Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

109. fundur
Miðvikudaginn 25. mars 1992, kl. 15:10:00 (4748)

     Guðjón Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Þar sem þetta frv. er nú að komast til lokaafgreiðslu hér á Alþingi og um það bil að verða að lögum, þá vil ég lýsa vonbrigðum mínum með það hvernig það hefur þróast í meðförum þingsins. Ég tel að frv. eins og hæstv. sjútvrh. lagði það fram í haust hafi verið afskaplega vel úr garði gert og mjög tímabært að flytja það mál hér og reyndar furðulegt að það skuli ekki hafa verið samþykkt á Alþingi fyrir mörgum árum að fella úr gildi þessi gömlu úreltu lög, nr. 33 frá 1922, og samþykkja ný í þá veru sem hæstv. sjútvrh. lagði til. Það sem síðan hefur gerst er að þegar nefndir þingsins fara að fjalla um málið, hv. utanrmn. og hv. sjútvn., þá tel ég að menn hafi lagt svo mikla áherslu á það að ná samstöðu í þessum nefndum að þeir hafi í raun spillt málinu verulega og þær brtt., sérstaklega brtt. við 3. gr. frv. sem hv. sjútvn. varð sammála um, hafi orðið til þess að draga mjög úr gildi þessa ágæta frv. Ég er mjög ósammála því sem hæstv. sjútvrh. og fleiri hv. þm. hafa haldið hér fram að þetta frv. sé jafngott á eftir því

að ég tel að það frjálsræði, sem gert var ráð fyrir í upphaflega frv. og var mikið fagnaðarefni, hafi verið skert verulega með þessum breytingum. Ég held að það frjálsræði sem þar var gert ráð fyrir hefði leitt til stóraukinna viðskipta okkar við erlend skip og tek undir það sem hv. 2. þm. Vestf. nefndi hér áðan að það er stórmál fyrir iðnaðinn og þjónustuna í landinu að af þessum viðskiptum geti orðið og ég tel að frv. eins og það var í sinni upphaflegu mynd hefði frekar hvatt til slíkra viðskipta heldur en það frv. sem nú er hér til lokaafgreiðslu.
    Það hefði sjálfsagt fylgt þessu líka að við hefðum í auknum mæli fengið fisk af erlendum skipum samhliða allri þjónustu við þau og þess vegna var það að mínu viti alveg nauðsynlegt að auka frjálsræðið sem allra mest í þessum málum eins og raunar var gert ráð fyrir í upphaflega frv. Þess vegna finnst mér það afskaplega miður það hvernig þetta frv. hefur þróast í meðferð Alþingis og tel að textinn í upphaflega frv. hafi verið miklu betri en sá sem nú liggur fyrir til endanlegrar samþykktar.
    Ég greiddi að sjálfsögðu atkvæði gegn þessari brtt. við 2. umr. málsins en tel þó þrátt fyrir allt að það sé nokkur fengur að frv. eins og það liggur fyrir núna og mun því greiða því atkvæði mitt við lokaafgreiðslu málsins.
    Hér hafa verið nefndar aðeins veiðiheimildir Færeyinga og hvernig hæstv. sjútvrh. hélt á því máli. Ég tel að hann hafi haldið mjög viturlega á því máli og leyst það á þann hátt að báðir aðilar geti vel við unað.