Héraðsskólinn í Reykjanesi

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 11:46:00 (4789)

     Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Þá liggja fyrir svör hæstv. fjmrh. og niðurstaðan er sú að hér hafi verið um að ræða ákvörðun hæstv. menntmrh. Það má deila um þær forsendur sem lágu fyrir ákvörðun ráðherrans, það höfum við gert og getum e.t.v. tekið upp síðar varðandi þessar svokallaðar rekstrarlegu forsendur og nemendafæð. En ég vil segja að hér er um að ræða skóla sem er ekki einvörðungu á hendi ríkisins heldur er hann sjálfseignarstofnun í eigu Ísafjarðarkaupstaðar og sveitarfélaga inni í Ísafjarðardjúpi. Ég tel því að menn geti ekki einhliða tekið þessa ákvörðun eins og gert var.
    Ég vil einnig vegna svars hæstv. fjmrh. við 4. tölul. minna á að ég spurði hæstv. fjmrh. einmitt sömu spurningar í 1. umr. um fjárlagafrv. 22. okt. Þá hljóðaði svarið dálítið öðruvísi en nú. Nú hljóðar svarið þannig: Það er ekki hægt nema það sé fjárveiting í fjárlögum og hún er bara 3,8 millj. kr. Þá hljóðaði svarið: ,,Ef nógu margir nemendur verða í skólanum haustið 1992 þá er ég viss um að fjármagn fæst.`` Hér er um greinilega áherslubreytingu að ræða af hálfu hæstv. fjmrh. Ég vil líka minna á það að þegar hæstv. menntmrh. kynnti ákvörðun sína þá var hún ekki um að leggja niður þennan skóla. Það var ákvörðun um að ekki yrði kennt skólaveturinn 1991--1992. Hins vegar kemur fram í fjárlagafrv., sem lagt var hér fram, og stendur þar skýrum stöfum að tekin hafi verið ákvörðun um að starfsemi skólans verði hætt. Hér hafa menn því talað mjög misvísandi í þessu máli, bæði hæstv. fjmrh. og hæstv. menntmrh., og það er ástæða til að hafa áhyggjur af því að menn hafi ekki veitt heimamönnum sömu svör og þeir hafa veitt hér í sölum Alþingis.