Flutningur stofnana á vegum ríkisins út á landsbyggðina

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 10:54:00 (4767)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þessar umræður í svo knöppu formi sem þær hljóta að vera. Ég fæ ekki alveg skilið hvernig hv. 5. þm. Vestf. gat lesið út úr minni ræðu áðan að hugmyndir um flutning Byggðastofnunar væru úr sögunni. Ég hygg að ég hafi sagt, a.m.k. ætlaði ég að segja það, að ég mundi leggja það fyrir þingið á næsta hausti að sú ákvörðun verði tekin að flytja Byggðastofnun norður til Akureyrar, að ég mundi mæla fyrir því og leggja það til. Ég tók hins vegar fram að um það væri ágreiningur og ég kynnti hluta af þeim sjónarmiðum sem þar liggja fyrir sem er eðlilegt að gera. En ég lagði áherslu á að þingið tæki sjálft afstöðu til málsins.
    Ég get greint frá því hér að ég hafði það inni í drögum að reglugerð fyrir Byggðastofnun að Byggðastofnun skyldi flutt til Akureyrar. Mér var hins vegar á það bent af forráðamönnum Byggðastofnunar að þegar lög um Byggðastofnun voru rædd hér í þinginu á sínum tíma hafi slík tillaga verið inni en verið felld burtu. Því var talið hæpið að forsrh. væri heimilt að setja mál þess efnis inn í reglugerð fyrst þingið hefði með beinum eða a.m.k. óbeinum hætti fjallað um málið. Því er nauðsynlegt að þingið taki það sjálft til efnislegrar niðurstöðu. En því fór fjarri að ég væri að segja hér að ég eða ríkisstjórnin væri fallin frá þessum hugmyndum. Ég mun þvert á móti fylgja þeim eftir en það er þingsins að skera úr í þessum efnum og ég tel það vera töluvert prófmál, prófstein, vegna þess að þó að rökin sem færð eru fram af Byggðastofnunar hálfu séu út af fyrir sig efnisleg og ágæt, þá geta þau nánast átt við hvaða stofnun sem er. Því tel ég eðlilegt að láta á þetta reyna hvort vilji er til þess á þinginu að þessi stofnun sé flutt og sá vilji mun kannski marka sporin að töluverðu leyti til framtíðar.
    Ég tek undir með fyrirspyrjanda að það er rétt að sú nefnd sem skipuð verður starfi tiltölulega hratt þótt málið sé flókið og umfangsmikið. Eins og hv. þm. benti á hefur gríðarlega mikil vinna átt sér stað í þessum efnum á undanförnum árum.
    Vegna þess sem hv. 2. þm. Suðurl. nefndi er af minni hálfu að sjálfsögðu engin fyrirstaða fyrir því að sú umræða um byggðamál, sem staðið hafði eitthvað á þriðja sólarhring, ef ég man rétt, og stöðvaðist í miðjum tveggja tíma inngangi hv. 2. þm. Vestf. 26. nóv. sl., haldi áfram.