Fríverslunarsamningur EFTA við Tyrkland

112. fundur
Föstudaginn 27. mars 1992, kl. 10:35:00 (4822)


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að bjóða hæstv. utanrrh. velkominn til þings á nýjan leik. Hann hefur verið fjarverandi nokkuð lengi vegna veikinda og það er ánægjulegt að sjá hann svona sæmilega vel hressan hér í þingsalnum.
    Það mál sem hann talaði hér fyrir, till. til þál. um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja EFTA og lýðveldisins Tyrklands, er samningur sem mér finnst sjálfsagt að taka jákvætt. Alþb. er fyrir sitt leyti reiðubúið að greiða fyrir því að hann fái eðlilega athugun hér í þinginu og afgreiðslu fyrir vorið. Sjálfsagt er nauðsynlegt að skoða einstaka þætti í samningnum eins og að nokkru leyti var vikið að í framsöguræðu hæstv. utanrrh.
    Það er að mörgu leyti ánægjulegt að alþjóðleg viðskipti Íslendinga geti staðið traustum fótum sem víðast og þótt margt megi segja um stjórnarfar og efnahagsástand í Tyrklandi þá er nokkuð ljóst að ef þeim tekst að halda sæmilega utan um sín mál, þá gætu þeir á þessum áratug eða í byrjun næstu aldar orðið eitt af hinum öflugu drifhjólum í efnahagslífi ekki aðeins Evrópu heldur einnig veraldarinnar allrar og það er auðvitað mikilvægt að binda böndum ákveðið form viðskipta okkar við Tyrkland.
    Það er hins vegar merkileg tilviljun að hæstv. utanrrh. skuli gera það að sínu fyrsta verki þegar hann kemur hér aftur til þings að mæla fyrir þessum samningi milli EFTA og lýðveldisins Tyrklands þegar hann birtir þjóðinni boðskap um það að Íslendingar eigi að hefja athugun á því að yfirgefa EFTA.
    Í skýrslu sem hæstv. utanrrh. lagði fram hér á Alþingi í gær boðar hann algjöra stefnubreytingu hjá núv. hæstv. ríkisstjórn og þó að eðlilegt sé að sú umræða fari fram í heild sinni þegar hæstv. ráðherra mælir fyrir sinni skýrslu, þá væri það óeðlilegt ef við umræðu um þennan lið væri ekki drepið nokkuð á þessi merkilegu tíðindi.
    Þegar hæstv. forsrh. Davíð Oddsson kynnti stefnu sinnar ríkisstjórnar, þá var eitt atriði alveg skýrt í stefnugrundvellinum, svo skýrt að hæstv. forsrh. hefur hvað eftir annað endurtekið það og gefið til kynna að þar væri um skuldbindingu af hálfu hæstv. forsrh. og ríkisstjórnarinnar að ræða, skuldbindingu sem ekki væri ætlunin að hvika frá og íslenska þjóðin gæti treyst. Þessi yfirlýsing hæstv. forsrh. fyrir hönd ríkisstjórnarinnar hefur orðið til þess að margir, og ég held stjórnarandstöðuflokkarnir allir á Alþingi, hafa í trausti þessarar yfirlýsingar ekki verið að taka á dagskrá umræðu um aðild Íslands að Evrópubandalaginu. Við treystum einfaldlega þeirri stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar að það væri ekki ætlunin á valdatíma núv. ríkisstjórnar að taka það mál á dagskrá. Þannig var yfirlýsingin. Yfirlýsingin var ekki um það hvort aðild að Evrópubandalaginu kæmi til greina eða ekki, hvort hún væri skynsamleg eða óskynsamleg, hvort það ætti að athuga hana eða ekki athuga hana. Yfirlýsingin var einfaldlega á þann veg að það væri ekki á dagskrá að taka það til umfjöllunar að einu eða neinu leyti. Því máli væri vikið út af borðinu svo lengi sem núv. ríkisstjórn sæti. Aðild Íslands að Evrópubandalaginu væri einfaldlega ekki á umfjöllunarborði núv. ríkisstjórnar, hvorki sem athugunarefni, könnunarefni né ákvörðunarefni.
    Við treystum þessari yfirlýsingu. Ég treysti henni persónulega, Alþb. treysti henni pólitískt og stjórnarandstaðan hér á Alþing hefur í störfum þingsins í allan vetur hagað sínum störfum í samræmi við það að þessum orðum mætti treysta.
