Textavarp

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 12:21:00 (4805)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Stofnkostnaður við textavarp var tækjabúnaður fyrir um 5 millj. kr. Annar kostnaður, þar með talin laun starfsmanna, var um 1,5 millj. kr. Kostnaður á síðasta ári var því samtals 6,5 millj. kr. Við textavarp starfa tveir starfsmenn og er heildarkostnaður á þessu ári áætlaður 5 millj. kr.
    Textavarp er sent út sem hluti sjónvarpsmerkisins og þarf því ekki að gera neinar breytingar á dreifikerfi Ríkisútvarpsins vegna úsendingar þess. Móttökutæki í heimahúsum þurfa hins vegar að vera með útbúnaði til að yfirfæra textavarpsmerkið í rétt letur sem hægt er að kalla fram eitt sér eða með sjónvarpsmyndinni. Allflest nýrri sjónvarpstækja með fjarstýringu eru með textabúnaði. Samkvæmt könnunum eru 17--20% tækja með þessum búnaði þannig að nú njóta um 15 þús. heimili textavarps.

    Þjónusta textavarps er nú fyrst og fremst fréttir, íþróttir, þjónusta við heyrnarskerta, dagskrá útvarps og sjónvarps, auglýsingar og dagbók en stefnt er að því að beintengja ýmsar þjónustustofnanir við textavarp þannig að upplýsingar, til að mynda um veður, flugsamgöngur vegi og færð, verði ávallt réttar og aðgengilegar. Einnig er í framtíðinni, þegar fjárhagur leyfir, stefnt að því að texta innlent efni þannig að heyrnarskertir og aðrir sem þess óska geti kallað fram íslenskan texta.
    Ég hef undir höndum lista yfir síður textavarpsins sem er sjálfsagt að láta fyrirspyrjanda í té ef hann óskar eftir því.