að hlutir sem þessir gætu verið okkur Íslendingum þörf áminning þó ég sé á engan hátt að hvetja til þess að við fetum í fótspor Bandaríkjamanna hvað þetta snertir.