Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

109. fundur
Miðvikudaginn 25. mars 1992, kl. 14:34:00 (4740)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég hef ekki mörgu við að bæta það sem áður hefur komið fram af minni hálfu í umræðum um þetta mál. Það eru nokkur orð vegna m.a. ummæla hv. 1. þm. Vestf. og formanns sjútvn. um samskiptin við okkar næstu nágranna sem ég vil taka undir. Ég held að það sé á misskilningi byggt að sú tilhögun, sem sjútvn. leggur til og þingið hefur reyndar þegar fallist á í atkvæðagreiðslu hér eftir 2. umr. og auðvitað snertir ekki síst og kannski fyrst og fremst samskiptin við okkar næstu nágranna, Færeyinga og Grænlendinga, að þau ákvæði beri að skoða sem einhverja aðgerð andstæða þeim eða hún eigi á nokkurn hátt að tákna að áhugi okkar Íslendinga á því að eiga jákvæð samskipti við þá hafi dvínað. Þvert á móti lít ég á þetta í samhengi við þá viðleitni sem verið hefur í gangi á undanförnum árum að eiga við þá samskipti og samráð og funda með þeim, en jafnframt nota þau samskipti og tengsl af ýmsu tagi sem við höfum við þessar þjóðir, m.a. í gegnum formbundið samstarf þjóðþinganna þriggja sem nefnt er Vestnorræna þingmannaráðið, fá þá með slíkum ráðum til þess að gera við okkur og ljúka samningum um nýtingu allra helstu sameiginlegra stofna. Ég held að mikilvægi þessa sé síst minna nú en verið hefur. Það er vissulega rétt sem hér hefur verið nefnt að það hefur miðað hægt en þess þá heldur er nauðsynlegt að leggja á þetta aukna áherslu. Fyrir dyrum stendur m.a. að endurnýja eða tryggja að áframhald verði á samningum um nýtingu loðnustofnsins. Það þarf að ná samningum um karfa og rækju og Færeyingar koma nú inn í þá mynd kannski með meiri þunga en áður hefur verið þar sem fyrir liggur að þeir eru að auka sókn sína í einn af þessum stofnum sem talinn er vera sameiginlegur með Íslandi, Grænlandi og Færeyjum.
    Ég leyfi mér í samhengi við þetta að taka undir með hv. 1. þm. Vestf. og formanni sjútvn. varðandi fiskveiðiréttindi Færeyinga hér á Íslandsmiðum. Ég verð að segja eins og hann að kröfur ýmissa aðila í þjóðfélaginu að undanförnu um að afnema þessi veiðiréttindi með öllu hafa valdið mér miklum vonbrigðum. Ég held að þar sé á engan hátt svo illa komið fyrir okkur Íslendingum að við höfum ekki efni á því að leyfa Færeyingum að halda einhverjum hluta sinna hefðbundnu veiðiréttinda hér sem eiga sér mjög langa sögu, hafa afgerandi þýðingu fyrir fjölmörg byggðarlög í Færeyjum og eiga sér sem sagt þannig réttlætingu á ýmsum sviðum. Hef ég þá ekki nefnt það sem ég tel auðvitað að eigi að vera mikilvægast í þessu sem eru menningarleg og stjórnmálaleg samskipti þessara skyldu þjóða, Færeyinga og Íslendinga, og nauðsyn þess að við leggjum eitthvað af mörkum í þeim efnum og sýnum á því skilning að til þess að þau samskipti geti þróast áfram með jákvæðum hætti og í því bræðralagi sem verið hefur, skulum við vona, þá þurfum við að leggja eitthvað af mörkum í því sambandi sem er hagstætt grannþjóðunum en ekki eingöngu einhliða njóta ávaxtanna af slíkum samskiptum. Það liggur fyrir að t.d. hvað viðskipti snertir er viðskiptajöfnuður Íslendingum mjög í hag í samskiptum okkar við næstu nágranna, Færeyinga og Grænlendinga og þó svo við blöndum þeim hlutum ekki saman, þá liggur það nú í hlutarins eðli að þegar litið er yfir samskipti þessara þjóða í heild sinni, þá hlýtur það að þurfa að vera þannig að báðir aðilar eða allir geti sæmilega sáttir við það unað.
