Fríverslunarsamningur EFTA við Tyrkland

112. fundur
Föstudaginn 27. mars 1992, kl. 11:27:00 (4829)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Till. til þál. um fullgildingu fríverslunarsamnings milli EFTA og Tyrklands er hér til umræðu. Í fljótu bragði, og það kemur reyndar fram í athugasemdunum, þá virðist samningurinn ekki hafa mikla þýðingu fyrir Ísland. Það eru fyrst og fremst, sýnist mér, Sviss, Svíþjóð og Austurríki sem hafa knúið á um að þarna yrði gerður fríverslunarsamningur.
    Mig langaði til að spyrja hæstv. utanrrh. hvort ekki hafi komið það sjónarmið inn í samningana eða í umræðunum um þennan samning sem kom fram hjá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur um þá atburði sem eiga sér stað í Tyrklandi. Ég tek undir það með henni að ég tel mjög vafasamt að hægt sé að gera samning við Tyrkland meðan það ástand varir sem þar er. Ég vil því spyrja hvort þetta hafi ekkert komið til tals og raunar spyrja hæstv. utanrrh. um álit hans á þessu.
    En á bls. 2 í lok athugasemdannanna með tillögunni segir, með leyfi forseta: ,,Varðandi innflutninginn væri ekki ólíklegt að álykta að hann gæti aukist eitthvað í kjölfar lækkandi tolla á þeim vörum sem komið hafa frá Tyrklandi.`` Mig langar til að spyrja hvaða vörur þetta eru. Það eru kannski fyrst og fremst ávextir en eru það einhverjar aðrar vörur sem þarna gæti verið um að ræða. Og síðan var aðeins smáatriði á bls. 4. Þar er talað um að þó ekki sé um að ræða miklar fjárhæðir varðandi fríverslun með sjávarafurðir, þá skipti það máli að hér sé í fyrsta skipti viðurkennd sú fríverslun utan EFTA. En mig langaði til að spyrja í tilefni af þessum orðum hvernig gangi með að koma á fríverslun innan EFTA því að ýmis vandkvæði hafa verið á því, m.a. að því er varðar Norðmenn, þeir hafa ekki látið af stuðningi sínum við sjávarútveg þar. Mig langaði því til að spyrja hæstv. utanrrh. um það í tilefni af framlagningu þessarar till. til þál.
    Almennt vil ég segja að það er mjög erfitt að fallast á þennan samning og utanrmn. þurfi að fara mjög nákvæmlega ofan í málið áður en við getum fullgilt það hér á Alþingi. Og mér þykir mjög eðlilegt að tengja það, eins og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir sagði, við þá atburði sem nú eiga sér stað í Tyrklandi.
    En þar sem hér hafa verið til umræðu ýmis fleiri mál sem tengjast auðvitað þessu máli óbeint, þá verð ég að segja það, virðulegur forseti, að það kom mér ekki á óvart sem kom fram í ræðu hæstv. utanrrh. hér áðan, að það væri engin stefnubreyting hjá ríkisstjórninni í afstöðunni til EB. Ég er alveg sannfærð um það að sú ríkisstjórn sem nú situr hefur haft það allan tímann á sinni stefnuskrá að samningur um Evrópskt efnahagssvæði væri einungis stoppistöð inn í Evrópubandalagið. Það kom mér því ekkert á óvart og ég held að það sé alveg rétt hjá hæstv. utanrrh. að þetta er engin stefnubreyting. Þetta hefur allan tímann verið á stefnuskránni. Stefnan, sagði hann hér áðan, er að ná samningum um Evrópskt efnahagssvæði, og það er ábyggilega alveg rétt. Stefnan er að ná samningum um Evrópskt efnahagssvæði til þess að geta síðan tekið skrefið til fulls og farið alla leið inn í EB. Og eins og ráðherrann sagði er að hans mati ekki nema um tvo kosti að ræða, það er annaðhvort að fara inn í EB eða fá samning um EES. Ég sé hins vegar þriðja kostinn og það er sá kostur að standa utan við hvort tveggja.
    Ég veit nægilega mikið um Evrópubandalagið til að taka afstöðu til þess hér og nú, ég þarf ekki á neinni könnun að halda í ráðuneytum til þess að sjá það hér og nú, og kannski sérstaklega eftir Maastricht-samkomulagið, að ég tel ekki að það sé kostur fyrir Ísland að ganga í Evrópubandalagið. Ég þarf ekki neinar kannanir í ráðuneytum um afleiðingar eða eins og í skýrslu utanrrh. kemur fram að þá fyrst eigi að hafna aðildarkostum eftir könnunina. Það þarf enga könnun að mínu mati til þess. Við verðum að athuga það að eftir Maastricht-samkomulagið eru enn þá meiri völd færð frá þjóðþingum til miðstjórnar í Brussel. Það er talað um sameiginlegan seðlabanka, sameiginlega mynt, sameiginlega utanríkis- og varnarmálastefnu og að Evrópubandalagið muni tala einni röddu í utanríkismálum. Það er talað um EB-ríkisborgararétt. Ég þarf ekkert meira en þetta. Við eigum auðvitað að standa utan við þetta allt saman. Ég held að það sé alveg ljóst að alla þá fyrirvara sem talað var um í upphafi varðandi EES-samninginn er búið að keyra á haugana fyrir lifandis löngu. Það var alveg ljóst hvert stefndi eftir að síðustu samningar litu dagsins ljós. Þá var ekkert eftir. Það stóð ekki steinn yfir steini varðandi þær yfirlýsingar sem komu fram hér á þingi í upphafi samningaviðræðna.
    Að mínu mati var mjög gott að fá þessar yfirlýsingar frá hæstv. utanrrh. og ég tek þær auðvitað sem yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar því að skýrsla hæstv. utanrrh. getur ekki verið persónuleg skoðun hans. Hann verður þá að taka það sérstaklega fram og senda okkur þá sérbréf en ekki skýrslu utanrrh. sem hlýtur að vera stefna ríkisstjórnarinnar. Það kom mér reyndar á óvart, en það er kannski ágætt, að bæði formaður Alþb. og formaður Framsfl. átti sig á því hvert þessi ríkisstjórn stefnir, þ.e. beinustu leið inn í EB. Þeir þurfa greinilega að fá þetta svart á hvítu og það er þá gott að það er komið svart á hvítu hver stefnan er. En af ýmsum ummælum bæði hæstv. forsrh. og utanrrh. hefur það ekki vafist fyrir mér að þeir stefndu beinustu leið inn í EB og að EES var einungis stoppistöð og það átti ekkert að stoppa þar lengi.