Réttindi heimavinnandi fólks

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 11:56:00 (4794)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst taka það fram að málefni heimavinnandi fólks heyrir ekki undir félmrn. Ráðuneytið hafði þó frumkvæði að því 1989 að gera úttekt á réttarstöðu og réttindamálum heimavinnandi fólks samanborið við útivinnandi fólk. Í ljós kom, og er það í samræmi við kröfur Samtaka heimavinnandi fólks, að það væri fyrst og fremst á sviði skatta og tryggingamála sem á hallaði. Í ljósi þess hefði verið eðlilegra að fsp. væri beint til þeirra ráðherra sem fara með þau mál en ég tel vissulega ekki eftir mér að svara fyrirspyrjanda hvernig málið snýr við mér og hvað ráðuneytið hefur gert í málinu.
    Fyrir réttu einu ári svaraði ég fsp. frá Rannveigu Guðmundsdóttur um úrbætur á félagslegum réttindum heimavinnandi fólks. Þar kom m.a. fram að í framhaldi af skipun starfshóps á árinu 1989 sem í voru aðstoðarmenn félmrh., fjmrh. og heilbrrh. hefðu komið fram tillögur og ábendingar sem í framhaldi nefndarstarfsins var beint til viðkomandi fagráðherra til úrlausnar. Í fyrsta lagi var um málefni að ræða sem snerta lífeyrissjóðina. Í tillögunum var lagt til að fjmrh. legði fram á Alþingi þann hluta draga að frv. til laga um starfsemi lífeyrissjóða sem fjallar um skiptingu lífeyrisréttinda milli hjóna og var lagt til að það yrði lögfest sem fyrst. Lagt var til að því yrði bætt við frumvarpsdrögin að skipta beri lífeyrisréttindum hjóna í lok hvers árs.
    Varðandi almannatryggingar lagði nefndin til að heilbr.- og trmrh. beitti sér fyrir eftirfarandi tengslum við endurskoðun almannatryggingalaganna að lífeyrir hjóna og einstaklinga frá almannatryggingum yrði jafnaður þannig að hjón njóti sama réttar og tveir einstaklingar gagnvart lífeyri og að réttur heimavinnandi fólks til slysa- og sjúkradagpeninga yrði bættur.
    Varðandi skattakerfið var lagt til að fjmrh. léti kanna hvaða áhrif millifærsla ónýtts persónuafsláttar milli hjóna með börn undir 2--3 ára aldri eða jafnvel 7 ára yrði hann 100% og jafnframt að ónýttan persónuafslátt mætti færa að öllu leyti til maka ef það hjóna sem ekki nýtti sinn afslátt sannanlega annaðist sjúka eða aldraða á heimili sínu.
    Í fjórða lagi að ríkisvaldið beitti sér fyrir því að samtök á vinnumarkaði gefi lífaldri aukið vægi við starfsaldursmat. Bent var á þá leið að félmrh. yrði falið að skrifa aðilum vinnumarkaðarins áskorun þess efnis sem ég hef þegar gert og gerði strax eftir að þetta kom fram.
    Varðandi þau atriði sem ég hef nú nefnt er ég sammála því að þessu beri að stefna að. En ég ítreka að eðlilegra hefði verið að beina fsp. varðandi almannatryggingar og skattamál til viðkomandi fagráðherra.
    Hvað félmrn. varðar vil ég að lokum taka fram að ég hef skipað nefnd til þess að undirbúa alþjóðaár fjölskyldunnar 1994 sem Sameinuðu þjóðirnar eiga frumkvæði að. Nefndin hefur það að leiðarljósi að allar aðgerðir sem hún stendur fyrir á alþjóðaárinu skuli stuðla að því að fjölskyldunni takist betur að rækja hlutverk sitt. Ég vil taka það fram að fulltrúi Samtaka heimavinnandi fólks á sæti í nefndinni þannig að sjónarmið og tillögur heimavinnandi fólks verði tekin þar til meðferðar og athugunar. Innan nefndarinnar eru starfandi tveir vinnuhópar. Annar er að huga að lögum og reglugerðum sem varða fjölskylduna en hinn hópurinn er m.a. að fara yfir það hvernig staðið er að undirbúningi ungs fólks til þess að takast á við heimilishald og fjölskylduábyrgð. Nefndin hefur í hyggju að koma með tillögur til úrbóta til að stuðla að bættu heimilislífi og tryggja afkomumöguleika fjölskyldunnar. Barnafjölskyldum verði gefinn sérstakur gaumur og réttindi þeirra athuguð sérstaklega. Nauðsynlegt er að viðurkenna formlega vinnuframlag heimavinnandi fólks í þágu barna og annarra sem á umönnun þurfa að halda og geta búið heima. Markmið nefndarinnar er að afkomumöguleikar þessa hóps verði staðfestir í formi ráðstafana sem tryggja réttindi þeirra mun betur en nú er gert.