Norræna ráðherranefndin 1991--1992

111. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 14:27:00 (4818)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég vil þakka ágætar skýrslur og snjallar framsöguræður sem fluttar hafa verið með þeim um dagskrármálin. Ég hef nú komið nokkuð að norrænum málefnum á undanförnum áratug og verð að játa að ég er ekki eins bjartsýnn á suma þætti norræns samstarfs nú og þeir sem talað hafa á undan mér.
    Ég tel að norrænt samstarf sé statt á vegamótum. Á undanförnum áratugum hefur það verið einn helsti hornsteinn íslenskrar utanríkisstefnu og tvímælalaust það samstarf við aðrar þjóðir sem hefur verið Íslendingum hagfelldast. Norðurlandasamstarfið hefur mótað löggjöf allar Norðurlanda, stuðlað að bættum samgöngum og hvers konar samskiptum og samvinnu um ýmsa þætti efnahagsmála öllum til hagsbóta og stuðlað að félagslegum umbótum þannig að nú eru Norðurlönd sá partur heimsins sem býr börnum sýnum einna best skilyrði til þroska og félagslegs öryggis. Umhverfisvernd stendur framar en víðast annars staðar í heiminum og almenn velferð þjóðanna. Á sviði menningar og mennta hefur samstarf verið þjóðunum ómetanlegt. Enda eru þær flestar skyldar að tungu og menningu og eiga meira og minna samþætta sögu. Þá er líka að geta þeirra góðu kynna sem tekist hafa með stjórnmálamönnum þjóðanna í gegnum þetta samstarf. Þann þátt má alls ekki vanmeta. Þó erfitt sé að benda á árangur eru kynni og gagnkvæmur skilningur stjórnmálamanna hinna ýmsu þjóða ákaflega mikilvægur. Ég held að þetta hafi orðið okkur Íslendingum ómetanlegt við uppbyggingu og þróun þjóðfélags okkar.
    Kostnaður af þessu samstarfi hefur verið þannig að honum hefur verið skipt milli þjóðanna í hlutfalli við þjóðartekjur og Íslendingar yfirleitt borið í kringum 1% af honum. Þegar útgjöldum úr sameiginlegum sjóðum hefur verið skipt á milli þjóðanna hafa þau hins vegar verið ákvörðuð þannig að Íslendingar hafa iðulega borið allt að því fimmtung úr býtum.
    Á síðustu árum hefur þetta samstarf þó tekið talsverðum breytingum. Flokkahóparnir hafa fyrst og fremst fengið stóraukið vægi. Sósíaldemókratar riðu á vaðið og síðan hafa aðrir flokkahópar myndast. Þetta mikla vægi sem flokkahóparnir eru búnir að ná innan Norðurlandaráðs hefur að mínu mati verið Íslendingum óhagstætt, meira að segja mjög óhagstætt. Hagsmunum okkar var miklu betur borgið með samstæðri íslenskri sendinefnd

áður en hún sundraðist milli hinna einstöku flokkahópa. Allt fram til síðasta þings hefur íslenska sendinefndin haft tækifæri til að ráða því hvaða Íslendingar gegndu trúnaðarstörfum og allir íslensku fulltrúarnir hafa talið það skyldu sína að fylgja fram ákvörðunum sendinefndarinnar. Á þessu hefur því miður orðið breyting þar. Á síðasta Norðurlandaráðsþingi var þeim fulltrúa sem sendinefndin valdi til setu fyrir Íslands hönd í Norræna menningarmálasjóðnum ýtt þaðan, því miður, fyrir atbeina og samþykki eins íslensks fulltrúa í vinnunefnd, þ.e. hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, sem beitti með því yfirþjóðlegu valdi og brást íslensku sendinefndinni að mínum dómi og leitaði á náðir flokkahóps þess sem hann tilheyrir.
