Viðhald opinberra bygginga

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 11:15:00 (4777)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 18. þm. Reykv. spyr: ,,Hvernig er háttað eftirliti með ástandi opinberra bygginga og áætlanagerð um nauðsynlegt viðhald húsa í eigu ríkisins?``
    Embætti húsameistara ríkisins hefur með höndum eftirlit með ástandi þeirra opinberu bygginga sem skilgreindar eru í reglugerð um verkefni embættisins frá 16. ágúst 1973. Þær opinberu byggingar sem falla undir umsjón embættis húsameistara ríkisins samkvæmt þeirri reglugerð eru: Embættisbústaður forseta Íslands, gestahúsnæði ríkisins, Alþingishús og Hæstiréttur, skrifstofuhúsnæði Stjórnarráðsins, Safnahúsið í Reykjavík og Þjóðleikhús. Embætti húsameistara fer þó ekki með hlutverk húseigenda, þ.e. fjármálasýslu t.d. að því er þennan húsakost varðar sem ég taldi upp. Slíkt hlutverk er venjulega í höndum þeirrar stofnunar eða þess ráðuneytis sem í hlut á. Á vegum húsameistara er unnið að byggingaráðgjöf, svo sem þarfagreiningu, gerð kostnaðaráætlana, hönnun og í takmörkuðum mæli að umsjón með framkvæmdum. Öll verkefni eru unnin á grundvelli þeirra forsendna sem mótaðar eru af verkkaupa í samvinnu embætti húsameistara og verkkaupa. Framkvæmdir ráðast síðan öðru fremur af því fjármagni sem fæst til verkefnisins.
    Viðhald annarra opinberra bygginga er á hendi annarra fjölmargra aðila. Flestar B-hluta stofnanir ríkisins annast sjálfar viðhald þeirra húseigna sem þær nýta undir sinn rekstur. Hér er átt við Sementsverksmiðju ríkisins, Áburðarverksmiðju ríkisins, Ríkisútvarpið, Póst og síma, Háskóla Íslands, ríkisspítala, Vegagerð ríkisins og Vita- og hafnamálaskrifstofu.
    Umsjón með viðhaldi skóla er á vegum sveitarfélaga og byggingardeildar menntmrn. Umsjón með embættisbústöðum sýslumanna og presta eru á vegum byggingardeildar dóms- og kirkjumrn. Umsjón með heilbrigðismannvirkjum er einkum á vegum sveitarfélaga, sjúkrahússtjórna og tæknideildar ríkisspítalanna.
    Vegna þess sem hv. fyrirspyrjandi nefndi í aðdraganda sinnar spurningar vil ég taka undir það að ríkisvaldið hefur staðið slælega að viðhaldi bygginga, auðvitað kannski af góðum og gildum ástæðum. Fjárskortur hefur hamlað eins og þekkt er. Ég er ekki í vafa um að þær vanrækslusyndir, ef við getum kallað þær svo, munu hefna sín á næstu árum og áratugum því að mjög margar mikilvægar byggingar eru í mjög slæmu ástandi. Við þekkjum vandamál varðandi Þjóðleikhúsið þar sem í raun þyrftu að koma til ekki bara milljónir heldur milljónatugir. Menn eru komnir í miklu stærri tölur hvað það varðar en áður, nánast komið að því að endurbyggja þurfi það hús vegna þess að venjulegu viðhaldi hefur ekki verið sinnt og því miður er hægt að nefna fleiri dæmi af slíku tagi.
    Við vitum líka að í landinu hefur töluvert verið byggt um of á undanförnum árum. Ég hygg að það gæti verið kostur núna á næstu árum að snúa sér í vaxandi mæli að viðhaldi þeirra mannvirkja sem þegar hafa verið byggð til að treysta þau verðmæti og allan þann aðbúnað sem þessum byggingum eiga að fylgja. En þarna veltur eins og fyrri daginn mest á því hvaða fjárveitingum við treystum okkur til að beina að þessu verkefni.