Viðhald opinberra bygginga

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 11:22:00 (4780)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Aðeins vegna orða hv. 6. þm. Norðurl. e. Hann nefndi þarna að til stæði að byggja enn eitt skrauthýsið og átti þá við hugsanlega byggingu yfir Hæstarétt. Ég hygg að enginn hafi tekið það fram sérstaklega að það hús eigi að vera skrauthýsi. Hins vegar er ljóst, og ég hygg að enginn ágreiningur sé um það, að starfsaðstaða Hæstaréttar, sem er einn af þremur hornsteinum íslenskrar stjórnskipunar, er til vansa eins og hún er í dag. Vinnuaðstaðan er til vansa og ég hygg að enginn ágreiningur sé um það.
    Menn tala þá um að byggja nýtt hús yfir Hæstarétt og gera ráð fyrir því að að hús geti kostað um 360 millj. kr. Það er um 20% af viðgerðarkostnaði Þjóðleikhússins þannig að menn eru ekki að fara í einhverja stórkostlega glæsibyggingu. Svo að ég nefni byggingu sem mér er kær og ég þekki til þá er þessi upphæð 10% af kostnaði við ráðhús Reykjavíkur. Menn geta því séð að þetta eru smámunir einir sem þarna eru á ferðinni.

    Ég vek líka athygli á því, svo að það liggi ljóst fyrir, að um Safnahúsið, sem nefnt hefur verið sem hugsanlegur staður fyrir Hæstarétt, er ágreiningur. Menn greinir á um hvort það henti. Ég fyrir mitt leyti tel að það henti ekki. Ef við skoðum málið burt séð frá þeirri skoðun sem er smekksatriði getum við sagt út frá praktískari ástæðum að það hús henti ekki því það losnar ekki fyrir 1995. Þá eiga eftir að fara fram viðgerðir á húsinu þannig að í fyrsta lagi verður það tilbúið 1998 sem húsnæði fyrir Hæstarétt. Ég tel hins vegar að húsnæði fyrir Hæstarétt ætti að vera tilbúið á 50 ára afmæli lýðveldisins 1994, það færi vel á því og er ekkert ofverk fyrir okkur að byggja slíkt hús þegar menn líta á þann kostnað sem þarna er um að ræða.
    Ég vildi nefna þetta vegna þeirra orða sem hv. 6. þm. Norðurl. e. kom hér að. Að öðru leyti er ég sammála flestum þeim athugasemdum sem fyrirspyrjandi kom með í tengslum við svar mitt.