Vistfræðileg þróun landbúnaðar á Íslandi

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 16:24:00 (4715)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég er einn af flm. þessarar till. og það kemur því væntanlega engum á óvart að ég vil lýsa yfir stuðningi við efni hennar og ánægju með þá umræðu sem hefur farið fram um tillöguna. Út af orðum hv. síðasta ræðumanns er það vissulega rétt að æskilegt hefði verið að þetta mál hefði komist fyrr til umræðu og til nefndar og helst afgreiðslu þannig að einhver vinna á grundvelli tillögunnar hefði mátt fara fram og verða m.a. íslenskum stjórnvöldum að gagni í sambandi við undirbúning margnefndrar umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Brasilíu. Það breytir hins vegar í sjálfu sér engu um ágæti till. og nauðsyn þess að taka á þessum málum þó að svo sé komið að það sé tæplega raunhæft að 40 manna sendinefnd Íslands til Ríó hafi með sér í farteskinu gagnlegar upplýsingar á grundvelli vinnu af þessu tagi en við verðum engu að síður að vona að för þeirra verði vel heppnuð.
    Hitt er svo ánægjuefni eins og þessi mál hafa þróast hér á Íslandi að landbúnaðurinn er á margan hátt í forustu fyrir íslenskum atvinnugreinum hvað snertir þessa hlið mála og umræðu um vistfræðilega stöðu atvinnugreinarinnar og er það auðvitað í sjálfu sér ekkert undrunarefni jafnnáin og sambúð landbúnaðarins og náttúrunnar er. Það var ánægjulegt á sínum tíma þegar forsvarsmenn íslenskra bænda leituðu til stjórnvalda um stuðning við að halda þá ráðstefnu sem m.a. hefur getið af sér þessa till. að þá var tekin sú ákvörðun að gera það kleift að hún yrði haldin hér á landi. Það tókst með góðu samstarfi aðila og var eftir því sem ég best veit öllum til sóma sem að henni stóðu. Lítill vafi er á því að íslenskur landbúnaður og umhverfismál á Íslandi geta notið góðs af því að þessi ráðstefna fór hér fram ef rétt er á málunum haldið. Einmitt núna stendur svo á að afrakstur ráðstefnunnar hefur verið að koma út í sérprenti Búnaðarblaðsins Freys og ég vænti þess að hv. alþm. hafi einmitt verið að fá það í pósthólf sín núna fyrir skemmstu og þannig liggur það jafnframt fyrir nú við umræðu um málið.
    Ég ætla ekki, hæstv. forseti, að fara út í miklar efnislegar umræður um till., enda hygg ég að flest sé þar komið fram sem ástæða er til að nefna á þessu stigi málsins. Ég vil leyfa mér að vona að till. fái brautargengi á þinginu í vetur. Það væri að mínu mati ómaklegt og leitt til þess að vita ef Alþingi tæki ekki vel við þessari málafylgju og afgreiddi þetta fyrir sitt leyti. Að sjálfsögðu er ekki verið að mæla fyrir um það í einstökum atriðum hvernig þessum málum verður sinnt á næstu árum, hve miklu fé verður ráðstafað í þessu skyni o.s.frv., enda er að vissu leyti verið að hefja brautryðjendastarf en það er þeim mun mikilvægara að mínu mati upp á það sem eftir kemur að málið sofni ekki á þessu stigi heldur verði haldið áfram að taka á þeim í framhaldi af þeirri hreyfingu sem þegar hefur komist á hlutina. Ég vænti þess að ekki verði ágreiningur um það í landbn. sem eins og hér var sagt fær væntanlega till. til umfjöllunar að leggja til afgreiðslu á henni. En ég bendi jafnframt á að ekki væri óeðlilegt að umhverfisnefnd þingsins yrði höfð til ráðagerðar í sambandi við meðferðina á þessu máli. Þetta er í raun og veru mál sem snertir verksvið beggja nefndanna og mætti reyndar hafa til hliðsjónar í fleiri tilvikum þar sem ætti við aðrar atvinnugreinar. Að sjálfsögðu er t.d. sjávarútvegurinn íslenski að mjög mörgu leyti í sambærilega stöðu settur og landbúnaðurinn, byggir afkomu sína á nýtingu lífrænna auðlinda og verður að finna heppilegar málamiðlanir og sambúðarform sín við náttúruna og auðlindirnar til þess að geta orðið sjálfbær og með farsælum hætti byggt afkomu sína og velgengni til lengri framtíðar litið á því að þessi sambúð öll sömul sé farsæl. Einnig með það í huga legg ég enn og aftur áherslu á það að á þessum málum verði tekið vegna þess að mér býður svo í grun að ef vel tekst til þá gætu fleiri aðilar komið á eftir þegar brautin hefur einu sinni verið rudd með þeim hætti sem þessi till. gerir ráð fyrir.