Norræna ráðherranefndin 1991--1992

111. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 13:57:00 (4816)

     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að fylgja úr hlaði með nokkrum orðum skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs fyrir tímabilið janúar 1991 til febrúar 1992 sem útbýtt hefur verið á þskj. 436. Þessi skýrsla er í nokkuð hefðbundnu formi, eins og þeir þekkja sem með þessum málum hafa fylgst á undanförnum árum og e.t.v. ekki sérstök ástæða til að fara mjög ítarlega í saumana á því efni sem þar er rakið. Hins vegar vildi ég koma að nokkrum atriðum sem sérstaklega er bent á í þessari skýrslu en mun síðan að öðru leyti víkja að ýmsu því sem nú er efst á baugi í hinu norræna samstarfi líkt og hæstv. umhvrh., ráðherra hinna norrænu málefna, gerði á undan mér.
    Ef ég vík þá fyrst að efni skýrslunnar, virðulegi forseti, þá urðu nokkrar mannabreytingar í Íslandsdeildinni á síðasta ári í kjölfar alþingiskosninga. Nokkrir þingmenn, sem þar höfðu unnið um árabil mikið og gott starf, hættu í deildinni á árinu og ég vil nota tækifærið og þakka þeim fyrir vel unnin störf. En kjörnir voru nýir þingmenn til starfa á sl. hausti, sem sumir höfðu þó verið tilnefndir nokkru áður.
    Það setti svip á starf Íslandsdeildarinnar á síðasta ári að nokkur röskun varð á þinginu sem haldið var í Kaupmannahöfn fyrir ári síðan á hefðbundinni skiptingu landsdeilda í trúnaðarstörf. Íslenska deildin fékk ekki lengur til ráðstöfunar eitt formannssæti, svo sem verið hafði um langt árabil, en það var fyrir tilverknað flokkahópanna svokölluðu að svo atvikaðist að Íslandsdeildin fékk ekki slíka formennsku. Þetta olli mikilli óánægju eins og margir muna, enda var það í fyrsta sinn frá því þetta samstarf hófst að enginn Íslendingur gegndi formennsku í einni af fastanefndum Norðurlandaráðs.
    Í deiglunni voru breytingar á Helsinki-sáttmálanum sem frestuðust af þessum sökum vegna eindreginnar andstöðu Íslandsdeildarinnar á meðan þetta mál væri óleyst. Það er skemmst frá því að segja að sættir náðust í þessu máli á síðasta sumri og breytingar voru gerðar á Helsinki-sáttmálanum og jafnframt á starfsreglum forsætisnefndar sem gera það að verkum að nú er ótvírætt að allar landsdeildir eiga rétt á formennsku í nefndum ráðsins. Þetta staðfestist á síðasta þingi með þeim hætti að einn af Íslandsdeildarmönnunum, Rannveig Guðmundsdóttir, hv. 11. þm. Reykn., var kjörinn formaður menningarmálanefndar ráðsins. Þar með var fyrri skipan komið á á nýjan leik þannig að Íslandsdeild gat vel við unað. Hins vegar er það svo að ekkert varaformannssæti féll í hlut Íslandsdeildarinnar að þessu sinni.
    Það sem kannski er vert að vekja sérstaka athygli á í þessu sambandi, virðulegi forseti, er sú þróun sem orðið hefur á vettvangi ráðsins og birtist í auknum áhrifum og auknum völdum svokallaðra flokkahópa á kostnað einstakra landsdeilda. Þess verður æ meira vart í starfinu í Norðurlandaráði að flokkahópar, þar sem saman koma þingmenn sem aðhyllast sömu eða svipaða pólitíska stefnu í löndunum öllum, sæki sér æ meira vald, en tillögur landsdeildanna vegi á hinn bóginn að sama skapi minna.
