Textavarp

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 12:18:00 (4804)

     Fyrirspyrjandi (Jón Kristjánsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 543 hef ég borið fram eftirfarandi fsp. til menntmrh. um textavarp:
  ,,1. Hver er kostnaður Ríkisútvarpsins af textavarpi?     2. Hve margir notendur eiga kost á því að njóta textavarps?
    3. Hver eru áform um eflingu textavarps á næstunni?``
    Það mætti halda að fsp. væri til komin af því að ég sé sérstakur áhugamaður um eflingu textavarps en svo er ekki. Hún er til komin vegna spurningarinnar hvort hér sé um rétta forgangsröð að ræða í starfi Ríkisútvarpsins. Kveikjan að fsp. var í raun frétt um að það ætti að efla þessa starfsemi á næstunni og þá vaknaði sú spurning hve margir notendur njóta textavarps en til þess þarf sérstakan búnað. Við erum með ótrúlega mörg verkefni óunnin í þessari stofnun. Margir staðir hafa mjög ófullkomið dreifikerfi, bæði sveitabæir, einstakir þéttbýlisstaðir og við höfum ekki komið útvarpi eða sjónvarpi til sjómanna á hafi úti svo að vel sé.
    Nú kann vel að vera að þarna sé um einhverja smáaura að ræða miðað við þau verkefni sem liggja í öðrum verkefnum. Þó vaknar spurningin: Væru þessir peningar ekki betur komnir í annarri dagskrárgerð eða þá að efla dreifikerfið í landinu?