Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

109. fundur
Miðvikudaginn 25. mars 1992, kl. 14:17:00 (4737)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég ætla fyrst að víkja hér að orðum hv. 2. þm. Vestf. Að vísu ætla ég ekki að gera athugasemd við það mat hv. þm. að nauðsyn hafi borið til að hann talaði nú nokkur orð inn á spjöld sögunnar, en við efnisatriði ræðunnar ætla ég að gera örfáar athugasemdir.
    Fyrst að því er varðar það samkomulag sem gert var í hv. sjútvn. og samþykkt var við 2. umr. hér í þinginu. Ég var ekki viðstaddur þá umræðu, en eins og fram kom hjá hv. 1. þm. Vestf., formanni nefndarinnar, féllst ég á þá málamiðlun sem gerð var við afgreiðslu nefndarinnar og þá brtt. sem nú hefur verið samþykkt. Hér er um að ræða breytingu á formi. Ég lít svo á að þrátt fyrir hana náist það markmið sem sett var með flutningi frv. og því hafi á engan hátt verið raskað. Almenna reglan er sú að löndun á fiski úr erlendum fiskiskipum er heimil. Hún er einnig heimil úr sameiginlegum stofnum ef samningar hafa verið gerðir um nýtingu þeirra, en er háð leyfi ráðherra ef slíkir samningar hafa ekki verið gerðir. Ég tel að sú útfærsla sem hér liggur fyrir eftir þá málamiðlun sem gerð var í nefndinni breyti í engu upphaflegum áformum með flutningi þessa frv.
    Hv. 2. þm. Vestf. vék að afstöðu okkar til Grænlendinga. Flest var það á misskilningi byggt. Við höfum ástundað mjög gott samstarf við Grænlendinga, viljum gera það og þurfum að gera það. Hins vegar er ljóst að við þurfum að halda á rétti okkar að því er varðar nýtingu sameiginlegra stofna og hljótum að leita fast eftir því við Grænland að það komi til samninga um þá stofna. Það hefur gengið mjög treglega. Og það er rétt að við áskiljum okkur alla möguleika á því að takmarka landanir úr sameiginlegum stofnum sem ekki hefur verið samið um í þeim tilgangi að knýja á um samninga.
    Nú fyrir skömmu voru fluttar af því fréttir að Grænlendingar hefðu gert samninga um veiðar innan sinnar lögsögu úr stofnum sem eru sameiginlegir og þar á meðal á karfa. Það hlaut að leiða til þess að við enn á ný leituðum eftir samningum við þá um þessi efni. Síðasta sumar voru ítrekaðar óskir um samningaviðræður um skiptingu á rækjustofninum. Þá gáfu Grænlendingar fyrirheit um að í október yrðu þeir tilbúnir til embættismannaviðræðna þar að lútandi. Þau áform stóðust ekki. Nú fengum við hins vegar fyrir örfáum dögum skilaboð frá grænlensku landsstjórninni um það að hún sé reiðubúin til viðræðna um karfastofninn og ég tel það vera mjög mikilvægt og við munum ganga á eftir því að þær viðræður geti hafist sem fyrst.
    Í heild tel ég þess vegna að athugasemdir hv. 2. þm. Vestf. hafi verið á misskilningi byggðar þó að þær væru ætlaðar sjálfum spjöldum sögunnar.
    Ég vil svo þakka hv. sjútvn. fyrir alla meðferð málsins. Vitaskuld má alltaf deila um það þegar málamiðlanir eru gerðar um orðalag, en ég ítreka að ég tel að sú málamiðlun sem gerð var hafi ekki raskað því markmiði sem sett var og það skiptir vitaskuld miklu máli að sem best samstaða sé um svo mikilvæga löggjöf sem hér er verið að fjalla um og lýtur að réttindum til veiða innan íslenskrar fiskveiðilögsögu og löndunar á fiski hér á landi. Ég vil þakka hv. nefnd fyrir það starf sem hún hefur lagt í þetta frv. og einnig þá umfjöllun sem fram fór á milli 2. og 3. umr. í tilefni af fréttum um viðskipti íslenskra aðila við spænsk útgerðarfyrirtæki um afla sem veiddur er utan lögsögu Kanada.
    Ég vil af því tilefni og vegna þeirrar niðurstöðu sem varð í hv. sjútvn. í morgun ítreka það eins og fram hefur áður komið af minni hálfu að við höfum lýst yfir fullum stuðningi við baráttu Kanada um að ná virkari stjórnun á þessum veiðum og þar verður engin breyting á. Það er full samstaða á milli þess sem sjútvrn. hefur þegar aðhafst í þessu efni og þeirrar niðurstöðu sem varð í hv. nefnd í morgun.
    Hér er um það að ræða að Norðvestur-Atlantshafsnefndin skiptir niður veiðiheimildum utan 200 mílna lögsögu við Kanada. Evrópubandalagið hefur hins vegar ekki sætt sig við þá skiptingu og hefur útdeilt mun meiri kvótum til aðildarríkja sinna. Eftir 1990 hefur þó heldur dregið úr þessum mismun en enn eru uppi ásakanir af hálfu Kanadamanna um verulega ofveiði þessara ríkja, sérstaklega Spánverja og Portúgala, enn fremur eru uppi ásakanir af hálfu Kanadamanna um veiðar ríkja sem ekki eiga aðild að Norðvestur-Atlantshafsnefndinni og ekki eiga aflaheimildir samkvæmt ákvörðunum hennar.
    Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar og Kanadamanna í þessu efni að koma á virkari stjórnun og eftirliti með slíkum veiðum og við höfum ekki aðeins bréflega lýst því yfir, varðandi málaleitan kanadíska sjávarútvegsráðherrans, heldur höfum við einnig í verki á undirbúningsfundum New York ráðstefnunnar, sem undirbýr umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, stutt tillögur Kanada hér að lútandi.
    Í svarbréfi mínu til kanadíska sjávarútvegsráðherrans kom þessi afstaða íslensku ríkisstjórnarinnar mjög skýrt fram. Þar var einnig óskað eftir því að viðræður gætu farið fram um ýmis önnur sameiginleg hagsmunamál, þar á meðal um hvalveiðar. Þess er að vænta að sjávarútvegsráðherra Kanada komi í heimsókn til landsins síðar á þessu ári og þá verður hægt með virkari hætti að taka upp þessi sameiginlegu viðfangsefni og freista þess að treysta samstöðu þessara tveggja þjóða, bæði að því er varðar stjórnun veiðanna utan 200 mílna lögsögu og að öðru leyti nýtingu auðlinda sjávarins eins og að því er varðar hvalastofnana.