Skipulag á hálendi Íslands

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 11:28:00 (4783)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Hv. 15. þm. Reykv. Kristín Einarsdóttir hefur borið fram fsp. til mín um hvað líði undirbúningi laga um skipulags- og byggingarmál á hálendinu. Það er rétt sem hún sagði í rökstuðningi sinnar fsp. að í þessum málum ríkir hálfgert skipulagsleysi, algert skipulagsleysi mætti kannski segja, sem stafar auðvitað sumpart af því að kveðið er á um það í lögum að byggðin í landinu skiptist í sveitarfélög en það er ekki talað um óbyggðirnar. Það er ekki tilviljun að þannig er til orða tekið. Sums staðar háttar auðvitað þannig til að eignarréttur á landi er ekki alveg skýr. Engin ákvæði eru í gildi um jöklana þar sem menn eru nú farnir að byggja eða a.m.k. alveg við jökulrönd. Á þessum málum þarf því að taka svo hægt sé að hafa skipulag á þessum málum og það er enginn ágreiningur um það.

    Sl. þriðjudag lagði ég fram í ríkisstjórninni frv. til laga um skipulags- og byggingarmál á miðhálendi Íslands. Það er samið af nefnd sem skipuð var síðasta sumar. Vinnan hefur tekið nokkru lengri tíma en ætlað var m.a. vegna þess að ýmis álitamál voru um hvernig eftirliti með skipulagi og byggingarframkvæmdum á hálendinu ætti að vera háttað. Ég tel að á því hafi nú fundist lausn. Málið var lagt fram í ríkisstjórn sl. þriðjudag. Það er til meðferðar í þingflokkum stjórnarflokkanna og verður væntanlega lagt fram hér á hinu háa Alþingi strax eftir helgina, vonir mínar standa til þess. Ég ætla ekki á þessu stigi að rekja efnisatriði málsins en segi þó það eitt að þetta frv. hreyfir ekki í neinu eða hróflar við hefðbundnum nýtingarrétti á hálendinu og þar er ekki tekin afstaða til eignarréttarmála. Það fjallar eingöngu um skipulags- og byggingarmál og afmörkun hálendisins í því augnamiði.