Stjórnarráð Íslands

109. fundur
Miðvikudaginn 25. mars 1992, kl. 15:31:00 (4752)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Herra forseti. Eins og fram kom á þessi umræða sér stað með töluvert löngu millibili. Það eru þrír og hálfur mánuður eða svo síðan nokkur umræða varð um þetta mál, en þá voru miklar annir í þinginu og það varð að ráði að málið yrði ekki afgreitt fyrir jólahlé þingmanna enda var út af fyrir sig ekki brýn þörf á því. En það var þó leitast við í byrjun að ná því fram, en um það varð ekki samstaða.
    Hv. 8. þm. Reykn. nefndi það hér í ræðu í gær að hann vildi fá upplýsingar um það hvort flutningur og þá samþykkt þessa frv. væri sérstakur liður í stjórnarsamkomulagi stjórnarflokkanna, formlegu eða óformlegu. Það er rétt að upplýsa að það mál var ekki rætt á neinn veg í samstarfssamkomulagi flokkanna þegar til stjórnarinnar var stofnað á sínum tíma. Það kom ekki til umræðu þar.
    Hv. þm. nefndi líka að honum fyndist ekki eðlilegt, ef svo væri, að ráðuneyti væru sameinuð eða stofnað til þeirra með þessum hætti til þess að leysa einhver innri mál stjórnarflokka. En svarið er sem sagt það að því er ekki að heilsa hér og ég man reyndar ekki eftir neinu slíku dæmi að til ráðuneyta hafi verið stofnað með þeim hætti nema í tíð síðustu ríkisstjórnar þegar til umhvrn. var stofnað. Allir vita að það var gert sérstaklega til að kaupa til fylgilags fylgislausa þingmenn til þess að tryggja stöðu þáv. ríkisstjórnar og umhvrn. og stofnun þess var algjört lykilatriði í því púsluspili öllu. Ég er sammála hv. 8. þm. Reykn. að það fer ekki vel á því að grípa til slíkra aðgerða varðandi stjórnkerfið eins og þá var gert.
    Jafnframt hefur komið fram og menn hafa rætt það hér, m.a. hv. 8. þm. Reykn. og reyndar með vissum hætti hv. 7. þm. Reykn. líka, sem vék að því hvort með samþykkt þessa frv. væru menn að taka efnislega afstöðu til þess hvar ætti að skipa Seðlabankanum í stjórnkerfinu til frambúðar. Ég tel að í slíkri ákvörðun felist ekki nein sérstök efnisafstaða til þess. Það hefur ekki verið rætt sérstaklega í ríkisstjórn af þessu tilefni og heldur ekki þá hitt að verði þessi tvö ráðuneyti formlega sameinuð þá leiði það þegar til þess að Seðlabankinn eigi ekki að vera í því ráðuneyti. Hvorugt hefur verið rætt í þessu sambandi. Það er starfandi nefnd á vegum viðskrh. að fjalla um lög um Seðlabanka. Ég skal ekki segja hvort það er tekin efnisafstaða til þess í þeim lögum hvar Seðlabankanum er skipað og það er væntanlega ekki eðlilegt að það sé gert í undirbúningi þeirrar lagasetningar. En ég vil svara því að með þessu frv. er ekki verið að taka sérstaka efnisafstöðu til þess hvar Seðlabankanum eigi að skipa til frambúðar í stjórnkerfinu.
    Ég segi fyrir mig, fyrst ég var um það spurður af hv. 7. þm. Reykn., að ég tel eins og hann að þar komi allmörg sjónarmið til greina, þó að ég sé ekki eins ákveðinn í því eins og þeir að Seðlabankinn eigi alls ekki að tilheyra þeim ráðuneytum sem hann tilheyrir núna. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það skipti verulegu máli í sjálfu sér, en er fyrir mitt leyti tilbúinn til þess að ræða það mál og fjalla um það í framtíðinni. Í því sambandi vil ég nefna þá nefnd sem hv. 1. þm. Norðurl. v. gerði grein fyrir hér í gær. Það er ekki vafi í mínum huga að sú nefnd hefur unnið að mörgu leyti gott starf. Þar hafa komið fram margar athyglisverðar hugmyndir, sumar reyndar þess eðlis að það var næsta augljóst að skynsamlegt væri að fara eftir þeim tillögum sem þar voru á ferðinni og ýmsar aðrar tillögur athyglisverðar þó þær væru kannski ekki eins augljósar hvað þetta varðar.
    Það kom fram hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. að í margvíslegum hugmyndum og tillögum sem lagðar voru fram og ræddar í því nefndastarfi öllu var það sameiginlegt og nánast það eina sem var sameiginlegt í öllum þeim hugmyndum, ef ég skildi hv. þm. rétt, að rétt væri og eðlilegt að sameina iðn.- og viðskrn. Hv. 7. þm. Reykn. sagði hér áðan að hann hefði lagt fram frv. þess efnis og er það auðvitað vísbending um það að hann hefur talið það, eins og hann reyndar sagði hér sjálfur, að það kæmi fyllilega til álita að slíkt væri gert án þess að sú aðgerð í sjálfu sér væri liður í heildarendurskoðun á lögum um Stjórnarráðið. Ég tel, eins og hann, að það sé skynsamlegt að halda því starfi áfram og halda því starfi sem unnið var á vegum nefndar undir forustu hv. 1. þm. Norðurl. v. áfram. Það er hollt að hafa þessi mál í vinnslu og á ekki að breyta öllu í þeim efnum þó að stjórnarskipti verði og ég er sammála því sem ég las út úr ræðu hans að það væri almennt mikilvægt að hafa víðtæka samstöðu um lagfæringar og breytingar á lögum um Stjórnarráð. Hv. 7. þm. Reykn. hafði skilið það svo að það væri allvíðtæk samstaða einmitt um þetta að sameina iðn.- og viðskrn. í eitt formlegt ráðuneyti.
    Hæstv. viðskrh. gerði grein fyrir því í gær að fljótlega á ferli þeirrar stjórnar sem áður sat hafi verið gerðar veigamiklar aðgerðir sem stuðluðu að því að þessi breyting mætti eiga sér stað, m.a. með því að sami maður var gerður að ráðuneytisstjóra í báðum þessum ráðuneytum. Var það auðvitað skýr vísbending um það hvert stefna skyldi og ég býst ekki við að það hafi verið gert í andstöðu við þáv. forsrh., að þannig var til stofnað.
    Ég vænti þess að menn geti með hliðsjón af þessari forsögu allri og hversu þó allvíðtæk samstaða hafði náðst um mál þetta sameinast um að sjá til þess að það megi ná fram að ganga á þessu þingi.