    Nú gerist það hins vegar í gær að hæstv. utanrrh. leggur hér á borð þingmanna skýrslu sína í meiri viðhafnarbúningi en hún hefur áður sést, og ekki skal ég lasta það, en þar er boðuð allt önnur stefna. Allt, allt önnur stefna. Þannig að fyrsta spurningin í hugum okkar sem lásum þessa skýrslu í gær er einfaldlega þessi: Er þetta stefna ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar eða ekki? Já eða nei? Málið er svo stórt að við því verður að fást skýrt og afdráttarlaust svar því að við höfum treyst hér í þinginu, flokkarnir, og þjóðin hefur treyst því að orð Davíðs Oddssonar stæðu. Mér þykir þess vegna nokkuð leitt að hæstv. forsrh. sé ekki viðstaddur þessa umræðu en ég ætla ekki að gera kröfu til þess að hann sé sóttur. En ég vil bera þá spurningu fram til hæstv. utanrrh.: Er sú stefnubreyting sem hann boðar í skýrslu sinni í nafni ríkisstjórnarinnar eða ekki? Ég vona að hæstv. utanrrh. verði við þeirri ósk að svara því skýrt og afdráttarlaust með já-i eða nei-i hér á eftir.
    Á bls. 18 í skýrslunni segir hæstv. utanrrh. orðrétt: ,,Því er nauðsyn að fram fari hér í ráðuneytum og stjórnarstofnunum ítarleg úttekt á því hvað EB aðild hefði í för með sér. Að lokinni slíkri úttekt verður fyrst hægt að hafna aðildarkostinum að vandlega athuguðu máli.``
    Virðulegi utanrrh. Þín eigin orð hvað eftir annað hér á undanförnum árum hafa verið á þann veg að Rómarsáttmálinn væri alveg skýr og þau ríki sem væru að sækja um aðild að Evrópubandalaginu yrðu að gangast undir Rómarsáttmálann eins og hann liggur fyrir og væntanlega einnig samkomulagið í Maastricht verði það staðfest. Við þurfum þess vegna ekkert að kanna málið. Þetta liggur alveg fyrir skýrt og greinilega. Orðin í skýrslunni eru einfaldlega ábending um að það eigi ekki bara að taka til athugunar að ganga í Evrópubandalagið, það sé þá aðeins hægt að hafna slíkum kosti að ganga í Evrópubandalagið þegar Stjórnarráðið og stjórnarstofnanir hafa lokið þessari athugun. Hingað til hafa allir íslenskir stjórnmálaflokkar sagt að útgangspunkturinn sé að hafna aðild. Meira að segja hæstv. utanrrh. hefur sjálfur sagt: Meðan fiskveiðistefna Evrópubandalagsins er óbreytt kemur aðild ekki til greina. Ég hugsa að það væri auðvelt að finna margar tilvitnanir í hæstv. utanrrh. þar sem þeirri stefnu hefur verið lýst. Í skýrslunni er hins vegar boðað allt annað. Nú þarf að fara að athuga og kanna og meira að segja Stjórnarráðið á að fara í

vinnu við að kanna þetta og allar stjórnarstofnanirnar. En stjórnarskrá Evrópubandalagsins er skýr. Rómarsáttmálinn er afdráttarlaus. Fiskveiðistefnunni verður ekki breytt á næstu árum og jafnvel ekki næsta áratug. Maastricht-samkomulagið liggur fyrir. Það er verið að mynda í Evrópu bandaríki Evrópu með sterku miðstjórnarvaldi, afnámi fullveldis á afgerandi sviðum, sameiginlegum seðlabanka, sameiginlegri peningastjórn, afgerandi pólitískum ákvörðunum í Evrópuþinginu og stjórn málefnanna frá Brussel og ytri tollum gagnvart umheiminum. Þetta þarf ekkert að kanna. Þetta liggur allt saman fyrir. Og þetta eru grundvallaratriði sem nægja mér, nægja Alþb. og hafa hingað til nægt yfirgnæfandi meiri hluta íslensku þjóðarinnar til þess að hafna algjörlega aðild að Evrópubandalaginu. Það þarf ekki að eyða dýrmætum tíma Stjórnarráðsins til að kanna það mál, hæstv. utanrrh., nema þetta sé fyrsta skrefið í því að formaður Alþfl. sé að búa flokk sinn og þjóðina undir það að Alþfl. ætli að fara að berjast fyrir aðild Íslands að Evrópubandalaginu.
