Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 18:04:00 (4725)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem farið hefur fram um frv. og það frumkvæði að umræðunni sem tekið er með því að leggja frv. fram á Alþingi. Auðvitað er sjálfsagt og eðlilegt að viðurkenna, eins og reyndar er gert í greinargerð með frv., að það hefur kannski vegið þyngra þegar það var lagt fram í fyrsta sinni á 109. löggjafarþinginu, enda pólitískar aðstæður í veröldinni öðruvísi þá. Án þess að ég hafi skoðað það sérstaklega segir mér svo hugur að þá hafi verið snarpari umræður á Alþingi um þetta mál en eru núna og það sýnir kannski svolítið hvernig hlutirnir hafa blessunarlega breyst á undanförnum árum og að í þessum heimshluta er heldur friðvænlegar um að horfa en var.
    Það er kunnara en frá þurfi að segja að stórveldi heimsins, þá er ég að tala um flotaveldi heimsins, hafa litið á höfin eins og einskis manns land þar sem þau gætu farið fram að eigin vild og notað höfin eins og leiksvæði fyrir sjálf sig. Auðvitað eru höfin ekki einskis manns land. Þau eru sameign jarðarbúa allra og það er mjög mikilvægt að varðveita þessa sameign og passa upp á að henni verði ekki spillt.
    Mín skoðun er sú, svo ég víki aðeins frá meginefni frv. og þó er það mjög tengt efni þess, að friðlýsing hafsins og ekki síst hafsvæðisins í Norður-Atlantshafi sé eitt stærsta öryggismál Íslendinga núna og mjög mikilvægt að á Alþingi og af íslenskum stjórnvöldum verði unnið að því með öllum tiltækum ráðum að ná því fram. Þetta er ekki bara spurningin um umhverfi. Þetta er öryggismál Íslendinga og eitt hið stærsta.
    Við vitum að í höfunum allt í kring sigla skip og kafbátar sem eru í raun og veru eins og fljótandi kjarnorkuver. Þessi fljótandi kjarnorkuver lúta litlu sem engu alþjóðlegu eftirliti og að því leytinu til erum við miklu verr sett með þau en hin slæmu kjarnorkuver sem eru víða á landi eins og í Sovétríkjunum og okkur berast núna skelfilegar fregnir af. Því er mikilvægt að við Íslendingar víkkum út núgildandi stefnu í þessum málum. Ég hef reyndar talað fyrir því áður á Alþingi að utanrmn. taki til endurskoðunar þá stefnumörkun sem fram fór á Alþingi 1985 og bæti inn í hana einhverju varðandi umferð kjarnorkuknúinna skipa í nágrenni Íslands. Rétt er að taka það fram að þrátt fyrir að einhliða afvopnun hafi átt sér stað á undanförnum missirum og hún eigi nú mjög upp á pallborðið hjá stærstu herveldunum, Bandaríkjamönnum og Rússum, er ekkert lát á kjarnorkuvæðingu skipa, ef við getum talað sem svo. Þess vegna er þetta enn brýnna en ella.
    Hv. 3. þm. Reykv. rakti nokkuð yfirlit þessara mála hér og er sjálfsagt að þakka fyrir það þó að sínum augum líti hver á silfrið eins og þar stendur og söguskoðun manna er kannski nokkuð mismunandi. Hann rakti það m.a. að stefnan varðandi kjarnorkuvopn hefði verið mörkuð á Íslandi á árunum 1956--1958 og þá hefðu menn komist að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að hér á landi skyldu ekki staðsett kjarnorkuvopn. ( BBj: Nema með samþykki íslenskra stjórnvalda.) Nema með samþykki íslenskra stjórnvalda, auðvitað. Sú stefna hefði verið virt af Bandaríkjamönnum og þeim kjarnorkuveldum sem við höfum haft mest samskipti við. Auðvitað er og hefur alla tíð verið mismunandi túlkun á því hvað við væri átt með staðsetningu kjarnavopna á Íslandi. Margir töldu að það tæki til landsvæðisins, til hafsins þ.e. til hafna og til landhelginnar innan 12 mílna og um lofthelgina yfir landinu. Aðrir hafa litið svo á að þetta ætti einungis við um landsvæði.
