Fríverslunarsamningur EFTA við Tyrkland

112. fundur
Föstudaginn 27. mars 1992, kl. 11:14:00 (4827)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er ljóst að við Íslendingar stöndum á krossgötum og þurfum að hugsa stöðu okkar upp á nýtt. En ég ætla að geyma mér umræðu um Evrópumálin, að hluta til alla vega, þar til á þriðjudaginn og ræða um þá tillögu sem hér er til umræðu. Ég verð að segja það að miðað við þær fréttir sem berast frá Tyrklandi, þá finnst mér hún koma á afar óheppilegum tíma. Það var haft við orð á árunum fyrir fyrri heimsstyrjöldina að Tyrkir væru sjúki maðurinn í Evrópu og það verður ekki betur séð en það sé nokkur krankleiki þar á ferð enn þá.
    Undanfarna daga hafa borist fregnir af því að Kúrdar hafi haldið uppi mótmælum og tyrknesk stjórnvöld brugðist við með loftárásum á þorp Kúrda. Það hafa þegar komið fram viðbrögð við þessu, m.a. hafa Þjóðverjar stöðvað vopnasendingar til Tyrklands. Það var reyndar að skilja á fréttum að þeir væru að reyna að losa sig við ýmislegt gamalt drasl frá Austur-Þýskalandi, en ekki skánar málstaðurinn ef þau vopn eru notuð gegn Kúrdum. Að mínum dómi þurfa Tyrkir á ýmiss konar stuðningi að halda. Þeir eru vanþróaðir miðað við ýmis önnur ríki. Þeir vilja tengjast Evrópu og þeir eiga aðild að ýmsum stofnunum eins og Evrópuráðsþinginu þar sem Evrópuþjóðirnar ráða för, en þeirra stjórnarfar er með þeim hætti að þrátt fyrir yfirborðslega lýðræðisþróun er ákaflega skammt í ofbeldi og mannréttindabrot og þeir hafa verið margásakaðir fyrir mannréttindabrot og illa meðferð m.a. á stjórnarandstöðunni. Því hljóta að vakna spurningar varðandi þennan samning sem hér á að fara að fullgilda miðað við það ástand sem nú ríkir í Tyrklandi.
    Sú spurning vaknar hjá mér hvort ekki sé hægt að nota þennan samning, sem ég reikna með að sé Tyrkjum nokkuð mikilvægur, til þess að þrýsta á um að þeir taki nú til heima hjá sér og efli virðingu fyrir lýðræði og mannréttindum. Það vaknar líka sú spurning hvort nota megi þennan samning til þess að þrýsta á um það að gengið verði í það að leysa vandamál Kúrda. Kúrdar stinga upp kollinum í heimsfréttunum hvað eftir annað, sæta ótrúlegum ofsóknum og eiga við mikil vandamál að stríða vegna þess að þeirra þjóð býr dreifð milli a.m.k. þriggja ríkja og þeir búa á landamærum ríkja þar sem stjórnarfarið er vægast sagt með hörmulegum hætti. Þess vegna verð ég að lýsa því hér sem minni skoðun að við, sem teljumst þó í hópi lýðræðisþjóða og getum látið rödd okkar hljóma í þágu lýðræðis í heiminum, eigum að beita okkur til þess að setja Tyrkjum stólinn fyrir dyrnar.
    Það er auðvitað alltaf spurning hversu langt á að ganga í því að tengja saman viðskipti og stjórnmál eða stjórnmálaátök. Við höfum ýmis dæmi um það þar sem það hefur tekist misjafnlega. Ég vil meina að hið langvinna viðskiptabann við Suður-Afríku sé nú loksins að skila sér í auknum mannréttindum þar. Menn geta spurt sig að því hvort viðskiptabannið sem sett var á Írak hafi fengið að vinna sitt verk og hvort ekki var gripið þar allt of snemma inn í með vopnuðum átökum. Ég held að eins og málin standa nú sé ekki rétt að staðfesta þennan samning. Ég verð að lýsa því hér sem minni skoðun að ég treysti mér ekki til þess að styðja þennan samning meðan ástandið í Tyrklandi er með þeim hætti sem raun ber vitni.