    Þetta mál, sem ég hef rakið, er gott dæmi um þessa þróun þó að tekist hafi að sporna við því með ákveðinni andstöðu á síðasta ári. Hins vegar eru fleiri dæmi um þetta sem komu fram á síðasta þingi. Þannig var t.d. tillögu Íslandsdeildarinnar um skipan fulltrúa í hinn Norræna menningarmálasjóð hafnað vegna þess að eigi þótti komið nægilega til móts við þarfir allra flokkahópanna með þeirri tillögu sem gerð var. Jafnframt var tillögu sænsku landsdeildarinnar um fulltrúa í forsætisnefnd hafnað og önnur tillaga gerð vegna þess að með sama hætti þótti ekki sem rétt jafnvægi væri milli flokkahópanna með þeirri tillögu sem sænska landsdeildin hafði gert. Henni var sem sagt hafnað og önnur tillaga varð ofan á.
    Ég vildi vekja athygli á þessu vegna þess að hér er á ferðinni þróun sem ekki allir í þessari stofnun hafa verið jafnánægðir með í gegnum árin. Ég tel hins vegar að það sé of seint að ætla að sporna gegn þessum áhrifum og Íslandsdeildin, eins og aðrir, verður að aðlaga sig að þessum aðstæðum og skipa sínum málum með þeim hætti að tekið sé tillit á báða bóga í þessu efni.
    Í þessari skýrslu, virðulegi forseti, eru rakin mörg málefni sem Íslandsdeild hefur beitt sér fyrir á síðasta ári og kannski ástæðulaust að rekja það nákvæmlega. Hins vegar vildi ég koma nokkuð að aukaþingi ráðsins sem haldið var í Mariehamn á Álandseyjum í nóvembermánuði sl., en frá því er sagt sérstaklega í skýrslunni. Þetta þing var helgað umræðum um norrænt samstarf eftir árið 1992, en eins og fram kom hjá hæstv. umhvrh. hafa umræður almennt á vettvangi ráðsins mjög snúist um hvað verði um norrænt samstarf í hinni nýju Evrópu, í hinni breyttu skipan sem blasir við okkur á vettvangi Evrópumálanna. Um þetta var rætt fram og aftur á aukaþinginu og sú umræða hélt áfram á nýafstöðnu þingi ráðsins í Helsingfors og fyrir því þingi lágu margs konar álitsgerðir og skýrslur sem um þetta mál hafa verið samdar. Ég nefni til að mynda þá skýrslu vinnuhóps forsætisráðherranna sem áðan var vikið að. Ég nefni álitsgerð frá samstarfsráðherrunum og sömuleiðis tillögur frá flokkahópunum sem þarna lágu frammi, a.m.k. þrjár talsins.
    Eins og fram kom í máli hæstv. umhvrh. er ætlunin að hópur forsætisráðherranna, sem um þessi mál fjallar, vinnuhópurinn, ljúki sínum störfum í sumar og leggi niðurstöður sínar fyrir þing ráðsins í Árósum í haust. Þar með verður væntanlega kominn tími til að gera það upp við sig með hvaða hætti menn vilja skipa þessum málum í framtíðinni, en þar kemur vissulega ýmislegt til greina þótt ég telji óhyggilegt að ætla að fjalla um skipulag þeirra mála fyrr en fyrir liggur nákvæmlega hvert efnisinnihaldið verður, rétt sé að átta sig á því hvert verður innihald samvinnunnar í framtíðinni áður en menn fara að skipuleggja í kringum það.
    Af hálfu Íslandsdeildarinnar var mikið fjallað um þessi mál, bæði á þinginu á Álandseyjum og sömuleiðis á Norðurlandaráðsþinginu fyrr í þessum mánuði og má kannski segja að þar séu menn ekki komnir að einhlítri niðurstöðu frekar en aðrir að því er þetta varðar. En ég fyrir mitt leyti tel afar mikilvægt að menn líti ekki á hina norrænu samvinnu sem einangraðan hlut í sjálfu sér, eitthvað sem hægt sé að stunda utan við það samstarf sem fram fer í Evrópu og algjörlega óháð því, heldur verði að líta á norrænt samstarf sem part af þróuninni í Evrópu, mjög mikilvægan þátt fyrir okkur sem hér búum en ekki einangrað fyrirbæri sem við eigum að taka úr öllu samhengi við það sem gerist í Evrópu.