    Ég ætla ekki að rifja upp síðustu kosningabaráttu, hæstv. utanrrh. En þeir sem gagnrýndu Alþfl. fyrir stefnuna í Evrópumálunum í síðustu kosningabaráttu --- og ég er nú ekki framarlega í þeim hópi, það voru aðrir menn sem stóðu framarlega í þeim slag, hæstv. utanrrh. ( Gripið fram í: Þú komst hvergi nærri.) En þeir menn hefðu auðvitað talið sinn málflutning sannaðan ef þeir hefðu af framsýni getað sagt að fyrir vorið 1992 mundi formaður Alþfl., hæstv. utanrrh., leggja fram þennan texta fyrir Alþingi.
    Síðan segir í skýrslunni á bls. 19: ,,Fyrst og fremst verður að kanna mælanleg áhrif EB aðildar á íslenskt efnahagslíf og stjórnkerfi. Því fer fjarri að slík könnun jafngildi meðmælum með aðild að EB, en hitt væri ábyrgðarleysi að kanna ekki . . .  `` ( Forseti: Forseti vill benda hv. þm. á að nk. þriðjudag er skýrsla utanrrh. á dagskrá. Hún er ekki á dagskrá í dag.) Nei, virðulegi forseti. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því og sagði það fyrr í minni ræðu að ég ætlaði ekki að fara að taka þessa skýrslu hér til umfjöllunar. Hins vegar vona ég að virðulegi forseti skilji það að þessar yfirlýsingar eru auðvitað slík stórtíðindi í íslenskum stjórnmálum að þegar mælt er fyrir samningi milli EFTA og Tyrklands, þá er óhjákvæmilegt að víkja nokkuð að þessum yfirlýsingum vegna þess að þær fela það í sér m.a. að verið er að boða það að EFTA eigi hugsanlega að leggjast niður sem stofnun sem Íslendingar taki þátt í. Ég ætlaði mér ekki, virðulegi forseti, að fara í ítarlegar umræður nú um þessa skýrslu en vona að mér verði fyrirgefið þó að ég taki hér 10 mínútur, stundarfjórðung eða svo til að víkja að þessum málum því að þau eru svo stór, þau eru svo afgerandi að það er eiginlega ekki hægt að láta þau fram hjá sér fara.
    Síðan segir í skýrslunni: ,,Því fer fjarri að slík könnun jafngildi meðmælum með aðild að EB, en hitt væri ábyrgðarleysi að kanna ekki hvað afleiðingar hún hefði í för með sér.`` --- Þetta er algjörlega nýr tónn.
    Ég held líka að maður geti fundið í ræðum hæstv. utanrrh. skýrar yfirlýsingar um það að eitt af því sem gerir samninginn um Evrópskt efnahagssvæði ákjósanlegan að hans dómi sé að þar sé verið að finna samskiptum Íslands og Evrópubandalagsins varanlegan búning. Ég vil segja það við hæstv. utanrrh. strax hér og nú að þessi yfirlýsing í skýrslunni, um nauðsyn þess að kanna nú aðild Íslands að Evrópubandalaginu og þá fyrst hafna henni þegar slíkri könnun væri lokið, er kannski mesta aðförin að breiðri samstöðu um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði sem nokkur maður hefur beitt sér fyrir. Og það er dálítið dapurlegt að utanrrh. skuli sjálfur verða til þess að kippa þannig stoðunum undan því að möguleiki hafi verið á því að ræða hér á landi á næstu mánuðum víðtæka samstöðu flokka og hreyfinga um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði vegna þess að menn ætluðu að sameinast um það að hann væri hin varanlega endastöð samskipta Íslands við Evrópubandalagið. Nú segir hæstv. utanrrh. að hann verði bara stoppistöð. Hann verður bara stoppistöð og við eigum strax að fara að kanna hvort við förum ekki bara á sjálfa aðalstöðina. Þar með, virðulegi utanrrh., er verið að sanna þann málflutning sem samtökin Samstaða hafa haldið fram og hæstv. utanrrh. hefur manna mest gagnrýnt hér í þingsölum að það sé beint samhengi á milli EES-samningsins og aðildar að Evrópubandalaginu.
    Ég vil þess vegna taka undir þau orð hv. þm. Steingríms Hermannssonar, formanns Framsfl., sem hann lét falla í útvarpsþætti seint í gærkvöldi, að með þessari yfirlýsingu er utanrrh. nánast að kippa stoðunum undan því að hér geti farið fram eðlileg, róleg, málefnaleg og yfirveguð umræða um EES-samninginn. Hann hefur með einu skjali á Alþingi síðdegis í gær breytt þeirri umræðu yfir í umræðu um aðild Íslands að Evrópubandalaginu. Það getur vel verið að hæstv. utanrrh. hafi komist að þeirri niðurstöðu að það væri óhjákvæmilegt að gera það en ég vil segja það strax að það þóttu mér slæm tíðindi. Ég hafði vonast til að hér gæti á næstu mánuðum orðið ítarleg, málefnaleg og róleg og yfirveguð umræða um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði en nú er búið að hella bensíni á þær glæður þannig að þær gætu orðið að eldi mikillar og heitrar umræðu á næstu mánuðum.
