Vistfræðileg þróun landbúnaðar á Íslandi

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 16:17:00 (4713)

     Auður Sveinsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um athugun á vistfræðilegri þróun landbúnaðar á Íslandi. Í greinargerð með tillögunni er getið um ráðstefnu Alþjóðabændasamtakanna sem haldin var hér á landi sl. haust. Í niðurstöðum ráðstefnunnar er lögð áhersla á tilmæli Sameinuðu þjóðanna til aðildarríkja sinna að fylgja niðurstöðum Brundtland-skýrslunnar svonefndu frá því 1987 um sjálfbæra þróun. Fimm ár eru liðin síðan þessi tilmæli um sjálfbæra þróun komu frá Sameinuðu þjóðunum, þá á grundvelli nefndar sem hafði starfað í allmörg ár og nefnd var eftir núv. forsrh. Noregs, Gro Harlem Brundtland. Frá Sameinuðu þjóðunum komu sem sagt tilmæli um að aðildarríkin skyldu taka sjálfbæra þróun og þá hugmyndfræði sem liggur á bak við hana til athugunar og reyna að aðlaga bæði atvinnumál og efnahagsmál að þessari hugmyndafræði. Fjölmörg ríki hafa sinnt þessum tilmælum og eru komin sæmilega á veg með að vinna úr þessu og hafa gert úttekt á þessum málum á mismunandi hátt. Hins vegar hefur ákaflega lítið verið gert hér á landi og nánast ekki neitt. Bæði fyrrv. ríkisstjórn svo og núv. ríkisstjórn hafa í raun og veru ekki sinnt þessum tilmælum Sameinuðu þjóðanna og má segja að sú till. til þál. sem hér er lögð fram sé fyrsta skrefið í þá átt að verða við þessum tilmælum. Ég vil taka undir það sem hv. 6. þm. Norðurl. e. sagði áðan að þetta væri með merkari málum sem lögð væru hér fram.
    Lokayfirlýsing þessarar alþjóðaráðstefnu bændasamtakanna er í fjölmörgum liðum og allir þessir liðir fjalla um á hvaða hátt landbúnaðurinn sem atvinnugrein getur staðið best að sjálfbærri þróun.
    Virðulegi forseti. Þannig er komið fyrir ástandi jarðar vegna græðgi mannsins og misskiptingu auðs og valds að aðgerða er þörf og tíminn er naumur. Hugmyndafræðin um sjálfbæra þróun er skref í þá átt að spyrna við fótum og þar verðum við að leggja okkar af mörkum. Vissulega eru margir liðirnir í þessari lokaályktun áðurnefndrar ráðstefnu þess eðlis að þeir ná ekki yfir aðstæður hér á landi en mörgum getum við fylgt. Hins vegar er mikilvægt að sérstaða okkar varðandi tiltölulega ómengaðan jarðveg og möguleika á framleiðslu hollra matvæla sé tryggð og á það verður að leggja áherslu. Ég fagna því að þessi tillaga er lögð hér fram og óska þess að hún fái stuðning í þinginu. Jafnframt hvet ég til þess að hliðstæð vinna og áætlun sem farið er fram á að verði gerð verði einnig framkvæmd hjá öðrum atvinnugreinum og tekin fyrir til svipaðrar umfjöllunar hér á þinginu. Ég vænti þess að þessi till. til þál. fái gott brautargengi á þinginu.