    Ég vil leyfa mér að vona að frekari niðurskurður á þessum veiðiheimildum í framtíðinni verði ekki til þess að torvelda eða spilla því ágæta samstarfi sem hefur verið vaxandi og batnandi á milli vestnorrænu þjóðanna þriggja. Um hitt er ekki deila að mínu mati, að veiðiheimildir af þessu tagi hljóta auðvitað að taka mið af því hvernig aðstæður eru í okkar auðlindum og þess vegna ekki við öðru að búast en því að þær væru skornar niður a.m.k. til jafns við það sem Íslendingar sjálfir verðum að taka á okkur.
    Ég leyfi mér svo að ljúka með því, hæstv. forseti, að leggja á það áherslu, sem reyndar hefur þegar komið fram í máli bæði hv. 1. þm. Vestf. og eins hæstv. sjútvrh., að ég held að það sé mjög mikilvægt að í tengslum við allar umræður á þessu sviði gætum við Íslendingar þess að koma jafnan fram sem málsvarar skynsamlegrar nýtingar og verndunar í þessum efnum á alþjóðavettvangi sem og hér heima fyrir. Á sama tíma er að sjálfsögðu rétt nú sem endranær að við stöndum fast á rétti okkar og annarra þjóða í sambærilegri aðstöðu sem byggja á nýtingu sjávarauðlinda til að gæta þessara auðlinda og nýta þær í okkar þágu. Þetta þarf ekki, á ekki og er ekki í mótsögn hvort við annað heldur þvert á móti. Hlýtur það í raun og veru að vera óaðskiljanlegur hluti af réttindabaráttu okkar, sögulegri sem og þeirri sem yfir stendur nú eða í framtíðinni að jafnframt sé barist fyrir skynsamlegri nýtingu þessara auðlinda og alþjóðlegum samningum um þá hluta slíkrar nýtingar sem fer fram á alþjóðlegu hafsvæði. Þess vegna fagna ég því að þau skilaboð sem fari frá Alþingi Íslendinga nú við þessa umræðu, t.d. til Kanadamanna, séu ótvíræð í þá veru að við Íslendingar séum tilbúnir til að leggja okkar af mörkum bæði varðandi réttarstöðu ríkja sem eru í þessari aðstöðu, og þar er auðvelt að sjá fyrir sér að við Íslendingar getum að mörgu leyti lent í svipuðum aðstæðum og Kanadamenn eru nú að glíma við og búum reyndar þegar við þær að hluta til, samanber sókn t.d. í sameiginlegan karfastofn sem að hluta til er í andstöðu við okkur og ekki er tekið tillit til þegar ákveðið er hámark sóknar í þann stofn. Og þeim mun mikilvægara er það, held ég, að við Íslendingar skipum okkur með okkar málflutningi í réttan hóp í þessum efnum og að skilaboðin sem héðan fara misskiljist ekkert. Um það held ég að sé bærileg samstaða hér á Alþingi og það er auðvitað ákaflega mikilvægt að varðveita hana sem kostur er. Það er síðan tæknilegt úrlausnarefni í sjálfu sér með hvaða hætti menn reyna að koma sinni stefnu og sínum áherslum á framfæri í slíku tilviki. Hvort það er best gert með einhverjum breytingum á þessum lögum eða með öðrum ráðstöfunum skal ég láta ósagt um.
    Ég tek að lokum undir það að sú samstaða sem að langmestu leyti hefur náðst um afgreiðslu þessa

máls og sameiginleg afstaða utanrmn. og sjútvn. er ákaflega mikilvæg og ég held að menn þurfi mjög veigamikil rök til þess að ganga gegn henni.