    Norrænu ríkin hafa ekki öll farið sömu götu í varnarmálum eða ýmsum öðrum málum. Danir hafa um tvo áratugi verið þátttakendur í Evrópubandalaginu. Þeir hafa sífellt verið að senda út neyðarkall eða hvatningaróp til Norðurlandanna og reynt mjög að gylla fyrir þeim kosti þess að ganga í Evrópubandalagið. Skoðun mín er sú að með því hafi þeir vonast eftir að með aðild annarra Norðurlanda að Evrópubandalaginu fengju norræn sjónarmið aukið vægi þar. Satt að segja hafa sjónarmið Dana ekki notið neins sérstaks byrs í Evrópusamstarfinu og hugmyndir þeirra um þjóðfélagsgerð og skipan mála hafa ekki verið neitt sérstaklega hátt skrifaðar í því samstarfi. En svo er komið sögu að Svíar og Finnar hafa sótt um aðild að Evrópubandalaginu. Í Noregi eru skiptar skoðanir um hvort sækja beri um aðild. Flest bendir til þess að hugur stjórnvalda í Noregi og reyndar sumra stjórnarandstöðuflokka standi til aðildar og hvað sem mönnum þykir vænt um norrænt samstarf hlýtur það óhjákvæmilega að verða til þess, ef af aðild þessara þjóða verður, að Evrópubandalaginu, að miklar breytingar verði á norrænu samstarfi. Ekki þarf nema að hlusta á ummæli flestra forustumanna þessara frændþjóða okkar á síðasta þingi Norðurlandaráðs til þess að sjá að hið gróna samstarf Norðurlandanna stendur frammi fyrir miklum breytingum. Hugur margra þessara stjórnmálamanna er allur orðinn í Brussel og mín skoðun er sú að í stórauknum mæli færist samstarf Norðurlandaþjóðanna inn í Evrópubandalagið. Þegar aðild annarra Norðurlanda en Íslands að Evrópubandalaginu væri komið til framkvæmda yrðu þau að sjálfsögðu að hafa hliðsjón af reglum og starfsháttum Evrópubandalagsins í mörgum málaflokkum. Ég nefni löggjöf, samgöngur, félagsleg réttindi og umhverfismál. Allt þetta mun markast af aðild þeirra að Evrópubandalaginu. Eftir stæði þá t.d. menningarmálasamstarfið og síðast en ekki síðast hið frjálsa áhugamannastarf sem ég tel að sé verulegur áhugi fyrir innan allra þjóðanna að halda áfram og að því ber okkur náttúrlega að stuðla eftir því sem við getum. Það yrðu nokkrar breytingar á valdahlutföllum innan Evrópubandalagsins þegar aðild þessara fjögurra Norðurlanda væri orðin að staðreynd og kannski fyrst og fremst þannig að áhrif norðurvængsins ykjust, kannski fyrst og fremst Þjóðverja, en að sama skapi mundi væntanlega draga úr vægi Frakka og Suður-Evrópubúa miðað við það sem nú er.
    Nú skulum við gera ráð fyrir að Ísland standi um fyrirsjáanlega framtíð a.m.k. utan Evrópubandalagsins og yrði þátttaka í þessu samstarfi þegar af þeirri ástæðu okkur miklu torveldari. Það yrði að vísu talsvert mikið áfall fyrir Íslendinga en kannski ekki óbærilegt. Ég vil vara við því að menn mikli fyrir sér þau vandkvæði sem stöfuðu af því að Ísland yrði, eins og menn segja, utanveltu í þessu samstarfi. Að mínum dómi er ekki tiltækilegt fyrir Ísland að gerast aðili að Evrópubandalaginu um fyrirsjáanlega framtíð og heldur engin vitglóra að kosta því til til að verða ekki viðskila við aðrar Norðurlandaþjóðir. Ef þær kjósa að flytja verulegan hluta eða mestan hluta af hinu raunverulega samstarfi sínu á vettvang Evrópubandalagsins þá getum við náttúrlega ekkert við því gert. Ég tel að við höfum þó ýmsa möguleika jafnvel þó að það samstarf trosnaði.
    Fram undir þetta hafa marktækir stjórnmálamenn á Íslandi ekki talið að aðild að Evrópubandalaginu kæmi til greina nema þá svona í mesta lagi í hálfyrðum. Fyrstu merkin um breytingu á þeirri afstöðu komu fram hjá aldamótanefnd Sjálfstfl. sem starfaði undir forustu þáv. borgarstjóra Davíðs Oddssonar sem nú er hæstv. forsrh. Í kosningastefnuskrá Alþfl. fyrir síðustu kosningar var því miður orðalag sem ekki var hægt að skilja öðruvísi en Alþfl. væri að gera gælur við aðild að Evrópubandalaginu í framtíðinni. Afstaða okkar framsóknarmanna til þessa máls er skýr og við teljum aðild ekki koma til greina. Með henni væri fórnað efnahagslegri afkomu þjóðarinnr með aðgangi Evrópubandalagsins að auðlindum okkar og með auðlindum á ég ekki bara við fiskimiðin heldur líka orkulindir og landið sem slíkt. Ég vil líka minna á hið stjórnarfarslega sjálfstæði sem er náttúrlega miklu dýrmætara en svo að því sé fórnandi eða nokkurt vit að gera nokkuð það sem stofnar því í hættu.
