Húsameistari ríkisins

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 11:02:00 (4770)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er greinilega meira verk að einkavæða embætti húsameistara ríkisins en ýmsar ríkisstofnanir eins og Póst og síma. Það er dálítið merkilegt að heyra hvað menn þurfa mikið að skoða þetta mál.
    Ég vil aðeins bæta inn í umræðuna að embætti húsameistara ríkisins er að mínu mati stofnun sem starfar eingöngu samkvæmt reglugerð sem sett var 1973. Í lögum frá 1974 er skýrt kveðið á um að ekki megi setja á fót nýja ríkisstofnun nema með lögum. Þessi lög leystu af hólmi eldri lög sem höfðu að geyma nákvæmlega sama ákvæði frá árinu 1958. Ég vil því spyrja hæstv. forsrh. hvort hann telji að embætti húsameistara ríkisins starfi samkvæmt lögum ellegar hvort hér sé um að ræða ríkisstofnun sem er utan heimilda Alþingis.