Héraðsskólinn í Reykjanesi

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 11:53:00 (4792)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þau orðaskipti sem átt hafa sér stað út af margnefndu efni gefa manni tilefni til að hugsa um það hvernig ákvæði 6. gr. eru notuð. Mörg ákvæði í 6. gr. fjárlaganna eru svo losaraleg að það liggur við að þau séu merkingarlaus. Það gefur einnig tilefni til að skoða hvaða gildi fjárlög yfirleitt hafa. Samkvæmt 6. gr. heimildum geta ráðherrar tekið sér leyfi til þess að gera bæði samninga, rifta ýmsu sem ákveðið er í fjárlögum og fleira sem hægt væri að telja upp. Oft er þetta háð því að leitað sé eftir samþykki eða samráði við fjárln. en í mörgum tilfellum er það svo ekki gert. Það leiðir aftur hugann að því að þegar sú stjórnarskrá sem við vinnum eftir var sett saman voru fjárlög ekki til. Í framhaldi af því væri hægt að velta ýmsu fyrir sér. Ég tel að það 6. gr. ákvæði sem notað er hér og oft er notað í líkum tilvikum sé mjög vafasamt.