    Það vill nefnilega þannig til að margt af því merkilegasta, sem fram hefur náðst í samstarfsmálum milli Norðurlandanna, hefur verið á evrópskum vettvangi þó svo að það hljómi mótsagnakennt. EFTA-samningurinn færði Norðurlöndunum innbyrðis frjálsa verslun með vörur. Það var mikilvægt skref í norrænni samvinnu og ég tel sömuleiðis að samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði sé mjög mikilvægur áfangi í innbyrðis samstarfi Norðurlandanna í efnahagsmálum og atvinnumálum. Það hefur nefnilega verið þannig að það hefur ekki lánast á vettvangi landanna fimm að ná samvinnu sem einhverju máli skiptir um efnahags-, viðskipta- eða atvinnumál. Það hefur hins vegar lánast á stærri vettvangi með fleiri þjóðum og um það er ekki nema gott eitt að segja. Það er ekkert athugavert við það, þvert á móti.
    Hins vegar hefur hið norræna samstarf skilað mjög miklum árangri á ýmsum öðrum sviðum og kannski ástæðulaust að rekja það í smáatriðum en vegabréfasamningurinn, samningurinn um félagsleg málefni og hinn sameiginlegi vinnumarkaður eru auðvitað til

dæmis um það hverju þessi samvinna hefur skilað þó að vissulega sé nokkuð um liðið frá því að þessir áfangar náðust.
    Ég tel að menn þurfi ekki að óttast að norrænt samstarf líði undir lok þó svo að samvinna milli ríkjanna í Evrópu færist í aukana. Auðvitað verður hvert norrænt ríki að velja sér þá braut í samstarfi við önnur lönd í álfunni sem því hentar best og við getum ekki sagt öðrum löndum fyrir verkum í því efni og við getum heldur ekki sætt okkur við að önnur ríki segi okkur fyrir verkum. En hið norræna samfélag er sem betur fer ekki einangraður þjóðflokkur heldur hluti af Evrópu og jafnvel þó að flest Norðurlöndin gangi inn í Evrópubandalagið, eins og margt bendir til, sé ég ekki ástæðu til að kvíða því fyrir okkar hönd. Ég tel að hin norræna samvinna standi á það traustum merg og hafi skilað þjóðunum það miklu að það verði ekki upp á teningnum hjá neinu ríkjanna að kasta þeirri samvinnu fyrir róða. Allir sjá það í hendi sér að samvinna sem þessi, sem byggð er á sameiginlegum menningararfi, svipuðum tungumálum, sameiginlegri tungumálaarfleifð, sögu og fleiru í þeim dúr, mun auðvitað halda áfram. Verkefnin verða margvísleg eftir sem áður og nýir málaflokkar koma til skjalanna, umhverfismál, félagsleg málefni af ýmsu tagi en kannski ekki síst utanríkis- og varnarmál því vegna breytinganna sem orðið hafa í Austur-Evrópu hefur nú opnast möguleiki sem ekki var áður fyrir hendi um stóraukið samstarf og samráð á þeim vettvangi. Ég hygg að að því marki sem samstarf á vettvangi efnahags- eða atvinnumála fer minnkandi þá muni utanríkispólitísk samvinna að sama skapi geta farið vaxandi þar sem menn ráða ráðum sínum um hin stærstu mál og reyna jafnframt að samræma stefnu sína gagnvart umheiminum.
    Á þessum vettvangi kemur kannski ekki síst til álita afstaðan gagnvart baltnesku löndunum og nágrannaríkjum Norðurlandanna í austri og sú aðstoð sem verður að veita þessum þjóðum, jafnframt sameiginleg afstaða landanna í stærra samhengi til að mynda á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
    Ég vil láta það koma fram vegna ummæla hæstv. ráðherra um fyrirhugað átak í fjárfestingarmálum í baltnesku löndunum að ég fyrir mitt leyti varð fyrir nokkrum vonbrigðum með að ekki skyldi nást samkomulag um að stofna sérstakan baltneskan fjárfestingarbanka að frumkvæði Norðurlandanna. Sú hugmynd var nokkuð langt á veg komin og Norræni fjárfestingarbankinn var búinn að undirbúa ýmis gögn í því sambandi. Ég tel að það hefði að mörgu leyti verið farsælla að stíga það skref til fulls og koma á laggirnar slíkri stofnun í samvinnu baltnesku ríkjanna við Norðurlandaráð og Norræna fjárfestingarbankann en þeirri leið var hins var hafnað af ráðherranefndinni sem taldi eðlilegra að fara þá leið, sem síðan varð ofan á, með sérstöku fjárfestingarprógrammi, sem kallað er, upp á einar 150 millj. ECU og reyna jafnframt að ná samstarfi við hinn Evrópska fjárfestingarbanka í London um þátttöku í þessu efni.
