Héraðsskólinn í Reykjanesi

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 11:43:00 (4788)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Sem svör við fsp. hv. fyrirspyrjanda vil ég segja þetta:
    Í fyrsta lagi er spurt hvenær fjmrh. hafi ákveðið að beita heimild nr. 6.11 í 6. gr. fjárlaga fyrir 1991. Sú heimild hljóðar þannig, með leyfi forseta:
    ,,Að fella niður eða fresta greiðslum úr ríkissjóði á árinu 1991, m.a. með því að leggja niður tímabundið eða til lengri tíma starfsemi ríkisstofnana að fengnu samþykki ríkisstjórnar og fjárveitinganefndar.``
    Svar við þessari fsp. er að fjmrh., hvorki núv. né sá sem starfaði á fyrsta hluta síðasta árs, tók ákvörðun um að nýta umrædda heimild til lokunar skólans. Það var hæstv. menntmrh. sem ákvað að hefja ekki skólahald vegna þess að ekki var nægjanlegur nemendafjöldi að hans mati og menntmrn. til að reka skólann.
    Í öðru lagi er spurt: ,,Var leitað samþykkis ríkisstjórnarinnar og fjárveitinganefndar (fjárlaganefndar) fyrir þeirri ákvörðun og ef svo er hvenær lá fyrir samþykki þeirra?``
    Svarið er að ákvörðun menntmrh. var kynnt í ríkisstjórn og fór fyrir Alþingi í formi fjárlagafrv. sem samþykkt var sem fjárlög ársins 1992, skömmu fyrir síðustu jól.
    Í þriðja lagi er spurt hvort fjmrh. telji að ráðherrar, hver fyrir sig aðrir en fjmrh., hafi á árinu 1991 haft heimild til þess að leggja niður tímabundið eða til lengri tíma starfsemi stofnana sem heyra undir ráðuneyti þeirra.
    Svar mitt er að ég tel að svo geti verið ef ekki eru rekstrarlegar forsendur fyrir hendi eins og í tilviki sem þessu. Sé hins vegar um að ræða endanlega ákvörðun um notkun heimildarákvæða í 6. gr. fjárlaga verður hún ekki tekin af öðrum en til þess fá heimild, þ.e. annaðhvort af ríkisstjórn eða af fjmrh.
    Í fjórða og síðasta lagi er spurt um það hvort fjmrh. telji heimilt að hefja á ný starfsemi Héraðsskólans í Reykjanesi á þessu ári.
    Svar mitt er að slíkt sé a.m.k. illmögulegt nema til verkefnisins verði veitt sérstök fjárveiting. Fjárveiting í fjárlögum 1992 er 3,8 millj. kr. og hún nægir vart til að hefja skólahald að nýju.