    Ég vil líka segja það að lokum við hæstv. ráðherra, af því ég veit að hann er mikill áhugamaður um Alþýðublaðið og við erum það ýmsir og erum í þessum fámenna hópi manna sem les það af gaumgæfni vegna þess að það er búið að fá svona álíka hlutverk og Pravda hafði á sínum tíma í Sovétríkjunum, að Alþýðublaðið hefur kannski það eina hlutverk að vera ábending um það hvað sé að gerast innan kremlarmúra Alþfl., að ég hef tekið eftir því að fyrir svona tveim til þremur vikum síðan fóru að birtast í Alþýðublaðinu dálítið undarlegar fréttir. M.a. var slegið upp á forsíðu með risavöxnu letri: ,,Ísland og Albanía ein eftir utan EB.`` Heimildin voru einhverjir . . .   ( Utanrrh.: Voru Norðmenn.) (Gripið fram í.) Já, einmitt, ég var að finna hæfilegt íslenskt orð yfir þetta, ég ætlaði að nota erlenda orðið ,,obscure`` en ég

vil ekki gera það hér í ræðunni. Það var alla vega einhver lítt kunnur aðili. ( ÖS: Þetta er ,,obskjúrantismi`` hjá þér.) Ég vil biðja formann þingflokks Alþfl. að vera ekki að blanda sér inn í þessar samræður mínar við hæstv. utanrrh. Þessi frétt sem kom í Alþýðublaðinu að engu sérstöku tilefni virtist gefa það til kynna að einhverjir úr ritstjórn Alþýðublaðsins sæju ástæðu til að lyfta þessu sjónarmiði. Síðan hafa komið fleiri fréttir af þessu tagi með álíka lítt þekktar heimildir. Svo tók ég líka eftir því að lokaorð hæstv. utanrrh. í ræðu sem hann flutti á ráðstefnu sem Evrópubandalagið efndi hér til voru á þann veg að þótt samningur um Evrópskt efnahagssvæði gæti dugað efnahagslega þá væri ekki víst að hann dygði pólitískt. Ég hrökk dálítið við þegar ég las þessi lokaorð því þau voru allt annað heldur en hæstv. ráðherra hefur sagt áður. Þegar maður leggur saman það sem birst hefur í Alþýðublaðinu á síðustu tveimur til þremur vikum í fréttaflutningi og skrifum öðrum og þessa skýrslu sem lögð var fram í gær, þá hafa gerst þau stórtíðindi að forusta Alþfl. hefur ákveðið að knýja á um umræðu og afstöðu flokkanna til þess að íslenska stjórnkerfið fari að kanna í alvöru aðild að Evrópubandalaginu.
    Ég get sagt það strax hér og nú: Alþýðubandalagið mun ekki taka þátt í þeirri könnun vegna þess að við höfum nægilega mikið kynnt okkur Rómarsáttmálann, við höfum nægilega mikið kynnt okkur Maastricht-samkomulagið til þess að hafa alveg á hreinu að við teljum að lýðveldið Ísland eigi ekki erindi inn í það sambandsríki sem verið er að mynda í Evrópu, það þjóni ekki hagsmunum okkar, hvorki efnahagslegum, pólitískum né landfræðilegum. Ég ætla ekki að taka umræðuna um þessa þáltill. til þess að rökstyðja það sjónarmið, það mun örugglega gefast nægur tími á næstu vikum og mánuðum til þess að gera það ef hæstv. utanrrh. heldur við þá stefnu sem hann boðar í sinni skýrslu. En hitt er hin brennandi spurning dagsins: Hver er afstaða forsrh. Davíðs Oddssonar til þessarar stefnubreytingar? Og hvernig ætlar hann að útskýra það, fyrir þjóðinni fyrst og fremst, hvernig það skilyrðislausa fyrirheit sem hann gaf um að í tíð hans ríkisstjórnar yrði aðild að Evrópubandalaginu ekki tekin á dagskrá, samrýmist þeirri stefnubreytingu sem utanrrh. flytur hér? Eða er utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson farinn að tala gegn þeirri stefnu sem forsrh. hefur síðast í Helsinki sagt þjóðinni og umheiminum að væri skilyrðislaus og afdráttarlaus stefna íslensku ríkisstjórnarinnar?