    Mér er kunnugt um að í baltnesku löndunum hafa ýmsir orðið fyrir vonbrigðum með þessa þróun og telja að ekki sé nógu stórt skref stigið. Það má að vísu alltaf segja sem svo að það sé unnt að bæta við þessar upphæðir þegar fram í sækir og þegar reynsla er komin á þetta og vissulega er það svo. En miðað við það sem búið var að gefa í skyn og þann áhuga sem norrænir ráðamenn hafa haft á þróun mála í baltnesku löndunum þá verð ég að segja að þetta olli mér nokkrum vonbrigðum.
    Virðulegi forseti. Í þessari skýrslu, sem er dagskrármálið, eru raktar umræður af aukaþinginu á Álandseyjum og sömuleiðis á þingi Norðurlandaráðs í fyrra sem haldið var fyrir ári. Ekki er ástæða til að fara ofan í saumana á þeim umræðum hér, en það varð niðurstaða okkar í Íslandsdeildinni að rétt væri að fresta þessari umræðu fram yfir það þing sem nú er nýlokið til að menn gætu skipst á skoðunum um það sem nýjast væri tíðinda af þessum vettvangi en einangruðu sig ekki við það sem gerst hefði á síðasta ári. Enda er það svo að það sem mest er spennandi á hinum norræna vettvangi um þessar mundir er að mínum dómi einmitt spurningin um framtíðarþróun samstarfsins. Og þótt það sé ánægjulegt að fylgjast með því hvað gerst hefur og hvað gerðist á síðasta ári þá held ég að allra augu beinist nú fram á við. Þar er auðvitað ræða sú sem hæstv. umhvrh. flutti verulegt innlegg í umræðuna hér heima og sú greinargerð sem hann flutti um starf vinnuhóps forsætisráðherranna og annarra sem að þessum málum hafa hugað upp á síðkastið.
    Ég hef orðið var við að ýmsir kvíða því að samstarf hinna norrænu þjóða muni ekki eiga sér neinn tilverugrundvöll eftir að hluti Norðurlandaríkjanna gengur í Evrópubandalagið. Eins og ég sagði áðan tel ég það mikinn misskilning. Samstarfið hefur í sjálfu sér mikið gildi og býr yfir miklum innri krafti eins og allir þekkja. Engin ástæða er til að óttast um örlög þess þó einhverjar breytingar verði á skipan ríkja innan Evrópubandalagsins. A.m.k. hygg ég ekki að við Íslendingar ætlum að sætta okkur við að samstarfið verði einhver hornreka þó önnur Norðurlönd gangi í Evrópubandalagið. Við höfum ekki hugsað okkur að ganga þá braut. En við ætlumst til þess að samstarf hinna norrænu ríkja, sem formbundið er í milliríkjasamningnum sem kenndur er við Helsingfors, haldi áfram í ljósi breyttra aðstæðna og við verðum að taka þátt í að hafa áhrif á með hvaða hætti þetta samstarf þróast. Eins og fram kom í skýrslu umhvrh. þurfum við ekki á neinn hátt að skammast okkar fyrir framlag Íslands í þeim efnum.
    Virðulegur forseti. Ég lýk hér með máli mínu og fagna því að þetta mál er loks komið á dagskrá. Ég vænti þess að í umræðunni nú og í framhaldi af henni komi sjónarmið manna fram um þetta efni þannig að við sem störfum í Íslandsdeildinni getum haldið áfram að þróa og þroska afstöðu þá sem við hljótum að þurfa að taka þegar málin skýrast í sumar og haust.