Héraðsskólinn í Reykjanesi

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 11:39:00 (4787)

     Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Tilefni fsp. er orðið landskunnugt, þ.e. lokun Héraðsskólans í Reykjanesi. Ég hef nokkuð gengið eftir því í vetur á þingi að fá fram lagalegan grundvöll þessarar ákvörðunar en fátt hefur orðið um svör. Ég spurði t.d. sérstaklega um þetta í umræðu utan dagskrár um skólamál 24. okt. og þeim varð svarafátt sem spurningunum var beint til. Ég hef því ákveðið, til að reyna að komast til botns í málinu, að bera fram eftirfarandi fsp. til hæstv. fjmrh.:
    ,,1. Hvenær ákvað fjármálaráðherra að beita heimild 6.11 í 6. gr. fjárlaga fyrir árið 1991 og leggja niður starfsemi Héraðsskólans í Reykjanesi síðastliðið haust?`` --- Þar vísa ég til þeirrar heimildar sem í fjárlögum er veitt árlega til þess að draga úr starfsemi ríkisstofnana eða leggja þær niður tímabundið.
    ,,2. Var leitað samþykkis ríkisstjórnarinnar og fjárveitinganefndar (fjárlaganefndar) fyrir þeirri ákvörðun og ef svo er hvenær lá fyrir samþykki þeirra?``
    Svör við þessum tveimur fyrstu spurningum ættu að leiða í ljós hvort ákvörðun byggist á þessu ákvæði fjárlaga.
    ,,3. Telur fjármálaráðherra að ráðherrar, hver fyrir sig, aðrir en fjármálaráðherra, hafi á árinu 1991 haft heimild til þess að leggja niður tímabundið eða til lengri tíma starfsemi stofnana sem heyra undir ráðuneyti þeirra?``
    Þessi spurning er að gefnu tilefni. Ég minni á það að hv. 1. þm. Vestf. hefur sett fram þá skoðun mjög afdráttarlaust að fjárlög séu ákvörðun um tiltekna starfsemi. Varðandi þetta mál hélt sá hv. þm., sem jafnframt er sá þingmaður sem lengst hefur hér setið, því fram að það væri óheimilt að víkja frá fjárlögum í þessu skyni nema með nýrri samþykkt Alþingis.
    Í fjórða lagi spyr ég hæstv. ráðherra í tilefni að því að hæstv. menntmrh. hefur sett á fót nefnd til þess að athuga framtíð skólahalds á staðnum sem ætlað er að ljúki störfum í maí nk. Ef við gerum ráð fyrir því að tillaga þeirrar nefndar verði sú að þarna verði áfram skólastarf þá er rétt að fram komi álit hæstv. fjmrh. á því hvort hann telji, samkvæmt fjárlögum núgildandi árs, heimilt að hefja á ný starfsemi Héraðsskólans í Reykjanesi á þessu ári.