Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

109. fundur
Miðvikudaginn 25. mars 1992, kl. 14:32:00 (4739)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Ég þarf ekki að segja mörg orð. Ég vil aðeins fagna því sem hér er að gerast og því góða samstarfi sem var á milli utanrmn. og sjútvn. Ég vil sérstaklega þakka formanni nefndarinnar, hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, fyrir hans ræðu sem sagði í sjálfu sér allt sem segja þarf um málið.
    Ég hef verið að gera mér vonir um það að hérna yrði einróma atkvæðagreiðsla en mér skilst nú að einn hv. þm. a.m.k. ætli ekki að standa með okkur hinum. Auðvitað hafa menn frjálsræði að sínum skoðunum og greiða atkvæði eftir sinni sannfæringu en mikið væri það nú gaman ef hér yrði einróma niðurstaða eins og svo oft áður í mikilvægustu málum okkar, landhelgismálunum.
    Ég vil líka sérstaklega fagna því að menn hafa lýst því yfir að við Íslendingar munum hafa náið samstarf við Kanadamenn, Nýfundnaland, um sameiginleg markmið og ætla ekki að fara lengra út í þá sálma. Mér hafa borist ýmiss konar gögn varðandi þeirra starfsemi, að friða landgrunnið langt út fyrir 200 mílur, þ.e. yfir 400, og ég vona að þegar það mál kemur til Alþingis, þá verði menn líka sammála um það.