Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

109. fundur
Miðvikudaginn 25. mars 1992, kl. 14:55:00 (4742)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég verð nú að viðurkenna það að ég skil ekki alfarið röksemdafærslu hv. 2. þm. Vestf. í þessu máli. Ég hef alltaf dáðst að Færeyingum fyrir það hvernig þeir stóðu með okkur í þorskastríðinu og að þeir skyldu ekki veita breskum togurum þjónustu. Auðvitað kostaði það það að þeir misstu vinnu. Nú virðist sú röksemd ekki gilda í augum þingmannsins. Nú eru viðskiptabönn og annað því um líkt bara af hinu vonda. Það segir enginn að það verði endilega beitt einhverjum viðskiptaþvingunum við Grænlendinga þó að frv. hljóði eins og það gerir. Sjútvrh., og þar af leiðandi sú ríkisstjórn sem er á hverjum tíma við völd, hlýtur að taka afstöðu til þess með hvaða hætti eigi að fara með þau mál. Og ég verð að segja það alveg eins og er að ég held að Grænlendingar hljóti að hafa áhuga á því að lokum að semja við okkur um þessi mál og mér finnst ekkert annað skynsamlegt. Ég held að það eigi að fara mjög varlega í það að draga úr þeim viðskiptum sem eru á milli þessara þjóða. Ég tel að það eigi að fara varlega með það mál. En ég tel að við eigum ekki að sleppa öllum möguleikum á því að hafa áhrif á þau viðskipti.