Réttindi heimavinnandi fólks

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 12:07:00 (4798)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það að málefni heimavinnandi fólks er mjög mikilvægt og nauðsynlegt, eins og einn ræðumaður orðaði það, að dusta rykið af því af og til í ræðustól vegna þess að hægt virðist miða að því að koma þessum málum í höfn. En vegna orða síðasta ræðumanns, þar sem hann beinir spjótum sínum að núv. heilbrrh. og fjmrh. að málið komist ekki í höfn, vek ég athygli á því að sú úttekt sem ég lét gera til þess að kortleggja þetta mál, sjá hvar misréttið væri og á hverju þyrfti að taka, lá fyrir árið 1989 þegar hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson var fjmrh. og Framsfl. fór með embætti heilbrrh. Þó þeir hefðu þessi embætti undir höndum í ein tvö ár eftir að úttektin lá fyrir og ákvörðun þyrfti að taka, komust málin ekki í höfn.