Skipulag á hálendi Íslands

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 11:25:00 (4782)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Undanfarið, sérstaklega undanfarið síðasta ár og rúmlega það, hefur mikið verið rætt um skipulag á hálendinu. Ýmsar ástæður eru til þess að það hefur verið mikið í sviðsljósinu. Þar er t.d. línulögn, Fljótsdalslína svokölluð, yfir hálendið sem mikið hefur verið rætt um. Einnig hefur mikið verið talað um byggingu fjallaskála á hálendinu og er áætlað að nú séu um 400 skálar á víð og dreif um hálendið. Það eru ýmiss konar skálar svo sem gangnamannakofar, slysavarnaskýli, Ferðafélagsskýli og Ferðafélagsskálar og fleira og er áætlað að í kringum 100 skálar af þessum 400 séu í einkaeign. Er það mat manna að þeir séu vægast sagt í mjög misjöfnu ástandi margir hverjir. Undanfarin ár hefur ásókn í að byggja skála á hálendinu aukist mjög mikið og margir af þeim skálum sem byggðir hafa verið undanfarið eru byggðir í óleyfi.
    Þegar farið er yfir byggingarlögin og lögin um skipulag virðist vera ákveðin gloppa í lögunum að því er varðar hálendið og kannski fyrst og fremst vegna þess að það er erfitt að átta sig á lögsögunni, hver hafi lögsögu á hálendinu. Einnig er oft vafi á eignarrétti og langar mig í því sambandi til að lesa hér upp það sem Ragnar Kristjánsson, sérfræðingur Náttúruverndarráðs í skipulags- og mannvirkjagerð, segir í Morgunblaðinu í nóvember sl. en þá er hann að tala um eignarréttarákvæði. Þar segir hann, með leyfi forseta:
    ,,Ég veit til þess að maður sem fór með skála inn á hálendið gerði athugasemd vegna annars skála sem reistur var í nágrenninu og honum þótti vera of nærri. Óskaði hann eftir að framkvæmdir yrðu stöðvaðar. Hvorugur skálanna hafði fengið tilskilin leyfi. En hann vildi vera einn og taldi sig vera í fullum rétti þar sem hann kom fyrstur á staðinn.`` Þetta minnir á bandarísku frumbyggjana sem töldu að þeir gætu eignað sér land þar sem þeir komu. Þetta er auðvitað óviðunandi og þarf að taka á þessum málum.
    Í október 1990 skipaði þáv. umhvrh. nefnd sem í áttu sæti margir fulltrúar, m.a. fulltrúi Kvennalistans, Bryndís Brandsdóttir og segir frá störfum þeirrar nefndar í skýrslu sem lögð var fyrir 113. löggjafarþing, 388. mál og ætla ég ekki að fara nánar í það. Í þessu sama blaði, Morgunblaðinu, segir Stefán Thors að hann eigi sæti í hálendisnefnd sem sé að undirbúa frv. Þess vegna hef ég borið fram þá fsp. á þskj. 553 um undirbúning á frv. til laga um tilhögun stjórnsýslu á hálendinu.