    Árið 1985 tók þáv. utanrrh. Geir Hallgrímsson af öll tvímæli í þessum efnum þegar hann lýsti því yfir á Alþingi að stefnan næði til komu erlendra herskipa í íslenskar hafnir. Það var, held ég, tvímælalaust ákveðin stefnubreyting sem þar átti sér stað. Menn hafa ekki viljað viðurkenna það og ég held að mér sé óhætt að fullyrða að sjálfstæðismenn hafa litið svo á að þarna væri einungis um ítrekun á fyrri stefnu að ræða en ekki stefnubreytingu. Ég held að óhætt sé að fullyrða að þarna hafi verið um stefnubreytingu að ræða því að gögn sýna, maður getur ekki sagt með óyggjandi hætti en það eru mjög sterkar vísbendingar í þá átt, að fram til þess tíma hafi skip með kjarnavopn innan borðs komið til hafna á Íslandi. Það hafi hins vegar ekki gerst eftir að þessi yfirlýsing var gefin á Alþingi og stefnan mörkuð í yfirlýsingu Alþingis. Þarna hafi sem sagt átt sér stað ákveðin stefnubreyting.
    Það er auðvitað góðra gjalda vert ef Bandaríkjamenn og önnur kjarnorkuveldi sem hingað hafa komið hafa þá virt þessa stefnu en fyrir því er auðvitað engin trygging. Fyrir því hefur aldrei verið trygging og er engin trygging á meðan sú stefna er við lýði að játa hvorki né neita tilvist kjarnorkuvopna um borð í skipum. Sem dæmi má nefna að þegar umræðan fór fram á Alþingi um að lýsa Norðurlöndin kjarnorkuvopnalaus þá sögðu menn hér og m.a. núv. hæstv. utanrrh. að það væri alveg óþarfi því að þau væru í reynd kjarnorkuvopnalaus. Síðan hefur verið sýnt fram á það að tugur og ég held jafnvel að það nái yfir hundrað herskip hafa komið í norrænar hafnir með kjarnavopn innan borðs. Þetta er nú kjarnorkuvopnalausu Norðurlöndin sem svo hafa verið kölluð hér af núv. utanrrh. Það er auðvitað ekki rétt. Ég gat um þá stefnu Bandaríkjamanna að játa hvorki né neita tilvist kjarnorkuvopna um borð í skipum sínum. Ég held að einmitt þetta frv. sem við erum að tala um hér skipti máli í því sambandi. Þetta frv. er ögrun við þá stefnu sem kölluð hefur verið ,,nic nod`` stefnan, þ.e. játa hvorki né neita tilvist kjarnorkuvopna um borð í skipum. Það var auðvitað það sem gerðist á Nýja-Sjálandi þegar þeir samþykktu sitt frv. og uppnám varð í samskiptum þeirra og Bandaríkjanna eins og 3. þm. Reykv. benti á rétt áðan. Ástæðan var sú að þeir ögruðu og þeir ógnuðu stefnunni um að játa hvorki né neita tilvist kjarnorkuvopna um borð í herskipum.
    Sú stefna hefur hins vegar lítið sem ekkert hernaðarlegt gildi og hefur sjálfsagt aldrei haft. Þessi stefna hafði fyrst og fremst pólitískt gildi þegar hún var samþykkt vegna þess að hún auðveldaði Bandaríkjamönnum að staðsetja kjarnorkuvopn í Evrópu. Stjórnvöld gátu vísað í það að hvorki væri hægt að játa né neita að þessi vopn væru á þeirra landi. Þannig hafði stefnan fyrst og fremst pólitískt gildi. Hún hefur eins og ég sagði lítið sem ekkert hernaðarlegt gildi og hefur aldrei haft. Menn vilja ekki viðurkenna núna að hún hafi líka glatað sínu pólitíska gildi og hafa ekki numið hana formlega séð úr gildi ef ég veit rétt.
    Það er auðvitað rétt sem kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv. að mikil breyting hefur orðið og varð eftir að Bush ákvað einhliða að taka öll skammdræg kjarnavopn úr bandarískum herskipum og að það ættu ekki að vera nein kjarnavopn á höfunum á friðartímum og ekki reyndar heldur langdræg og Tomahawk-stýriflaugarnar ættu að geymast í Bandaríkjunum á friðartímum. En við þekkjum það úr Íslandssögunni að það er afstætt hvað teljast friðartímar og það er auðvitað bara undir Bandaríkjamönnum einum komið hvenær þeir setja þessar Tomahawk-stýriflaugar um borð í skip og sigla með þær um heimshöfin. Á meðan svo er þá held ég að mál þetta og umræða um kjarnorkuvopnalaust Ísland og Norðurlönd hafi ekki glatað gildi sínu.