Norræna ráðherranefndin 1991--1992

111. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 14:17:00 (4817)

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Í fjarveru formanns og varaformanns Vestnorræna þingmannaráðsins mæli ég fyrir skýrslu Íslandsdeildarinnar. Í henni kemur fram að störf Íslandsdeildar Vestnorræna þingmannaráðsins á sl. ári mörkuðust nokkuð af undirbúningi Vestnorræna ársins 1992.
    Á fundi Vestnorræna þingmannaráðsins í Stykkishólmi 1989 var ákveðið að árið 1992 yrði sérstakt vestnorrænt ár. Í því tilefni var ákveðið á sama þingi að haldnar skyldu á þessu ári þrjár ráðstefnur, ein í hverju landi; um umhverfismál á Grænlandi, um æskulýðsmál í Færeyjum og um jafnréttismál á Íslandi. Félmrn. hefur undirbúning ráðstefnunnar með höndum hér á landi og hafði þingmannaráðið samband við starfsmann og formann nefndarinnar. Einnig var ákveðið að afla upplýsinga og fá yfirlit yfir helstu þætti vestnorrænnar samvinnu. Íslandsdeildin hefur í því skyni fjallað um starfsemi vestnorrænu nefndarinnar, Vestnorræna sjóðsins og vestnorrænu ferðamálanefndarinnar og kynnt sér samgöngur á vestnorræna svæðinu. Til að kynna þetta ákvað Íslandsdeildin að láta gera bækling sem nú er nýkominn út og kynnir bæði þessa vestnorrænu starfsemi eða samstarf og ráðstefnurnar þrjár.
    Í september verður vestnorrænt æskulýðsþing í Færeyjum með þátttöku 30 fulltrúa æskulýðssambanda og stjórnmálasamtaka í Færeyjum, á Grænlandi og á Íslandi.
    Vestnorrænt umhverfisþing verður í Qaqortoq 6.--11. ágúst nk. með þátttöku 60--70 stjórnmálamanna, sjómanna og vísindamanna.
    Á Egilsstöðum verður loks haldið vestnorrænt kvennaþing 20.--23. ágúst nk. og verða atvinnumál kvenna höfuðviðfangsefni hennar. Áætluð er þátttaka 150 íslenskra kvenna, 100 færeyskra og 50 grænlenskra kvenna.
    Þetta er allt kynnt í bæklingi sem gefinn er út á íslensku. Jafnframt hefur bæði Grænlendingum og Færeyingum verið boðið að nýta sér þá undirbúningsvinnu sem hér hefur farið fram til að gefa út sambærilegt kynningarplagg í löndum þeirra og á þeirra máli. Grænlendingar hafa þegar svarað því jákvætt og hafa áhuga á því.
    Að öðru leyti hefur Íslandsdeildin fjallað um samgöngumál sem eru að sjálfsögðu undirstaðan á samskiptum milli þessara landa og rætt við þá aðila sem halda uppi samgöngum á þessu svæði og beðið þá að athuga hvernig hægt væri að koma á greiðari samgöngum. En við höfum rekið okkur á ýmsa annmarka á ferðalögum milli þessara landa.
    Einnig fengum við Eið Guðnason, samstarfsráðherra Norðurlanda, á fund okkar þar sem okkur er ljóst að mjög mikilvægt er að tengja saman starfsemi ráðherranefndarinnar og framkvæmdarvaldsins við starf Vestnorræna þingmannaráðsins. Vegna þess sem fram

kom í ræðu hæstv. samstarfsráðherra áðan sýnist mér að það hljóti að koma til greina að við reynum að nota samstarf þingmannaráðsins meira til að tengja þetta samstarf og viðkomandi ráðherra í norrænu ráðherranefndinni saman, ef annmarki er á að koma slíku í gegn hjá ráðherranefndum allra landanna. Það hlýtur að vera ábyrgð sem hvílir á okkur Íslendingum að hafa frumkvæði og framtak vegna þess að við eigum að hafa til þess besta burði og liggjum líka mitt á milli hinna landanna.
    Íslandsdeildin hefur mjög góða reynslu af að nota skrifstofu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs á Alþingi til að vinna að þessum málum og vil ég nota þetta tækifæri til að þakka starfsmönnum skrifstofunnar gott starf. Ég vænti þess að Íslandsdeildin haldi áfram að efla samstarf við samstarfsráðherrann til þess að geta beint starfinu inn á þennan vettvang.
    Að lokum vil ég geta þess að sjöundi ársfundur Vestnorræna þingmannaráðsins var haldinn 7. ágúst 1991 í Qaqortoq á Grænlandi. Hann sóttu fimm íslenskir þingmenn en alls sóttu hann 16 vestnorrænir þingmenn. Á fundinum voru gerðar ályktanir og samþykktir sem Íslandsdeildin hefur þegar lagt fram á sérstöku þingskjali til staðfestingar á Alþingi. Það er næsta mál á dagskrá þessa fundar og mun ég ekki fjalla um það frekar en undirstrika að þær samþykktir fjalla allar um að efla tengsl þessara landa og sambandið við framkvæmdarvaldið til þess að þar verði um annað og meira en dauðan bókstaf að ræða, heldur fylgi í kjölfarið aukið samstarf milli allra þessara landa.
    Ég vil undirstrika það sem hæstv. umhvrh. sagði að þó hagsmunir þessara landa virðist rekast á í bili er áreiðanlegt að um sameiginlega hagsmuni er að ræða ef til lengri tíma er litið og brýnt að þjóðirnar sameini krafta sína og vinni að framgangi hagsmunamála sinna.