Fríverslunarsamningur EFTA við Tyrkland

112. fundur
Föstudaginn 27. mars 1992, kl. 11:12:00 (4826)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er eindregin ósk mín að þetta verði málefnaleg umræða, eindregin. Og þá verður hæstv. utanrrh. líka að standa við þau orð sem eru skýr í hans skýrslu. Það hefur enginn haldið því fram að hann hafi sagt hér eða í skýrslunni að Íslendingar eigi að leggja fram umsókn um aðild að Evrópubandalaginu. Það hefur enginn maður sagt það. ( Utanrrh.: Jú.) Það sem hins vegar hefur verið sagt er það að hæstv. utanrrh. breytir þeirri afstöðu sem allir íslenskir stjórnmálaflokkar hafa haft fram að þessu, að hafna aðild að Evrópubandalaginu. Hæstv. utanrrh. segir í skýrslunni á bls. 18: Það er ekki hægt að hafna aðild að Evrópubandalaginu fyrr en ráðuneytin og stjórnarstofnanir hafa farið í ítarlega könnun. Það er stefnubreytingin. Hann gefur sér það sem útgangspunkt að það er opið mál að ganga í Evópubandalagið. Það sem þarf að sanna er að gera það ekki. Það er algjörlega nýtt. Hingað til hafa forustumenn íslenskra stjórnmála sagt: Við höfum lesið Rómarsáttmálann. Við höfum skoðað Maastricht-samkomulagið. Við teljum að sú braut sem ríkin á meginlandi Evrópu eru á samrýmist ekki sjálfstæði og fullveldi íslensku þjóðarinnar. Við viljum ekki vera undir evrópskum seðlabanka, evrópskri peningamálastjórn. Við viljum ekki hafa ytri tollmúra gagnvart umheiminum eins og Evrópubandalagið er að taka upp. Það samrýmist ekki efnahagslegu og pólitísku sjálfstæði íslensku þjóðarinnar að skrifa undir slíkan Rómarsáttmála. Við erum það kunnugir málunum að við þurfum ekki langan tíma til að athuga það.
    Það er satt að segja mjög merkilegt að maður sem hefur verið utanrrh. Íslands senn í fjögur ár telji sig þurfa að kanna þetta eitthvað sérstaklega. Enda er hann að segja nýja hluti. Þess vegna er þessi umræða. Þeir nýju hlutir sem hann er að segja eru þessir: Það er ekki hægt að hafna aðild. Það verður að sanna að það eigi að hafna henni og tilgangur könnunarinnar, sem hann er að biðja um að fari fram í öllu Stjórnarráðinu á Íslandi, er að sanna það að Ísland eigi ekki að fara í Evrópubandalagið.
    Það er leitt að hæstv. forsrh. skuli ekki vera hér í dag vegna þess að okkur öllum sem höfum hlustað á hann senn í heilt ár lýsa stefnu ríkisstjórnarinnar er ljóst að hér er um afgerandi stefnubreytingu að ræða.