Fríverslunarsamningur EFTA við Tyrkland

112. fundur
Föstudaginn 27. mars 1992, kl. 10:31:00 (4821)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og lýðveldisins Tyrklands sem gerður var í Genf 10. des. 1991.
    Samningur þessi sem nú liggur fyrir Alþingi byggir í meginatriðum á fríverslunarsamningum þeim sem EFTA-ríkin gengu frá við Evrópubandalagið árið 1972 þó svo að texta hafi í nokkrum tilvikum verið hnikað í samræmi við stofnskrá EFTA-Stokkhólms sáttmálann og til samræmis við það fríverslunarsamstarf sem síðan hefur þróast. T.d. má nefna að bætt hefur verið inn í samninginn fyllri ákvæðum um ríkisstyrki, hugverkaréttindi og opinber útboð. Í raun er hér ekki verið að fitja upp á nýjungum heldur er verið að útvíkka það fríverslunarsamstarf sem verið hefur innan Vestur-Evrópu gagnvart Tyrklandi, þ.e. stækka fríverslunarsvæðið. Fleiri samningar svipaðs eðlis eru í bígerð. Samningur við tékkneska og slóvakíska sambandslýðveldið var undirritaður í síðustu viku, samningar við Pólland og Ungverjaland eru langt á veg komnir og hið sama má segja um Ísrael. Vonir standa til að fríverslunarsamningur Íslands við Færeyjar geti verið tilbúinn til undirritunar innan skamms.
    Þó svo að viðskipti okkar við Tyrkland hafi ekki verið ýkjamikil á undanförnum árum er hér um stóran og vaxandi markað að ræða sem í framtíðinni getur skipt verulegu máli. Hagvöxtur hefur verið mikill í Tyrklandi undanfarin ár, nam t.d. 9,2% árið 1990 og spáð er um 6% hagvexti á yfirstandandi ári. Það hefur verið einkenni fríverslunarsamninga til þessa að þeir nái eingöngu til iðnvarnings sem fellur undir tollskrárflokka 25--97 þótt iðnvarningur úr landbúnaðarhráefni hafi að hluta verið tekinn með samkvæmt sérstökum reglum. Sjávarafurðir hafa að mestu fallið utan samninga sem þessa þó nokkrar mikilvægar útflutningsafurðir Íslendinga hafi fengist með í fríverslunarsamningi Íslands og EB frá 1972.
    Það sem skiptir verulegu máli að því er varðar þann samning sem fyrir liggur hér til staðfestingar við Tyrkland er að þeim áfanga var náð að málstaður sá sem við höfum lengi barist fyrir innan EFTA að fá fram fulla fríverslun með sjávarafurðir fékkst í fyrsta skipti viðurkenndur í samningum við ríki utan fríverslunarsamtakanna. Við væntum okkur góðs af þessu fordæmi í framtíðinni og höfum reyndar þegar uppskorið að hluta því fríverslun með sjávarafurðir er einnig viðurkennd í fríverslunarsamningi þeim sem umhvrh. undirritaði í mínu umboði í Prag sl. föstudag. Ætlunin er að halda því til streitu í samningaviðræðum þeim sem fram undan eru að full fríverslun með sjávarafurðir verði viðurkennd.
    Nánari grein er gerð fyrir aðdraganda og uppbyggingu samnings þessa í athugasemdum við þáltill. sem dreift hefur verið og tel ég ekki ástæðu til að orðlengja um það hér. Ég vil hins vegar ítreka að þar sem hér er ekki um neitt nýtt kerfi að ræða heldur útvíkkun á því kerfi sem í framkvæmd hefur verið undanfarin 20 ár hefur ekki verið dreift til þingmanna öllum þeim skjölum sem snerta framkvæmd tollyfirvalda á einstökum ákvæðum samningsins. Æltunin er að þeir textar birtist með reglugerð síðar.
    Ég vil að lokum leyfa mér, virðulegi forseti, að mæla með því að þessari þáltill. verði að lokinni umræðu vísað til hv. utanrmn.