    Við framsóknarmenn létum það koma skýrt fram í síðustu kosningabaráttu að við teldum að afstaðan til Evrópumála mundi ráðast á þessu kjörtímabili og eins og þróunin hefur verið undanfarið tel ég að við höfum haft rétt fyrir okkur í því efni. Það eru farnar að heyrast raddir undanfarna daga sem lýsa sterkum áhuga á aðild. Ég minni á ummæli Þórarins V. Þórarinssonar, framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambands Íslands. Hann hefur sett fram hugmynd um aðildarumsókn fyrir Ísland sem ég tel mjög furðulega og raunar hættulega. Innan Háskólans hafa öfl verið að verki og menn sem eru að reyna að draga lokur frá hurðum, m.a. undir yfirskyni fræðimennsku og gera lítið úr þeirri hættu að við afsöluðum okkur yfirráðum yfir fiskimiðum okkar. Þetta eru náttúrlega skammsýn og villandi sjónarmið.
    Síðast en ekki síst gerðist það í gær að hv. 3. þm. Reykv. Björn Bjarnason, sem er því miður ekki í salnum núna, skrifaði grein í Morgunblaðið sem hét ,,Finnar á hraðferð inn í Evrópubandalagið.`` Ég vil vekja athygli hv. þm. á þessari grein. Hún lýsir aðdáun á vinnubrögðum finnsku ríkisstjórnarinnar og gefur honum tilefni, eða maður getur skilið svo, að hann telji að Íslendingar gætu farið svipað að. Ég vitna, með leyfi forseta, í þessa grein, örstuttan kafla, en þar segir hann orðrétt:
    ,,Full ástæða er fyrir okkur Íslendinga að fylgjast náið með því hvernig Finnar hafa staðið að því að móta stefnu sína og taka ákvörðun um þátttöku í EB. Þótt aðstæður okkar og Finna séu ekki hinar sömu er margt líkt með hagsmunum þjóðanna þegar litið er til Evrópusamstarfsins.``
    Ég er gersamlega ósammála þessari niðurstöðu þingmannsins. Ég tel að Finnar --- það er ekki efni þessa fundar að ræða aðildarumsókn Finna sérstaklega eða hvernig hana ber að, en Finnar búa við allt aðrar forsendur og allt aðrar aðstæður en Íslendingar. Það kann að vera að þeirra mat sé litað af því að þeir eru komnir í óbotnandi erfiðleika vegna þess að viðskiptin við Sovétríkin eru hrunin, í bili a.m.k. Þeir sitja uppi með ægilegt atvinnuleysi og fram undan eru mjög miklir erfiðleikar í efnahagslífi Finnlands. Það sem ég lít alvarlegum augum er það að hér talaði einn nánasti samstarfsmaður hæstv. forsrh. og einn af leiðtogum Sjálfstfl. og þar að auki ráðamaður á Morgunblaðinu sem eins og allir vita mótar mjög skoðanir íslensku þjóðarinnar í krafti útbreiðslu sinnar og fjárráða. Þess vegna er full ástæða til að taka þetta alvarlega.
    Ég tel að samvinna við Norðurlönd hafi á undanförnum árum verið okkur mjög mikilvæg og við eigum að sjálfsögðu að reyna að kappkosta að varðveita hana svo lengi sem við getum án þess að fórna miklu öðru sem mikilvægara væri. Og við hörmum það að sjálfsögðu ef hún fjarar út. En hún er að sjálfsögðu ekki svo mikilvæg að fyrir hana sé fórnandi hverju sem er. Ég tel að við eigum að leggja höfuðkapp á að efla vestnorræna samstarfið og það mun standa eða gæti staðið með blóma í framtíðinni hvað svo sem Evrópusamstarfi líður. Jafnframt tel ég að við eigum að leggja kapp á að auka samstarf þjóðanna á norðurhjaranum og fyrir frumkvæði hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar hefur Norðurlandaráð lagt drög að stefnumörkun í þá átt.
    Að sjálfsögðu munu um ókomin ár eða a.m.k. um næstu framtíð ýmsar af þeim merku stofnunum, sem þróast hafa í skjóli Norðurlandaráðs eða fyrir frumkvæði þess og norræns samstarfs, halda áfram að starfa. Ég vildi sem sagt gjarnan að ég gæti verið eins bjartsýnn á framtíð norræns samstarfs og þeir sem töluðu næstir á undan mér. Því miður er ég það ekki. Og það er ekki vegna þess að mér sé ekki ljóst mikilvægi þessa samstarfs og mér sé ekki mikil eftirsjá í því ef það bíður hnekki.